Sannarlega flaggskip

TEGUND: Hyundai Santa Fe

Árgerð: 2019

Orkugjafi:

140
DEILINGAR
1.3k
SMELLIR

Sannarlega flaggskip

Það var á drapparalegum laugardegi sem ég mætti til Hyundai í Kauptúni til að fá að prufa nýjan Santa Fe. Vetur konungur var að byrja að banka uppá og ég hugsaði að núna hlyti veturinn að fara að koma almennilega og því væri fínt að fyrsti bílinn sem ég prufa þennan veturinn sé jeppi.

Santa Fe er núna að koma í sinni fjórðu kynslóð og skal ég játa að ég hef ekki verið spenntur fyrir þeim áður, enda voru fyrstu kynni mín af honum að sitja í aftursætinu og hljóta hraðasekt sumarið 2004. Þessi skoðun mín á jeppanum var kannski fín en um leið og ég sá bílinn í salnum varð ég dolfallinn. Spennan magnaðist hjá mér og þegar ég var kominn með lykilinn í hendurnar var ég mættur útí bíl hið snarasta. Ef þú hefur átt Hyundai undanfarin ár verður þetta eins og að hitta gamlan vin sem hefur keypt sér ný og flottari föt. Hönnunin er einstaklega vel heppnuð og þá sérstaklega afturljós bílsins í myrkri að mínu mati.

Nei, þetta er ekki geimskip, þetta eru afturljósin á Santa Fe sem lýsa vel hversu mikið hefur verið lagt í útlitshönnun hans.

Öll stjórntæki eru þar sem þú býst við að finna þau og allt er svo skýrlega merkt og einfalt að skilja að hinir elstu samborgarar og okkar verstu hipsterar með Nokia 5110 í vasanum myndu finna, skilja og nota alla þá tækni sem í bílnum er.

Ég var með Premium bíl í reynslu og var hann með öllu sem hugurinn girnist. Hita í öllum sætum og stýri, rafmagn í sætum fyrir bílstjórann og fyrir farþega var rafmagnsætið þannig að hægt er að stýra því á tveim stöðum, á hefðbundnum stað til hliðar við hurðina og svo við vinstri hlið þess, til að auðvelda bílstjóranum að færa það fyrir aftursætisfarþegum eða þegar að hipsterinn getur ekki lagt frá sér símann til að stilla sætið. Gífurlega þægilegt að mínu mati og ætti að vera staðalbúnaður í öllum bílum.

Þarna sést vel ISIOFIX festingar í framsætinu og til hægri eru stjórntæki til að færa framsætið fram og aftur, ásamt því að halla bakinu.

Santa Fe er fáanlegur sjö sæta og eru það sjö sæti sem vel er hægt að nota af fólki. Undirskrifaður er 184cm á hæð og vegur um 110kg og fór mjög vel um mig í þeim öllum. Jú, sætin í skottinu væru ekki þægileg frá Akureyri til Ísafjarðar með stoppi á Kópaskeri, en í korter á milli staða, ekkert mál. ISIOFIX er í öllum þeim sætum sem leyfilegt er að setja barnabílstóla í, þar á meðal framsætinu farþegamegin.

Þarna má sjá stærð skottsins glögglega. Ferðataska af stærstu gerð liggur þarna í vinstra horninu og undir henni má finna geymslupláss fyrir ýmislegt smálegt.

Ríkulega búinn

Eins og ég sagði áðan þá fékk ég til reynslu 5 sæta Premium bíl. Sá bíll kemur með öllum þeim búnaði sem fólk ætti að vilja í jeppa eins og þennan. Ekki nóg með að hægt sé að hita framsætin er líka hægt að kæla þau. Hljómkerfið í bílnum kemur frá fyrirtæki sem heiti KRELL og er hljómurinn úr því æðislegur. Apple Carplay og Android Auto koma sem staðalbúnaður og er afþreyingarkerfi Santa Fe einfalt í notkun og skýrt.

Hönnunarmál Hyundai lýsir innréttingunni vel sem er einstaklega smekkleg og er afþreyingarkerfi bílsins mjög skemtilegt.

Það tók mig innan við mínútu að tengja símann í gegnum blátannarbúnaðinn (Bluetooth) og eftir að hann var tengdur, var hann tengdur,  slitnaði aldrei og öll símtöl voru skýr og fín. Til viðbótar við þetta má bæta að aftursætisfarþegar fá líka sólgardínur, ásamt 220v heimilistengingu til að hlaða tölvur, síma, sagir og þessháttar. Plássið er líka mjög flott og var ekkert mál að hafa barnabílstól í sætunum, enda hægt að halla þeim og renna, fram og aftur.

Nægt er plássið í aftursætinu eins og sést á þessum myndum og ekkert mál að koma fyrir ungbarnabílstól.

Ekur eins og draumur

Fjarlægðaskynvæddi hraðastillirinn virkaði mjög vel og akreina varinn einstaklega vel. Hann aðstoðar þig við aksturinn þar sem Vegagerðin hefur málað línur á vegi landsins. Með öllum þessum búnaði færðu gífurlega skemmtilega og sparneytna 2,2 lítra dísil vél. Þrátt fyrir ágætis vilja, og að hafa notað öll trixin í bókinni, komst ég aldrei yfir 10L/100. Átta gíra skiptingin er mjög snögg og þægileg, virðist alltaf vita í hvaða gír hún á að vera. Hægt er að setja hana í handvirkt kerfi, en það er bara til að eyðileggja fyrir góðri forritun Hyundai manna um hvernig hún á að skipta sér.

Gírskitpingin og allt umhverfið um hana er stílhreint og þægilega uppsett. Þarna má sjá Apple Carplay kerfið í gangi eftir að ég lagði símann minn þar sem þráðlaus hleðsla er fyrir þá. Bollahaldararnir eru einnig fullkomin stærð fyrir kaffibolla af bensínstöðvum landsins og þar við hliðina má sjá stjórnhnappa fyrir myndavélakerfi og aksturskerfi bílsins ásamt handbremsunni.  

Hægt er að setja mismunandi stillingar á aksturskerfi bílsins, eitt fyrir þægindi (Comfort), annað fyrir hagkvæman akstur (ECO) og það þriðja fyrir sport stillingu (SPORT). Hægt er að óska eftir hvaða kerfi þú vilt með því að ýta á takka við hlið gírstangarinnar, en ég hafði þetta mestan tímann í SMART stillingu. Hún virkaði þannig að hún skipti sjálfkrafa á milli fyrrnefndra akstursstillinga. Þegar ég fór með bílhrædda ömmu útí búð var hann í ECO, þegar ég keyrði konunni á milli búða var hann í COMFORT og þegar ég var einn á ferð að skjótast á milli rauðu ljósanna í Reykjavík var hann í SPORT.

Uppgefin eyðsla á Santa Fe er 6.3L/100 og náði ég alltaf að vera í kringum það, og þrátt fyrir einstakan vilja fór hann aldrei yfir 10L/100. Næst reyni ég kannski að fá þungt hjólhýsi til að draga… eða skip.

Lokaorð

Nú er kominn mánudagsmorgun og tími minn með Santa Fe að ljúka. Tíminn var of stuttur og ef konan mín myndi leyfa mér að bæta við níunda bílnum á heimilið þá hefði ég aldrei skilað honum heldur væri ég að fara inn að panta hann í appelsínurauðum lit með djúprauðu leðri. Frá því á laugardaginn er ég búinn að vera meira undir stýri á Santa Fe en heima hjá mér, og er það vel skiljanlegt þegar maður fær þvílíkt tæki sem þetta til prufu. Ég get fyllilega mælt með Santa Fe. Þetta er rúmgóður og vel búinn jeppi sem kemur þér hvert á land sem er með nægt pláss fyrir allt það sem nútíma fjölskyldur hafa með sér á milli staða. Ef þú pantar hann mæli ég með að taka Premium bíl fyrir allan búnaðinn sem ég hafði ánæguna á að leika mér með. Nánari upplýsingar fást hér: www.hyundai.is

Ef þér lýst ánn’, keyptann.

Myndir: Jóhannes Reykdal

?

Svipaðar greinar

Svipaðar greinar