Engin lögga var að fá sér kleinuhring þegar bíll ók á nokkurri ferð inn í City Donuts í Aurora í Colorado á laugardagsmorguninn. Annars hefðu mennirnir tveir ef til vill verið handsamaðir á staðnum en þeir hlupu á brott og skildu allt eftir í klessu.
Þó að margir hafi þá mynd í kollinum að lögreglan í Bandaríkjunum sporðrenni kleinuhringjum í tugatali á hveri vakt þá var engin lögga á City Donuts þegar óboðnu gestirnir óku þar inn á ljósbláum Hyundai. Þeirra er enn leitað en mennirnir voru fljótir að stinga af eftir að hafa stefnt lífi saklausra kleinuhringjaþurfandi feðga í hættu og eyðilagt alla kleinuhringina í búðinni. Já og auðvitað skemmt húsnæðið verulega.
Annað augað á bakkelsinu – hitt á barninu
Þykir mesta mildi að ekki voru fleiri við afgreiðsluborðið á þessum vinsæla miðpunkti kleinuhringjabaksturs í Aurora klukkan 9:30 á laugardaginn. Fjögurra ára strákhnokki stóð og horfði eflaust dolfallinn á alla litskúðugu og skreyttu kleinuhringina meðan afgreiðslustúlkan afgreiddi föður hans.

Pabbinn var sem betur fer gæddur mögnuðu skilningarviti sem sumir foreldrar búa sem betur fer yfir. Það lýsir sér í því að hafa alltaf tilfinningu fyrir hvar barnið er og hvað það er að gera. Þegar bófarnir á bílnum flugu gegnum rúðuna á City Donuts var pabbinn eldsnöggur að grípa stráksa og forða honum frá því sem kom fyrir kleinuhringina.
Þvílík gæfa að ekki fór verr og að í lagi er með fjögurra ára guttann, pabbann og afgreiðslustúlkuna.

Feðgarnir fóru á sjúkrahús til skoðunar eftir atvikið og líkamlega voru þeir aðeins með minniháttar áverka, þó svo að skrekkurinn komi til með að vera til staðar um hríð, hjá föðurnum í það minnsta. Þeir feðgar sluppu með skrekkinn en sluppu þó ekki við hann.
Allir kleinuhringirnir í ruslið
„Starfsfólkið þurfti að henda hverjum einasta kleinuhring í búðinni,“ sagði Kirk Manzanares sem varð vitni að þessum ósköpum og virtist hafa meiri áhyggjur af ónýtum kleinuhringjum en feðgunum. Myndband með Kirk og upptöku úr öryggismyndavél er að finna hér neðst.

Í annarri umfjöllun um þetta alvarlega atvik er Kirk titlaður „consultant“ hjá City Donuts en það merkir að hann sé einhvers konar ráðgjafi þar. Kannski smakkari eða eitthvað í þá veru en í myndbandinu sést vel að hann er öllum hnútum og hringjum kunnugur þar sem hann er fyrir innan afgreiðsluborðið og raðar bakkelsi fimlega í kassa.

Kirk lýsti því í sömu umfjöllun hvernig hann hafi séð þetta í „slow motion“ eins og títt er þegar fólk upplifir eitthvað skelfilegt.
Þó má ekki ganga út frá því að honum hafi staðið á sama um feðgana því í öðru viðtali var hann spurður um fyrstu viðbrögð hans og svaraði hann eftir dálitla umhugsun: „Krakkinn, hvar krakkinn væri.“
Áhyggjuefni
Mennirnir, sem enn er leitað, voru á stolinni bifreið og höfðu skammt frá City Donuts ekið utan í bifreið og fleira. Þetta atvik hefur komið af stað mikilvægri umræðu og tengist hún hvorki kleinuhringjum né öðru bakkelsi.

Það er nefnilega áhyggjuefni í þessum þriðja stærsta bæ í Colorado hversu mjög glæpatíðni hefur vaxið síðustu ár.
Í Aurora búa fleiri en á Íslandi, eða 381.000 manns. Síðan 2017 hefur tíðni alvarlegra glæpa aukist um 30% og af orðum Kirk í myndbandinu má ráða að hann sé einn þeirra sem vill opnari umræðu um þessa þróun.
Hér er fjallað um tenginguna á milli kleinuhringja og lögreglunnar:
Löggan og kleinuhringirnir
Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein