Rivian R1T kemur (kannski) í september
Ef nauðsynleg leyfi fást frá yfirvöldum í Ameríku verða fyrstu pallbílarnir afhentir núna í september.
Við höfum áður fjallað um R1T eins og sjá má hér. En því er við að bæta að hann er drifinn áfram af fjórum rafmótorum og það er hægt að veita aflinu þangað sem þess er þörf. Það er enginn skortur á afli í þessum bíl og hann kemst allt á meðan hann hefur grip á hjólunum.
Hann klífur brattar brekkur með stæl og þú getur vaðið yfir vatnsföll á R1T. Já, það er rétt þú getur keyrt yfir ár og vötn þangað til bíllinn flýtur upp, það er mælikvarðinn á hversu djúpt vatnið má vera sem ekið er yfir.
Rivian mun líka framleiða sportjeppann R1S en hann eins og pallbíllinn R1T er enginn slyddujeppi.
Þessir bílar henta í allar aðstæður og má segja að þeir séu fullkomnir fyrir íslenskar aðstæður. Það er hægt að skjótast út í búð á þeim og líka fara um öll fjöll og firnindi. Í skemmstu máli þú getur farið allt á þessum bílum sem þú kemst á óbreyttum jeppum og reyndar mun meira.
En skoðum aðeins betur þetta með að keyra rafbíl yfir vað. Það hljómar eins og glapræði við fyrstu sýn. En rafmótorarnir og rafgeymarnir í nútíma rafbílum eru algjörlega vatnsheldir og mega fara á kaf í vatn a.m.k. í smá stund.
Þannig að ef fiskurinn er ekki að gefa sig og þú ætlar að redda túrnum með því að keyra rafbílinn út í á til að gefa fiskunum smá stuð þá geturðu gleymt því, það virkar ekki. Það virkar miklu betur að skipta bara um flugu og halda áfram að reyna.
Umræður um þessa grein