Hún kom aftur, í tólfta sinn
Það eru nokkrir hlutir sem fólk er sammála um að við verðum að gera til að geta kallað okkur Íslendinga. Það fyrsta væri að segja „þetta reddast“ yfir einhverju. Næsta, að mínu mati, væri að eiga, allavega einu sinni yfir ævina, Toyota Corolla. Nú ef ekki eiga, þá myndir þú hafa eina til notkunar yfir einhvern tíma, verða skutlað á eitthvað merkilegt á Corolla og/eða heyrt sögur af Corollu sem var fjölskyldunni svo góð.
Japönsk hönnun
Á dögunum kom fram að söngvarinn Páll Óskar hafi fengið nýja Corollu afhenta. Það kom mér ekki á óvart að maður sem átti Nokia 5110 farsíma í 20 ár hafi sóst eftir því að eignast Corolla. Bíllinn lítur vel út í öllum litunum sem í boði eru og er sérlega flottur tvílitur með svartan topp! Það er líka auðvelt að sjá að Toyotan er vel smíðuð og vel sett saman. Hvorki skrölt né titring er að finna í innréttingu eða íhlutum bílsins.
Hönnun bílsins bæði að utan og innan er úthugsuð í þaula og hlakka ég til þegar þessir bílar sjást meira á götum landsins. Framendinn er sérstaklega skemmtilegur og ánægjulegt að sjá hvað afturendi bílsins er fagur líka. Bíllinn ber sig vel í öllum aðstæðum og man ég ekki eftir að hafa gengið frá bílnum eftir að hafa lagt honum í stæði, án þess að líta við og dást að honum.
Tvinntækni sem bara virkar
Ég prófaði allar útgáfur Corolla sem í boði eru og mæli ég sérstaklega með tveggja lítra tvinnbílnum. Hann hefur gífurlega skemmtilegt kraftsvið og nýtir krafta rafmagns og bensíns á hinn besta veg. Veghljóð er ekki mikið og hún liggur vel á vegi. Það er mikil ánægja að keyra bílinn, bæði útá þjóðvegi, ásamt því að aka um götur bæjarfélaga. Það gerist alltaf hjá mér að fyrst um sinn ligg ég spenntur yfir upplýsingaskjánum í miðju mælaborðinu um hvaðan orkan sé að koma sem knýr mig áfram. Bensínið eða rafmagnið. Þetta er svolítið sem þú fylgist vel með fyrsta korterið sem þú ekur bílnum. Eftir það þá hættir þú að pæla í því og lætur tæknina vinna fyrir þig.
Þú einfaldlega velur þér akstursstíl sem bíllinn býður uppá og nýtur þess að aka. Ég verð að játa að þegar ég var með tveggja lítra, 180 hestafla tvinnbílinn þá gat ég ekki staðist það að vera sem mest í Sport stillingunni. Það er sama hvaða stillingu sem þú velur þér,þú getur alltaf notið þess að slaka vel á því Corolla kemur nú hlaðin búnaði til að passa uppá þitt öryggi . Ég taldi að minnsta kosti sex akstursaðstoðarkerfi ásamt því að núna er fjarlægðarstilltur hraðastillir staðalbúnaður. Það kemur meira að segja sjálfvirkur búnaður til að setja á og taka af háa geislann á ljósunum.
Innanrými
Í nýrri Corollu er að finna rými að innan þar sem ekkert mál er að slaka á. Sætin eru þægileg og ætti hver að geta fundið góða stellingu undir stýri. Ég prófaði að setja barnabílstól af stærri gerðinni í aftursætið og bauð svo minni heitt elskuðu í ísbíltúr. Það var nóg pláss. Innanrýmið nær einhvern veginn að vera stærra en það virðist vera í öðrum bílum. Pláss fyrir aftursætisfarþega er gott og færi vel um mig (184 cm á hæð) frá Akureyri til Víkur í Mýrdal.
Það væri líka gaman að fara langferðir á Corollu, því það er hægt að spila í gegnum blátannarbúnað alla þá tónlist sem hugurinn girnist. Það besta er líka að þráðlaus hleðsla fæst í einhverjum útgáfunum ásamt öflugu hljóðkerfi frá JBL. Fullkomið til að blasta Meatloaf alla leiðina.
Lokaorð
Síminn minn er tíunda kynslóð þess ágæta fyrirtækis af snjallsíma. Toyota Corolla er á sinni tólftu kynslóð núna og segir það sig sjálft að þeir eru greinilega orðnir nokkuð góðir í að framleiða fólksbíl sem svarar köllun fjölskyldunnar. Minn fyrsti bíll sem ég ók löglega og átti að öllu leyti var Toyota Corolla og mun hann alltaf eiga sérstakan stað í hjarta mínu. Tólfta kynslóð Corollu gefur hinum ellefu ekkert eftir og hlakka ég til þegar þessir bílar rata í hendur fólks og fara að þjóna landanum með sömu eljusemi og forfeður hennar.
Ég mæli með Toyota Corollu fyrir alla þá sem leita sér að bíl sem er vel smíðaður, er gott að keyra og mætir til dyranna tilbúinn til að svara kalli fjölskyldna landsins um traust farartæki á milli staða landsins, hvar svo sem þeir eru. Ég mæli með Corolla í rauðum lit, með svörtum toppi og í tveggja lítra hybrid útgáfu. Nema þú sért ekki með jafn þungan hægri fót og ég, þá er 1.8 lítra alveg nóg.