Við skruppum á Sævarhöfðann í dag til að berja splunkunýjan Renault Austral sport SUV augum.
Bíllinn er hinn glæsilegasti og hönnun ansi vel heppnuð. Þetta er frekar stór bíll og rúmgóður eftir því. Tilfinningin við að setjast inn er eins og þú sitjir í mun stærri bíl.
Austral kemur nú með 160 hestafla 1,3 lítra mild hybrid vél. Sú er sögð sérlega hagkvæm og eyðslan er í kringum 6 lítra á hundraðið. Togið er talsvert eða um 270 Nm.
Það er tilhlökkun hjá Bílabloggs hópnum að fá að reynsluaka þessum nýja bíl en það stendur til í nýrri viku.
Áætlað er að svo komi Austral í full-hybrid útgáfu í haust.
Sá bíll sem var til sýnis hjá BL í dag er mjög vel búinn og fullur af öryggisþáttum – eins og gardínu- og hliðarloftpúðum, blindhornaviðvörun, árkestrarvara og brekkuaðstoð.
Innrétting bílsins er afar vel úr garði gerð og dregur dám af nýrri hönnunarlínu Renault sem sjá mátti fyrst í hinum nýja Renault Megane E-Tech rafbíl. Þar ræður einfaldleiki för í bland við frábært efnisval og flotta hönnun. Kíkið endilega á umfjöllun okkar um Renault E-Tech hér.
Renault Austral fæst í fjölda lita og litasamsetninga og kostar 7.590 þús. og er til afgreiðslu strax.
Umræður um þessa grein