Renault Austral er franskur fjölskyldubíll

Tegund: Renault Austral

Árgerð: 2023

Orkugjafi: Bensín/rafmagn

Rúmgóður, sparneytinn, góð sæti, gott að aka
Stallur í skotti
214
DEILINGAR
1.9k
SMELLIR

Það kemur örlítið á óvart að Renault slái Kadjar af eftir svo stuttan tíma sem raun ber vitni. Kadjar var náskyldur Nissan Qashqai sportjeppanum enda byggður á sama grunni.

Renault Austral er stærri en forveri hans, Kadjarinn.

Nú kemur Renault með nýjan bíl sem þeir kalla Austral. Austral er dregið af latneska orðinu og þýðir „suðrið”. Þá vita eflaust allir hvernig Ástralía fékk sína nafngift.

Rafdrifin opnun á afturhlera.

Öflugir keppinautar

Renault Austral er ætlað að keppa á markaði þar sem bílar eins og VW Tiguan, Hyundai Tucson og RAV4 keppa.

Þú sest inn í bílinn en ekki ofan í hann. Hurðir hopnast mjög vel, bæði að framan og aftan.

Mildur blendingur

Austral kemur upphaflega í einni útfærslu, sem mildur blendingu (e. mild hybrid). Það þýðir að hann er drifinn áfram af bæði bensín- og rafmótor.

Renault Austral kemur með 1,3 lítra, þriggja strokka blendingsvél sem gengur fyrir bensíni og rafmagni.

Útfærsla sem þessi er velþekkt í bílaiðnaðinum og er fyrst og fremst sett  upp með umhverfissjónarmið í huga en að sjálfsögðu verður um leið til aðeins sparneytnari bíll.

Mælaborðið er stílhreint og einfalt í notkun.

Við reynsluókum þessum nýja Renault Austral í byrjun júli. Vorum eiginlega að bíða eftir „myndrænu” veðri og smá sólarglætu.

Sá dagur rann upp fyrir skömmu og við skelltum okkur á rúntinn.

Óneitanlega smá „rafmagns” svipur á grillinu og framendanum. Bílinn prýða svo glæsileg LED ljós.

Laglegur

Renault Austral tekur sig vel út á götu. Ekki frá því að þarna megi sjá smá Mercedes svip ef þannig er litið á hann.

Renault Austral er ansi laglegur bíll. Honum svipar svo sem til margra annarra bíla enda er hann „krossover”, framdrifinn, fjögurra dyra og með þessu hefðbundna „jepplingalúkki”.

Málið er bara að frakkarnir kunna að teikna bíla. Útlitið er fínt.

Falleg innanrýmishönnun

Þegar inn er komið tekur á móti manni hagkvæm og nokkuð „minimalískt” innanrými, þægilegt sæti en Renault klikkar nú ekki á svoleiðis atriðum. Framúrstefnulegt mælaborð sem samt er einfalt og þægilegt í notkun.

Stýrishjólið og armar eru mjög aðgengilegir og þú stjórnar flestu í bílnum á þessu svæði.

Mælaborðið er stafrænn langsum skjár sem sýnir allt sem við þurfum á að halda, hraða, eyðslu, notkun og öryggisþætti. Margmiðlunarskjárinn er svona hálfgerður „ipad” og er mjög skýr og þægilegur að vinna við.

Renault klikkar ekki á efnisvali í innanrýmið. Flott áklæði og örugglega níðsterkt.

Lætur í sér heyra

Við ókum bílnum í nágrenni höfuðborgarinnar og vorum alveg að leyfa honum að puða aðeins.

Þegar tvinnbíl er gefið inn er eins og hann sé að segja manni að hann gefi allt sem hann á í að koma manni áfram og þegar hann er kominn þangað slakar hann verulega á og er nánast bara hljóðlaus –  nema náttla veg- og vindhljóð sem eru jú mismunandi mikil í öllum bílum. Og slatti af í nýja Austral líka.

Hins vegar er sérlega gott að sitja undir stýri á nýjum Renault Austral.

Hann er með þykku, þægilegu og ekki alveg kringlóttu stýri sem gott er að halda um. Sætin eru þægileg og áklæðið er örugglega mjög hagkvæmt þegar aldurinn færist yfir.

Góð sjónlína

Þú situr hátt í bílnum, sjónlínan er góð og þú sérð framfyrir bílinn. Það er gott að fara inn og út og enginn áreynsla við að stíga út úr þessum bíl.

Þú situr mjög vel í bílnum, góð sjónlína og sérð vel framfyrir bílinn.

Renault Austral er enginn sportari enda bíll í flokki fólksbíla eða „sportjepplinga”. Já, ég segi sportjepplinga því bílar með þessu lagi eru yfirleitt kallaðir sportjepplingar eða jepplingar.

Þetta er stærri bíll en Kadjarinn, rúmbetri og fer betur með mann. Aksturseiginleikarnir eru líka talsvert betri.

Stýrið á þessum bíl er nákvæmt, hann liggur vel á vegi og það er ekki að finna að hann leggist í beygjurnar enda nokkuð stíf fjöðrun í bílnum.

Öruggur bíll

Renault Austral kom vel út úr árekstrarprófunum hjá EURONCAP. Hann skorar hátt í öllum þáttum er skipta máli fyrir öryggi ökumanns og farþega en lakar þegar um öryggi vegfarenda er að ræða. Hann fær fimm stjörnur í árekstrarprófunum.

Fimm stjörnur í EURONCAP og gott skor í nánast öllum þáttum.

Farangursgeymslan er nokkuð stór í Austral eða um 555 lítrar og stækkanlega í um 1500 lítra ef sætin eru felld niður. Aftursætin eru á sleðum og má færa fram og til baka. Einnig er hægt að fella niður sætin 40/60.

Stallur á skotti

Það er hins vegar stallur niður í skottið sem gerir að verkum að það þarf að leggja frá sér ofan í skottið. Þá er afturstuðarinn þykkur og maður gæti átt það til að reka fæturnar í hann þegar gengið er um bílinn að aftan.

Hér er stallur. Hefði verið gott að sjá sléttan karm við gólf og stuðarinn frekar „bosmamikill (klossaður).

Pláss í aftursætum er sérlega gott og fótapláss með ágætum. Einnig er höfuðpláss fínt afturí sem þýðir að hávaxnir einstaklingar geta ferðast í bílnum án vandkvæða, jafnvel í lengri ferðum.

Sérlega gott pláss fyrir fullvaxna einstaklinga, höfuðpláss ágætt og þægilegar setur.

Rúmgóður

Renault Austral er vel heppnaður bíll. Þetta er í grunninn stór og góður fjölskyldubíll sem hentar án efa mjög breiðum hópi.

Hann til dæmis er örugglega frábær fyrir barnafjölskyldur sem hafa meðferðis vagna eða kerrur.

Austral er pottþéttur í golfið, búðina eða til lengri eða skemmri ferðalaga um landið.

Gott verð

Renault Austral mild hybrid kostar kr. 7.590.000 sem verður að teljast nokkuð gott miðað við hvað þú færð fyrir peninginn. Til dæmis státar þessi bíll af skemmtilegum búnaði eins og nuddi í framsæti, bílastæðaaðstoð, blindhornaviðvörun, brekkuaðstoð, mismunandi aksturstillingum og 360° myndavél – sem sagt afar vel búinn bíll. Eyðslutölur eru um 6 lítrar á hundraðið. Hann fæst í sex mismunandi litum – sumum tvítóna.

Myndband

Helstu tölur:

Verð frá : 7.590.000 kr.

Hestöfl: 158 hö.

Vél: 1.332 rms., þrír strokkar.

Tog: 270 Nm.

Eyðsla bl.ak.: 6.2 ltr/100km.

Eigin þyngd: 1.560 kg.

Dráttargeta m.hemlum: 1.800 kg.

L/B/H: 4510/1825/1644 mm.

Reynsluakstur: Gunnlaugur Steinar Halldórsson og Pétur R. Pétursson

Myndbandsvinnsla: Pétur R. Pétursson

Svipaðar greinar

Svipaðar greinar