Reiðhjólasmiðirnir sem fóru að framleiða bíla

Saga Skoda er löng, nánast jafngömul og saga bílaaldar i Evrópu. Upphafið nær aftur til ársins 1894 þegar Václav Klement keypti sér reiðhjól af frú Klihovcova en hjólið þarfnaðist brátt viðgerðar.

Hann skrifaði til þýska fyrirtækisins Seidel & Neumann í Ústinad Labem og fékk bréfið, sem hann hafði skrifað á tékknesku, endursent nokkrum dögum síðar þar sem stóð skrifað með blýanti: „Ef þú vilt að við svörum erindinu skaltu skrifa á tungumáli sem við skiljum.“
Þetta varð til þess að Klement hugsaði sinn gang og setti upp sitt eigið verkstæði „til að hjálpa öðrum í svipuðum vandræðum og til þess að þeir þyrftu ekki lengur að reiða sig á innflutning frá útlöndum.”
Verkstæðið varð að veruleika þegar hann kynntist nafna sínum, Václav Laurin, sem varð félagi hans, og þeir hófu seinna sama ár framleiðslu á reiðhjólum sem strax náðu vinsældum.


Í einni verslunarferðinni til Parísar árið 1889 keypti Klement „mótorhjól” af gerðinni Wener Bros. Verkstæði þeirra nafnanna í Mlada Boleslav hóf strax að endurbæta þetta mótorhjól og kom fram með ýmsar endurbætur. Þeir hófu eigin framleiðslu á mótorhjólum á árunum 1898 og 1899 og fengu strax stóra pöntun, 150 hjól, magn sem var nánast fáheyrt á þessum tíma, frá fyrirtækinu Hewetson á Englandi.




Umboðsfyrirtækið Seidel og Mauman í Ústi nad Labem, fyrirtækið sem hafði orðið til þess að Klement stofnaði sitt fyrirtæki, samdi að lokum um heimild til að framleiða mótorhjól í Þýskalandi, byggð á hjólum sem framleidd voru í Mlada Boleslav. Þýska fyrirtækið kynnti þessi tékknesu hjól sem „toppinn í tækni í mótorhjólum“ á þessum tíma.
Laurin og Klement héldu áfram að þróa framleiðsluna og komu fljótlega fram með þriggja hjóla mótorhjól og loks „fjórhjól” á árinu 1901.

Því má segja að upphaf mótorhjólaframleiðslunnar fyrir meira en einni öld, árið 1898, sé upphafið að bílaframleiðslunni eins og við þekkjum hana í dag.

Fyrsti bíllinn
Framleiðsla á fyrstu bílunum, sem kallaðir voru „Voiturettes”, hófst árið 1905 og slógu þeir strax í gegn vegna þess að þeir voru ódýrir, með flott útlit og vel smíðaðir.

Hætt var að framleiða mótorhjól árið 1912 og hafin að fullu framleiðsla á fólksbílum, strætisvögnum, vélum fyrir landbúnað og rafstöðvar, svo og flugvélamótorum. L&K komu upp umboðum í mörgum Evrópulöndum, Asíu, Afríku og Suður-Ameríku.
Helsta framleiðslan á árunum 1911 til 1914 var „Faeton”; sportlegur bíll með yfirbyggingu úr aski, og hámarkshraðinn var 80 kílómetrar á klukkustund.






Fyrri heimsstyrjöldin þýddi verulega breytingu á framleiðslunni og meðan á henni stóð voru framleiddir bílar fyrir herinn, sjúkrabílar og ýmis hergögn.
Að stríðinu loknu var erfitt fyrir marga að ná sér aftur á strik en hér nutu Laurin & Klement þess að hafa verið með gott gengi fyrir stríðið og nafn þeirra var orðið þekkt um allan heim.

Í byrjun þriðja áratugarins var hægt að sjá bíla frá Laurin & Klement á vegum frá Japan til Mexíkó. Fyrir utan heimalandið, hið nýstofnaða tékkóslóvakíska lýðveldi, og í helstu borgum Mið-Evrópu var að finna umboð í Moskvu, Sankti Pétursborg, Kíev, Rostock, Smolensk, Simferpol, Baku, Varsjá, Amsterdam og Rio de Janeiro.
Sameining við Skoda
Efnahagssamdráttur og minni sala varð til þess að L&K sameinaðist stærsta iðnaðarfyrirtæki Bæheims, Skoda í Pilsen, á árinu 1925. Tilgangurinn var að ná fram meiri hagkvæmni og ódýrari framleiðslu.


Nýr bíll, kallaður 420, rann af færibandinu árið 1933 og á næstu árum kom fram fjöldi bíla sem margir þóttu standa framar því helsta sem var að gerast í Evrópu á þessum tíma.

Umræður um þessa grein