Rannsaka uppruna svifryks á götum Akureyrar
Mikil umræða er á þessum árstíma um svifryk í þéttbýli, hvað valdi og þá er augunum einkum varpað að nagladekkjum bíla.
En það hefur líka verið bent á það að rykið í loftinu stafi af lélegum þvotti á yfirborði gatna, hve efnið í malbikinu okkar er lélegt og svo framvegis.

Varðandi gæði malbiksins er ágætt að vitna til greinar hér á Bílabloggi frá því nýlega þar sem verið var að bera saman malbik hér á landi og á Norðurlöndunum, en þar sagði Páll Sigurðsson félagi okkar:
“Veghaldari á að sjálfsögðu að bera skyldu til þess sjá til þess að gæði vegakerfisins séu það góð að það þoli nauðsynlega notkun nagladekkja s.b.r. hin Norðurlöndin sem virðast geta það auðveldlega. Ég hef í gegnum tíðina mikið ekið um norðurhéruð Skandinavíu og þar eru nánast undantekningarlaust allir á rígnegldum nagladekkjum.
Merkilega nokk eru engar rásir eða dekkjaslit í malbikinu hjá þeim, enda vegirnir þar lagðir með alvöru varanlegri efnum sem virðast þola notkun nagladekkja”. (Lesa má grein Páls í heild sinni hér).
Akureyrarbær ætlar að skoða málið vandlega
Hjá Akureyrarbæ hófst nýlega verkefni þar sem kanna á uppruna og efnasamsetningu svifryks á götum bæjarins. Markmiðið er að finna bestu aðferðir til að útrýma svifryki, en Ágúst Ólafsson fréttamaður RÚV sagði frá þessu í vikunni.
Samkvæmt þessu gerði Akureyrarbær samning við verkfræðistofuna Eflu sem mun sjá um framkvæmd þessara rannsókna, og að þegar væri byrjað að taka sýni í þessum tilgangi. Hugmyndin að taka sýni og greina innihaldið, til að geta þá betur ráðist að rót vandans,“ sagði Andri Teitsson, formaður umhverfis og mannvirkjaráðs Akureyrabæjar, í viðtali við RÚV. Sýni verða tekin af götunum næstu mánuði og Andri segir æskilegt að það verði gert bæði sumar og vetur.
Það verður fróðlegt að fylgjast með þessu verkefni á Akureyri og skoða niðurstöðurnar þegar þær koma.
Umræður um þessa grein