Rafmagnið breytir einkennismerki Rolls-Royce
Næsta kynslóð bíla Rolls-Royce, þar á meðal nýi coupé-rafbíllinn Spectre, sem aðeins mun nota rafhlöður, verður með uppfærða „húddstyttu“ Spirit of Ecstasy sem er með betra loftflæði
Við höfum þegar orðið vör við það að með tilkomu rafbíla hefur ýmislegt breyst í hönnun bílanna, en núna er þetta farið að ganga aðeins lengra, því Rolls-Royce hefur lagfært hönnun á styttunni „Spirit of Ecstasy“ sem hefur verið til skrauts á vélarhlífum bíla framleiðandans til að henta væntanlegu framboði rafbíla. Uppfærða „styttan“ mun koma í fyrsta sinn á ökutæki á næsta ári, sem situr fremst á vélarhlífinni á hreinum rafknúnum Spectre.
Nær upphaflegu hugmyndinni
Rolls-Royce segir að þessi endurskoðun hafi fært hönnun styttunnar á vélarhlífinni nær hugmyndinni sem myndhöggvarann Charles Sykes dreymdi um. Hann var frægur fyrir að hanna upprunalegu Spirit of Ecstasy fígúruna, sem var fyrst skráð sem vörumerki Rolls-Royce í febrúar 1911.
Endurhannaða útgáfan af Spirit of Ecstasy er aðeins styttri en sú gamla, 82,73 mm á hæð, í stað 100,1 mm.
Fyrri útgáfan var einnig með uppréttari stöðu, en þessi nýja stytta hallar sér fram í vindinn, sem Rolls-Royce segir að sé betra fyrir loftaflsfræði.
Vörumerkið notaði nýjustu tölvulíkönin til að hámarka loftflæðið yfir styttuna, en aðferðirnar sem Rolls-Royce mun nota til að framleiða lukkugrip eru þær sömu og fyrir 111 árum. Hver mynd verður steypt í vaxmót og fínni smáatriðin og fægingin verða unnin í höndunum, sem þýðir að engar tvær verða eins.
Minni loftmótstaða í rafbílnum
Spectre verður ekki aðeins fyrsti rafbíll Rolls-Royce; hann mun einnig vera loftaflfræðilega hagkvæmastur. Fyrirtækið segir að coupe-bíllinn muni hafa 0,26Cd dragstuðul, sem er á pari við Audi e-tron Sportback – svo það er mikilvægt að hefðbundnir eiginleikar eins og Spirit of Ecstasy lukkugripurinn hafi ekki neikvæð áhrif á drægni bílsins.
„Form hennar fangar merkið fullkomlega – hún hallar sér fram, tjáir stanslausa leit okkar að framförum og kjóllinn hennar flæðir þokkalega í vindinum og endurómar æðruleysi vöru okkar á hreyfingu.
Fyrir Spectre og víðar verður hún lægri og einbeittari; undirbýr sig fyrir áður óþekktan hraða og spennandi framtíð sem nærvera hennar mun marka.“
Núverandi stytta Spirit of Ecstasy verður áfram notuð á Phantom, Ghost, Wraith, Dawn og Cullinan. Í bili verður nýja útgáfa styttunnar frátekin fyrir Spectre.
(frétt á vef Auto Express)
Umræður um þessa grein