Rafmagnað ljón frá Peugeot
Við hjá Bílabloggi tókum daginn frá fyrir einn mest spennandi rafmagnsbíl á markaðnum í dag. Hann selst eins og heitar lummur hjá umboðinu og það eru biðlistar eftir honum fram eftir hausti.
Peugeot e-2008 rafmagnsbíllinn hefur heldur betur verið að slá í gegn – ekki aðeins hér á landi heldur hefur hann verið kjörinn bíll ársins í Evrópu árið 2020.

Selst eins og heitar lummur
Að sögn Bennýjar Óskar Harðardóttur sölustjóra Peugeot hjá Brimborg er fjör í Peugeot deildinni um þessar mundir og birgðir að seljast upp.
Við mælum með því að þú skellir þér inn á vefinn hjá þeim í Brimborg, hér og kíkir á sýningarsalinn og skráir þig á þinn uppáhalds Peugeot bíl hið fyrsta.

Peugeot e-2008 er annar í röðinni hjá Peugeot til að fá 100% rafdrifna drifrás. Undanfarinn er hinn stórglæsilegi e-208 en e-2008bíllinn er byggður á grunni þess bíls.
Að auki er jepplingurinn 3008 boðinn sem tengitvinnbíll frá því í sumar.


Sportlegur smájepplingur
En snúum okkur að bíl dagsins. Nýr Peugeot e-2008 er framúrstefnulegur rafbíll sem ætlað er að fylla það skarð á markaðnum sem kallar eftir sportlegum borgarbíl með smá “jepplings” tendensa.
Að okkar mati tekst Peugeot það ágætlega upp því efirspurn eftir bílnum er meira en framboðið og kaupendahópurinn er breiður – jafnt ungir sem aldnir vilja kaupa bílinn.



Frábær hönnun
Innanrými bílsins er sérlega glæsilegt og bíllinn sem við fengum til prufu er af dýrari gerðinni – GT bíll. Sætin eru straumlínulöguð og halda manni grjótföstum og eru um leið þægileg og flott.
Efnisval er til fyrirmyndar en í GT bílnum er leður á köntum með litríkum áberandi saumum og ljósgrátt alcantra leður í miðjunni.
Mælaborðið er af i-cockpit gerð og hefur verið uppfært frá síðustu árgerð – þar er einnig spilað á tæknina því það er tvískipt. Undir gleri í mælaborðinu er veglegur skjár og síðan er akstursupplýsingum varpað á glerið fyrir framan skjáinn líkt og um sjónlínuskjá á framrúðu sé að ræða.


Það eina sem stakk í augu er að stýrið skyggir aðeins á mælaborðið. Hins vegar er stýrið mjög lítið og sporyskjulagað að auki.
Stýrið er einnig hægt að stilla á með útdrætti og hækkun eða lækkun – svo mikilli að þú getur nánast setið með það í kjöltunni eins og um kappakstursbíl sé að ræða.
Öðruvísi nálgun
Þannig fær ökumaðurinn þrívíddarupplifun við að horfa á mælaborðið sem hægt er að gæða hinum ýmsu litum – allt eftir dagsbirtu, stemningu og skapi.
Þú getur síðan einnig stillt heildarstemninguna í bílnum með vali á litum í lýsingu í hurðum og mælaborði.

Aðgengi er þægilegt og gott að komast inn og út að framan – en aðeins þrengra er að komast afturí – allavega fyrir fullvaxna karlmenn.
Vel fer um fjóra fullorðna í bílnum og við getum verið viss um að börnin eru ánægð afturí því þau geta hlaðið snjallsímana eða spjaldtölvurnar í gegnum USB í miðjustokk afturí.
Þægilegur og aflslappaður akstur
Peugeot e-2008 er ljúfur í akstri. Rafmótorinn skilar 136 hestöflum og togar um 260 Nm. Rafhlaðan geymir um 50 kWh sem gefur skv. WLTP staðlinum um 320 kílómetra drægni.
Þú getur síðan hlaðið bílinn í gegnum hraðhleðslu upp í 80% á 30 mínútum. Peugeot e-2008 er fáanlegur með tvennskonar innbyggðri hleðslustýringu, 7.4 kW eða 11 kW. 11 kW stýringin styttir hleðslutímann um rúmar tvær og hálfa klukkustund miðað við að ökutækið sé fullhlaðið með heimahleðslustöð.


Vel búinn bíll
Með appi í snjallsímanum þínum stýrir þú meðal annars hleðsluþörfum, kveikir á miðstöð og fylgist með upplýsingum frá bílnum þínum. Annars er Peugeot e-2008 mjög vel búinn bíll.
Til að nefna eitthvað af ríkulegum búnaði bílsins má nefna, akreinavara, umferðaskiltalesara, bremsuaðstoð með skynjun á fyrirstöðu fyrir framan bílinn, skynvæddur hraðastillir, öflug hljómflutningstæki með 6 hátölurum, fjöldi tengimöguleika í gegnum USB frammí og afturí, þráðlaus símahleðsla og blindpunktsaðvörun svo eitthvað sé nefnt.

Hver er raundrægnin?
Svo er það stóra spurningin. Dugar fólki bíll sem ekur aðeins 320 km á einni hleðslu? Ef við skoðum notkunarmynstrið er rafmagnsbíll að eyða minnu í bæjarakstri en bíll með brunavél en hins vegar eyðir rafmagnsbíllinn meiri orku í hraðbrautarakstri en bíllinn með brunavélina.
Flestir eru að nota bíla sína í blönduðum akstri og hentar því ef til vill raunnotkun upp á 250 km á hleðslu ágætlega fyrir flesta.
En raunnotkun minnkar einnig í köldu veðri og við mikla rafmagnsnotkun t.d. ljósa- og miðstöðvarnotkun.

Flestir rafbílar í þessum stærðarflokki eru með svipaða orkudrægni og þessi Peugeot e-2008 svo ef bílakaupendur ætla sér að nota rafmagnsbílinn verða menn að stilla notkun sína eftir því.
Við vonum bara að fleiri hleðslustöðvar verði settar upp fyrr en seinna – því tími rafmagnsbílanna er hafinn.
Hér má lesa um reynsluakstur okkar á öðrum Peugeot bílum. Peugeot 3008 og Peugeot 508.
Helstu tölur:
Verð frá: 4.650.000 kr. Verð á reynsluakstursbíl 5.270.000 kr.
Mótor: Rafmagn.
Hestöfl: 136 hestöfl / 100 kW.
Newtonmetrar: 260 Nm.
0-100 k á klst: 8,5 sek.
Hámarkshraði: 150 km.
CO2: 0 g/km.
Drægni: 320 km (skv. upplýsingum framleiðanda)
L/B/H í mm.: 4300/1770/1530.