Kannast lesendur við tónleika þar sem tónlistin berst út um púströr? Úr pústinu fer hún í eins konar trekt eða keilu og loks um magnarann og framhaldið er bara þetta hefðbundna. Jæja, eru allir með á nótunum? Nei, ekki ég heldur. Skoðum þetta betur!
Síðan 2010 hafa tónleikarnir Sound Nacht verið haldnir á hverju hausti (nema 2020) á leikvangi Porsche í Stuttgart í Þýskalandi. Nokkur þúsund aðdáendur mæta, ekki til að hlusta á sitt uppáhalds „band“ heldur til að hlusta á sitt uppáhalds „brand“. Þetta brand (ekki ég þótt Brand sé) er vörumerki framleiðandans: Porsche!
Nú, ef þetta er eitthvað sem er á allra vitorði þá er það bara svo en undirrituð missti alfarið af tónleikunum í öll þessi ár. Nema hvað!
Næstur á svið er…
… já, tökum tónleikana árið 2018 sem dæmi. Þá var fyrsti flytjandinn enginn annar en voldugi pústbarkinn Porsche Panamera en þar sem það var upphafsatriðið fékk hann ekki að þenja eh… „raddböndin“ því trylltir dansarar voru að lemja bílinn og tromma á hann.
Látum mynd nægja. Þetta atriði var víst eins og léleg upphitunarhljómsveit sem gleymdi að setja í samband.
Þá var það flytjandi númer tvö í röðinni af þrettán (ætla ekki að fara í gegnum alla tónleikana sko) og það var Porsche 356/001 Roadster og hér má hlýða á flutning hans.:
Aðrir flytjendur þetta kvöld voru (allir auðvitað með sama ættarnafnið) 804 Formula 1, 962, 917, 911 RSR Turbo 2.1, 935/78, 911 GT1-98, 959 Paris-Dakar, 964 Carrera Cup, 996 GT3 Cup (sem klúðraði eiginlega sínum flutningi þegar hann fór að renna aftur á bak), 996 GT3 RSR, 919 Hybrid og 991 RSR.
4000 manns sóttu tónleikana í það skiptið en það virðist nú líka hafa verið gaman hjá þeim sem mættu á öllu fámennari viðburð árið 2016 en hér má sjá og heyra örstutt sýnishorn og þar með tóndæmi:
Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein