Porsche opnar fyrstu “bílasjoppuna” í Evrópu.
Nú hefur Porsche bílaframleiðandinn ákveðið að opna svokallaða “bílasjoppu” eða POP-UP store, stutt frá höfuðstöðvum Porsche í Stuttgart í Þýskalandi. Þetta gera þeir þrátt fyrir að Opel hafi mistekist að halda út slíkum sölustað í Þýskalandi.
Porsche hefur hannað útlit á sýningarbásinn eða sjoppuna eins og við höfum kosið að kalla fyrirbærið eftir “Porsche Now” hugmyndafræðinni. Um er að ræða einskonar sölubása sem einfalt er að setja upp á hinum ýmsu stöðu.
Árið 2018 lokaði Opel slíkum sölubás vegna bágrar sölu á bílum með þessum hætti og mikils kostnaðar við dæmið.
Þetta er hins vegar ekki fyrsta “bílasjoppan” sem Porsche opnar því svona sölubása er að finna í Canada, Brasilíu og Taiwan og fleiri eru á döfinni.
“Bílasjoppurnar eru frábær leið til að kynna vörumerkið okkar fyrir nýjum kaupendahópum í flottu umhverfi á völdum markaðssvæðum þar sem við getum kynnst þeim og þeir okkar framleiðslu”, segir Marco Kano sviðsstjóri sölumála hjá Porsche.
Það hefur gengið vel hjá Porsche undanfarið en salan jókstu um 15% á síðasta ári og búast Porsche menn við enn frekari aukningu eftir komu fyrsta rafknúna sportbílsins, Porsche Taycan á markaðinn.
Þess er skemmst að minnast að KIA á Íslandi opnaði sýningarsal í Smáralind með svipuðu yfirbragði sem eflaust hefði mátt kalla sama nafni.
Umræður um þessa grein