- Porsche Mission R hugmyndabíllinn gefur vísbendingu um rafmagnsgerð Cayman sem væntanlegur er árið 2024
Þó að IAA – bílasýningunni í München sé lokið er í góðu lagi að flytja áfram fréttir af því sem þar var kynnt.
Fyrir sýninguna bárust fréttir af því sem gæti borið fyrir augu sýningargesta. Birti Porsche til dæmis eina mynd sem sýndi framljós á nýjum bíl – ekkert meira. En á sýningunni kom auðvitað restin í ljós!

Porsche afhjúpaði Mission R hugmyndabílinn á bílasýningunni í München 2021 – þetta er rafmagnsbíll, hannaður til kappaksturs, líkt og núverandi 911 GT3 Cup og GT3 R gerðir frá Porsche.
Vísbending um framtíðina
Mission R gefur vissar vísbendingar um hverju von er á í flokki rafknúinna sportbíla. Teymið á bak við Mission R verkefnið staðfesti að það „vinnur að framleiðslubílum á sama tíma“ – með sama teymi sem ber ábyrgð á báðum verkefnunum.
1.072 hestöfl
Mission R er með „um það bil 80 kWh“ rafhlöðu sem knýr par af rafmótorum sem samtals framleiða 800 kW eða 1.072 hestöfl, í svokallaðri „hæfnistillingu“ (e. qualifying mode) eða stöðug 671 hestöfl í „keppnisstillingu“. Kappakstursbíllinn mun fara úr 0-100 km/klst á 2,5 sekúndum með hámarkshraða yfir 1290 km/klst.
Teymið staðfesti að mótorinn að framan er aðallega fyrir endurnýjun hemlunar, en gerir kerfinu kleift að flytja rafmagn aftur til rafhlöðunnar – auka aksturssvið og mögulegan brautartíma. Staðsetning vélbúnaðarins mun, samkvæmt Porsche, bjóða upp á hefðbundna akstursupplifun miðjumótors – eða „miðhleðslu“.
Oliver Blume, formaður framkvæmdastjórnar Porsche AG sagði: „Mission R er sýn okkar á rafknúnar akstursíþróttir. Mission R býr yfir öllum þeim styrkleikum sem Porsche heldur á lofti: Árangur, hönnun og sjálfbærni.“
Porsche býður ekki upp á WLTP-metið aksturssvið, en fullyrðir að Mission R geti ekið „30 til 45 mínútur“ á kappakstursbraut á fullri nýtingu rafhlöðunnar – allt eftir fyrirkomulagi brautarinnar og notkun. Með því að nota glænýjan 900 volta rafmagnsgrunn (100v öflugri en framleiðslugerð Porsche Taycan), mun Mission R fá fimm til 80 prósenta hleðslu á aðeins 15 mínútum, á allt að 340kW hleðsluhraða.




Eitt sæti
Eitt sæti er í bílnum, og er það þrívíddarskorið og sætisáklæðið þrívíddarofið. Einfalt mælaborðið samanstendur af tveimur skjám; hefðbundinni mælasamstæðu, auk sérstaks skjás á stýrinu, með fjölda hnappa og rofa. Það eru tvær myndavélar – ein föst og ein hreyfanleg, sem gerir ökumönnum kleift að senda frá sér efni úr bílnum meðan á prófunum og kappakstri stendur.

Þó að flestir bílar af þessari tegund séu hugsaðir sem framhald fyrri gerða, hefur Mission R greinilega verið hannaður samhliða framleiðslubílnum frá upphafi. Þetta „nána samstarf“ mun hafa áhrif á framleiðslugerðir framtíðarinnar, þar á meðal hugsanlegar rafmagnsgerðir Cayman og Boxster.
„Við getum örugglega tekið mikið af hönnunaráhrifum og framleiðsluatriðum og útfært í framtíðarbílum,“ sagði Ingo Bauer-Scheinhütte, framkvæmdastjóri Porsche á sviði ytri hönnunar.
„Við erum að vinna að framleiðslubíl á sama tíma; þetta eru sömu teymin. ”
Þó að Bauer-Scheinhütte hafi ekki viljað staðfesta neitt, staðfesti hann að Mission R sé „af svipaðri stærð og Cayman/Boxster“ og ýjaði að möguleikanum á tveggja sæta rafmagns sportbíl þegar núverandi bílar enda sinn líftíma um 2024.
(Byggt á frétt á vef AutoExpress)
Umræður um þessa grein