Polestar 2 Arctic Circle rallý-útgáfa
Sænski rafbílaframleiðandinn hefur breytt Polestar 2 verulega til að takast á við snjó og ís, með endurgerðri fjöðrun, meiri krafti og breyttri innréttingu.
Polestar hefur búið til einstaka, mótorsportútgáfu af Polestar 2 rafbílnum. Þróun og prófanir fara fram við norðurheimsskautsbaug.
Joakim Rydholm, yfirverkfræðingur undirvagnsþróunar Polestar, hefur leitt þróun Polestar farartækja í rúman áratug og er talsmaður þess að fínstilla bíla í umhverfi sem þessu.
„Fínstilling undirvagns á snjó og ís gerir okkur kleift að þróa bílana okkar eins og í hægri endursýningu og með betri nákvæmni,“ segir Joakim Rydholm. „Með svo litlu gripi getum við upplifað og greint hreyfingar á mun lægri hraða en á malbiki, sem þýðir að við getum í raun fínstillt hvernig bílarnir okkar hegða sér, niður í minnstu smáatriði. Þetta er uppáhaldsstaðurinn minn fyrir bílaþróun.“
Meira afl hefur einnig verið sótt til tvöfaldra rafmótora, þó að Polestar hafi staðfest að Arctic Circle útgáfan muni ekki fara í almenna framleiðslu.
Byggður á Long Range Polestar 2
Grunnbíllinn er Long Range útgáfan af Polestar 2, búinn Performance pakka. Afl- og togtölur hafa verið hækkaðar í 469 hö og 680 Nm (frá 402 hö og 660 Nm).
Við gætum jafnvel séð nokkrar af þessum áherslum koma í hefðbundna bílinn á einhverjum tímapunkti, segja þeir hjá Auto Express.
Samkvæmt Polestar er stýrikerfið í nýja bílnum á frumstigi, þannig að það gæti verið í þróun fyrir framtíðarútgáfu af 2.
Þessar breytingar hafa verið þróaðar af Joakim Rydholm, verkfræðingnum sem hannaði undirvagninn í Polestar, sem einnig er reyndur rallýökumaður.
Hann sagði: „Mig langaði að skemmta mér meira en venjulega með þessum bíl – geta gengið enn lengra hvað varðar afl og aksturseiginleika í vetrarumhverfi eins og á frosnu stöðuvatni. Jafnvægið og fyrirsjáanleikinn sem við höfum náð með aukinni veghæð og sérhæfðum dekkjum er sérstaklega áberandi þegar farið er inn í beygju á hlið, með stærra bros á vör en venjulega og með fulla stjórn.“
(Byggt á frétt Auto Express og frétt Polestar– myndir Polestar)
?
Umræður um þessa grein