Pobeda („sigur“ á rússnesku) var bíll framleiddur af Sovésku Gorky bifreiðaverksmiðjunni (GAZ) frá 1946 til 1958. Hann var einn vinsælasti sovéski bíll síns tíma og varð tákn sovéska bílaiðnaðarins.
Leitað í smiðju Kanans
Pobeda var hannaður í síðari heimsstyrjöldinni og þróun hans hófst árið 1943. Markmiðið var að búa til áreiðanlegan og hagkvæman bíl sem hægt væri að fjöldaframleiða fyrir Sovétríkin.
Yfirhönnuður Pobeda var Andrei Lipgart og stíllinn var undir áhrifum frá bandarískum bílum tímabilsins, einsog til dæmis Buick árgerð 1941.
Stórir og sterkir
Fyrstu Pobeda bílarnir rúlluðu af framleiðslulínunni árið 1946. Bíllinn var sterkbyggður með klossuðum stuðurum en hann var samt nokkuð straumlínulagaður.
Hann var með rúmgóðri innréttingu sem rúmaði allt að sex farþega og gerði hann hentugan sem fjölskyldubíl Pobeda var einnig þekktur fyrir endingu en það var ófrávíkjanleg krafa fyrir oft erfiðar aðstæður á vegum í Sovétríkjunum.
Harðger vél
Pobeda var knúinn af 2,1 lítra, fjögurra strokka línuvél sem framleiddi um 50 hestöfl.
Vélin var tengd við þriggja gíra beinskiptingu, sem gerði bílnum kleift að ná hámarkshraða, um það bil 130 km hraða á klukkustund.
Vél Pobeda var þekkt fyrir áreiðanleika og sparneytni.
Einn athyglisverður eiginleiki Pobeda var sjálfstæð fjöðrun að framan, sem var tiltölulega þróuð á þessum tíma.
Þetta fjöðrunarkerfi gerði bílinn mýkri og þægilegri í akstri miðað við suma aðra bíla frá sjötta áratugnum.
Notaður af leigubílstjórum
Pobeda var ekki aðeins vinsæll meðal einstaklinga heldur einnig hjá leigubílstjórum sem notuðu bílinn talsvert.
Framleiðsla bílsins var yfir 235 þúsund einingum árið 1956 og það var flutt út til ýmissa landa, þar á meðal „austantjaldslandanna“ og annarra sósíalískra ríkja.
Hvað menningarlega þýðingu varðar var Pobeda tákn um endurreisn Sovétríkjanna eftir stríðið og framfarir í iðnaði.
Hann táknaði seiglu og ákveðni sovésku þjóðarinnar við að sigrast á stríðsáskorunum og endurreisa þjóð sína.
Framleiðslu Pobeda var hætt árið 1958 þar sem GAZ breytti áherslu sinni á framleiðslu nútímalegri bíla.
Hins vegar er Pobeda enn tákn í sovéskri bílasögu og margir áhugamenn sækjast eftir svona bílum í dag.
Vönduð endursmíði
Sá sem hér sést er einmitt einn slíkur sem er nú til sölu í Bretlandi. Þetta eintak hefur verið tekið í nefið og gert upp í sem upprunalegustu mynd.
Meðal þess sem hefur verið endurbyggt frá grunni er vél bílsins, skipt var um gler, boddí er að mestu upprunalegt, króm hefur fengið yfirhalningu, stýrið gert upp og notaður til þess „rétt“ viðartegund.
Bílnum fylgir töskusett sem passar í skottið. Ásett verð er um 9,3 milljónir íslenskra króna.
Fyrstu bílarnir sem Bifreiðar og landbúnaðarvélar flutti inn voru einmitt Poebeda bílar árgerð 1954 en þá komu um 100 slíkir bílar til landsins. Undirritaður veit um tvo svona bíla sem hér á landi sem komu líklega með þessari sendingu – annar var lengi í B&L húsinu þar sem nú er Össur, stoðtækjagerð en hinn er hvítur og rauður og með Þ-númeri.
Umræður um þessa grein