Peugeot ætlar að snúa aftur í Le Mans-kappaksturinn í flokki ofurbíla
PARÍS – Peugeot er að þróa tvinnbíl fyrir þolkappakstur fyrir komandi Le Mans „Hypercar“ flokk eða flokk „ofurbíla“, sagði bílaframleiðandinn, þar sem hann leitast við að koma nýja „Peugeot Sport Engineered“ undirmerki fyrir afkastamikla tvinnbíla á framfæri.
Peugeot mun ekki lengur nota GTi vörumerki til að gefa merki um afkastamiklar gerðir. Fyrsti Peugeot „Sport Engineered“- götubíllinn verður útgáfa af 508 meðalstóra fólksbílnum, sem verður alls 360 hestöfl frá tengitvinn aflrás. Han mun fara í sölu undir lok þessa árs.
„Við erum að koma aftur í þolakstur vegna þess að við höfum tækifæri til að vinna við íþróttina á annan hátt, með blendingi bensíns og rafmagns,“ sagði Jean-Philippe Imparato, forstjóri Peugeot. Peugeot dró sig úr keppni í kappakstri sportbíla árið 2012 vegna fjárhagserfiðleika PSA Group á þeim tíma.
Le Mans Hypercar (LMH) mun leysa Le Mans Prototype 1 (LMP1) flokkinn af hólmi árið 2022 sem efsti flokkur þolaksturs. Nýi flokkurinn býður upp á meira frelsi varðandi loftmótsstöðu en LMP1 ásamt fjölda reglna sem ætlað er að draga úr þróun og rekstrarkostnaði. Bílar verða einnig þyngri, breiðari og lengri en í LMP1 flokknum, í því skyni að hvetja framleiðendur til að nota hluti beint úr framleiðslu og hönnun.
Samkvæmt reglunum fyrir nýja flokkinn verður þolakstursbíll Peugeot fjórhjóladrifinn með samtals 500 kílóvatta afl, jafnvirði 680 hestafla, með 200 kW rafmótor á framöxli.
„Við höfum staðfest hluta hugmyndarinnar varðandi loftmótsstöðu, ramminn fyrir vélbúnaðinn hefur verið ákveðinn og við höfum valið virkni tvinnkerfisins og grundvallarhönnun þess,“ sagði Olivier Jansonnie, tæknistjóri „World Endurance Championship“-áætlunar Peugeot Sport.
„Við höfum miklu meira frelsi,“ sagði Jansonnie um nýja kappakstursflokkinn í kynningu á netinu á föstudaginn. „Okkur er heimilt að aðlaga loftmótsstöðuna og yfirborð bílsins að fagurfræði vörumerkisins.“
Matthias Hossann, yfirmaður hönnunar Peugeot, sagði að fjöldi teikninga að hugmyndum hefðu verið búnar til, sem innihélt hönnunarvísbendingar vörumerkisins eins og „ljónakló“ lýsingu og hönnun að aftan sem kemur frá Peugeot 905 kappakstursbílnum, sem vann 24 tíma Le Mans árin 1992 og 1993. Peugeot vann einnig Le Mans árið 2009 með 908 dísel kappakstursbílnum.
Ef ofurbíll Peugeot kemst á Le Mans árið 2022, mun hann nær örugglega mæta ógnarsterkum andstæðingi í Toyota sem vann Le Mans þriðja árið í röð um helgina með sínum TS050 Hybrid og hefur skuldbundið sig til að vera með í nýja flokknum.
Annar mögulegur þátttakandi er Renault sem breytti nýlega vörumerki kappaksturs hjá sér í Alpine og hefur skuldbundið sig til Le Mans keppninnar árið 2021 á lokaári LMP1 flokksins. Ferrari og Lamborghini hafa einnig lýst yfir áhuga á ofurbílaflokknum.
(frétt á Automotive News Europe)
Umræður um þessa grein