Hyundai virðist hafa staðfest að hinn geggjaði hugmyndabíll N Vision 74 frá árinu 2022 muni fara í framleiðslu
Þessi róttæki hugmyndabíll olli miklu fjaðrafoki á netinu þegar hann var kynntur fyrir tveimur árum þar sem, að því er virtist, margir netverjar supu hveljur yfir frábærri hönnun sportbílsins. Svo virðist sem Hyundai hafi lagt við hlustir, því N Vision 74 verður framleiðslubíll.
Kynningarglæra frá forstjóra fyrirtækisins á árinu virðist staðfesta langvarandi grunsemdir um að Hyundai N Vision 74 væri að fara í framleiðslu. Í kynningarglærunni er nafn bílsins meðal afkastamikilla rafbíla sem vörumerkið mun afhenda árið 2030 – með öðrum þar á meðal Genesis Magma bílum.
Þessi opinbera vísbending um að N Vision 74 muni að lokum aka um götur og torg eru allar upplýsingar sem við höfum í bili. Hyundai hefur ekki sett fram tímalínu fyrir komu hans, né hafa þeir tilkynnt hugsanlegt verð eða hversu margir verða framleiddir.
Hins vegar greindi suður-kóreskt dagblað frá því fyrr á þessu ári að N Vision 74 gæti komið strax árið 2026 og aðeins 200 eintök verði smíðuð, þar sem hvert eintak kostar meira en 284,000 pund (tæpar 52 milljónir króna).
Sama skýrsla bendir til þess að N Vision 74 muni framleiða yfir 760 hestöfl og aflrás hans verði með vetnisefnarafal, rétt eins og upprunalega hugmyndin sem við sáum árið 2022.
„Vetnis-alfrása-deild” Hyundai notaði einstaka uppsetningu sem innihélt efnarafala fyrir framhjólin, 62,4kWh T-laga rafhlöðu sem var fest lágt niðri í miðjum bílnum, tvo vetnisefnarafala festa að aftan og par af rafmótorum til að knýja afturhjólin.
Hönnunin er sögð vera innblásin af Hyundai Pony Coupe hugmyndabílnum frá 1974, sem var hannaður af Giorgetto Giugiaro. Hann teiknaði einnig DMC Delorean, sem gæti útskýrt líkindin.
Uppruni: Autoexpress.
Umræður um þessa grein