Það er óhætt að segja að finna bíl sem er jafn lítið ekinn og þetta eintak er draumur bílaáhugamannsins.
Þessi bíll er endurbyggður upp úr Pontiac GTO árgerð 1966. Hann kom með Tri-Power, fjögurra gíra kassa frá verksmiðju og litasamsetning bílsins er örugglega einnig draumur hvers bílasafnara.
Þeir draumar geta nú ræst því þessi er til sölu hjá RK Motors vestur í Bandaríkjunum.
Bíllinn hefur aðeins verið í eigu þriggja einstaklinga frá því hann var afhentur nýr. Lengst var hann í eigu eiganda númer tvö, en hann átti bílinn í rúm 50 ár.
Lengst af var bíllinn staðsettur í þurru loftslagi Utah og var sparlega notaður en hann er aðeins ekinn um 59 þúsund mílur (94 þús. km.).
Síðasti skoðunarmiði á framrúðu er frá árinu 1982. Það var síðan bílaáhugamaður í Norður-Karólínu sem fann bílinn og tók að sér að færa hann aftur til fortíðar.
Að sjálfsögðu var það fagmaður sem kom þar að verki en á þeim tveimur árum sem bíllinn var í uppgerð var allt kapp lagt á að viðhalda og endurheimta eins mikið af upprunalegum hlutum og hægt var.
Kraftmikil útgáfa
Pontiac GTO var fyrst kynntur árið 1964 sem útfærsla fyrir Pontiac Tempest. Hann náði fljótt vinsældum og er oft talinn einn af brautryðjendagerðum ameríska sportbílsins.
Pontiac GTO 1966 er klassískur amerískur sportbíll sem hefur náð að skapa sér orðstír í bílasögunni.
GTO gerðin
1966 GTO hélt stílnum sem kynntur var árið 1965. Hann er með áberandi tvískiptu grilli, lóðrétt aðalljós og sportlegra útlit miðað við venjulegan Tempest.
Við getum þakkað John DeLorean, Bill Collins og Russ Gee sem komu eitthvað að sköpun GTO gerðarinnar.
Nægt afl
GTO er þekktur fyrir öflugar vélar. Árið 1966 var hægt að fá GTO með nokkrum vélarvalkostum, þar á meðal 389 rúmtommu V8 vél.
Þessi fallega endurbyggði “GOAT” er með Tri-Power uppsetningunni, með þremur tveggja hólfa blöndungum sem eykur afköst bílsins til muna.
Þótti rosalega flottur árið 1966
Beinskiptingarnar, sérstaklega 4 gíra eins og í þeim sem við höfum hér, voru vinsælar meðal þeirra sem sóttust eftir kraftmeiri og snarpari akstursupplifun.
Skipt er um gír með krómuðum Hurst skiptibúnaði á gólfi.
Ekki síður flottur að innan
1966 GTO var hannaður með sportlegu en hagnýtu skipulagi. Hann er með körfustólum ásamt vel uppsettu ökumannsmiðuðu mælaborði.
Innrétting þessa bíls hefur verið gerð upp með taslverðu af upprunalegum íhlutum.
Vinsældir og arfleifð
Pontiac GTO frá 1966 er oft talinn einn sá allra flottasti og var án efa eftirsóknarverðasta gerðin í GTO línunni.
Árangur bílsins stuðlaði að áframhaldandi vinsældum GTO seríunnar og árangurs hennar í framleiðslu sportbíla.
Pontiac GTO er einfaldlega eftirsótt klassík. Þetta flotta eintak á án efa eftir að vekja athygli og verða eftirsótt sem minnisvarðu um þessa gerð bíla. Hins vegar kostar hann sitt.
Ásett verð bílsins er um 100 þúsund dollarar (um 14 milljónir).
- Tri-power 4-gíra GTO beinskipting úr verksmiðju
- 389 cid., V8, 6.5 lítra vél
- Ekinn aðeins 59 þúsund mílur og gerður upp árið 2021
- 4 gíra beinskipting með Hurst skipti
- Upprunalegt verksmiðjunúmer á grind
- Montero rauður með rauðum vinyl sætum og hvítum vinyl topp
- Upprunaleg handbók
- Skráð eigendasaga
- Myndir frá uppgerð
- Kemur úr verksmiðju fyrstu viku júlí árið 1966
Umræður um þessa grein