Opel gæði í gegn

TEGUND: Opel Grandland X Hybrid 4

Árgerð: 2021

Orkugjafi:

Afl, sæti, akstur, verð
Farangursrými mætti vera stærra
136
DEILINGAR
1.2k
SMELLIR

Opel gæði í gegn

Framtíðin er allra er slagorð Opel. Það eru orð að sönnu. En það fara svo sem ekki allir sömu leið að markmiðunum. Opel hefur í gegnum tíðina framleitt gæðabíla á góðu verði. Hvað varðar þennan bíl er engin breyting þar á – Opel Grandland X Hybrid 4 er vandaður bíll og arfleifðin úr mörgum áttum.

Falleg lína í nýjum Opel Grandland X Hybrid 4.

Opel Grandland X var fyrst kynntur til leiks á alþjóðlegu bílasýningunni Frankfurt árið 2017. Bíllinn sá var hugsaður sem arftaki hins vinsæla Chevrolet Captiva sem seldist svo vel hér um árið, einmitt í gegnum Bílabúð Benna.

Nú, þegar Opel kemur með þennan bíl í endurbættan og í tengitvinnútgáfu erfir hann ekki aðeins hönnun og tækni forvera síns, Chevrolet Captiva heldur er hann byggður á nýjum grunni sem einnig er notaður fyrir Peugeot 3008 og Citroen C5 Aircross.

Setur hann í samband

Þessi nýi tengitvinnbíll (e. Plug-in hybrid) er ansi vel búinn. Hann er búinn 1,6 lítra 200 hestafla bensínvél með túrbínu og tveimur rafmótorum, öðrum tengdum framdrifinu og hinum tengdum afturdrifi.

Framdrifsmótorinn skilar bílnum um 110 hestöflum á meðan mótorinn við afturhjólin skilar um 113 hestöflum.

Sterklegur svipur á framenda og LED ljósin gefa líka flotta ásýnd.

Ekki svo að skilja að það sé orðið þröngt á þingi í vélarrúminu en þessir þrír vinna allir saman að því að skapa kraftmikinn, öruggan og silkimjúkan akstur. Að hámarki skilar vélbúnaður bílsins um 300 hestöflum og kemur bílnum frá 0-100 km/klst. á um 6 sekúndum.

Rafhlaðan sem skaffar þessum tveimur rafmótorum afl er um 13.2 kWh.

Hér er ótvíræður Opel „svipur”.

Tog er um 520 Nm. Hámarkshraði á rafmagni er um 135 km/klst. Og hámarkshraði með blöndu af öllum orkugjöfunum er um 235 km/klst. Að því sögðu, þá erum við að tala um yfirnægt afl fyrir þennan bíl sem vegur um 1530 kg.

19 tommu felgur á Ultimate útgáfunni.

Látlaus hönnun

Það fyrsta sem maður tekur eftir er látlaus hönnun bílsins. Þegar maður sest undir stýri skýst upp í hugann sú spurning – hvar er allt tæknistöffið sem er í öllum nýjustu bílunum í dag? Það er nánast ekki til sá bíll sem er með nánast „sjónvarpsskjá” og stafrænu mælum hingað og þangað um mælaborðið.

Opel hefur farið aðeins aðra leið að sama markmiði.

Látlaus en hugguleg hönnun á innanrými.

Skjárinn er samt sem áður 8 tommur og alveg nægilega stór til að sýna manni hvað er í útvarpinu, leiðsögukerfið eða myndrænar upplýsingar um rafmagnseyðslu. Og það er takkastýrð miðstöð í bílnum sem mér finnst meiriháttar.

Vel formuð leðursæti og sérlega þægileg – enda hönnuð í samráði við þýska baksérfræðinga. Hiti og kæling í sætum í Ultimate týpunni.
Hægt er að lengja setu framsætanna þannig að hún styðji betur við fótleggina.

Sætin eru sérlega þægileg enda hönnuð í samvinnu við samtök baklækna í Þýskalandi. Þú getur hreinlega stillt sætið í nákvæmlega þá stöðu sem hentar þér og fest hana í stafrænu sætisminni bílsins. Þau halda vel við á alla vegu og seturnar eru nokkuð breiðar. Hægt er að lengja setuna þannig að hún styður betur við lærin.

Svo er hægt að hita eða kæla botninn á sér allt eftir því hvað hentar.

Aftursæti eru þægileg bíllinn er ágætlega plássgóður afturí.

Einfalt að aka

Fyrst og fremst þægilegt. Það er svarið við spurningunni um hvernig er að aka Opel Grandland X Hybrid 4. Hitt er svo annað mál að það er einfalt að setja sig inn í tæknina sem bíllinn býr yfir. Þú getur valið um nokkrar aksturstillingar. Þú getur ekið bílnum á rafmagninu einu saman og er ætlað að hann komist tæpa 60 kílómetra á hleðslunni.

Stýrið er þægilegt. Takið eftir gírhnúðnum – hann á ættir sínar að rekja til Peugeot enda Opel framleiddur af PSA samsteypunni.

Ætli það sé ekki eitthvað minna í raun. Hægt er að aka bílnum sem blendingi (e. hybrid) og stýrir kerfi bílsins þá samstarfi orkugjafanna sem nýtist best í þeim aðstæðum sem ekið er í hverju sinni. Svo er hægt að setja hann í sport stillingu. Þá hreinlega flýgur hann.

Hurðir eru léttar og opnast vel. Þú sest inn í bílinn en ekki ofan í hann.
Fínt aðgengi um afturhurðir.

Sú stilling er eflaust þægileg á hraðbrautinni þegar taka þarf örsnöggt fram úr eða þegar maður vill skjóta honum inn af hliðarvegi og geta þá treyst því að aflið sem maður óskar komi strax. Opel Grandland X Hybrid 4 er búinn stafrænu aldrifi sem kikkar inn þegar á þarf að halda. Bíllinn er hannaður þannig að það komi inn þegar akstursaðstæður kalla á.

Hins vegar getur þú með ákveðinni stillingu fest bílinn í aldrifinu þegar á þarf að halda.

Farangursgeymslan er aðgengileg en mætti vera stærri. Opnun afturhlera er rafdrifin.
12 volta tengi og ljós í farangursgeymslu.

Vel búinn og traustur

Það verður að segjast að þessi nýi Opel Grandland X hybrid 4 vekur athygli. Hann er með öllum þeim búnaði sem tíðkast í nútímabílnum s.s. akreinavara, árekstarvara, hliðarloftpúðum, veglínuskynjara, ökumannsvaka og hann les umferðarmerki.

Hann er einnig með blindpunktsviðvörun og hægt er að fá bílinn með fjarlægðarskynjurum að framan og aftan og í dýrustu týpunni, reynsluakstursbílnum, er bílastæða aðstoð og bakkmyndavél ásamt LED aðalljósum með sjálfvirkri hæðar- og beygjustillingu.

Miðjustokkurinn er ekki að trufla hér og fer ágætlega um þrjá fullorðna í aftursætum.

Hentugur og nytsamur

Opel Grandland X Hybrid 4 er notadrjúgur bíll. Þokkalega plássmikill, þægilegur í akstri og hagkvæmur í rekstri. Með blandaðri orku (rafmagn og bensín) erum við líklega að tala um 2-3 lítra á hverja 10 kílómetra en þegar rafmagnið er uppurið um 7 lítrar á hundraðið. Opel Grandland X Hybrid 4 hentar mörgum – sérílagi fjölskyldufólki með börn sem standa í skreppi og skutli.

Að sama skapi er hægt að ferðast á bílnum lengri vegalengdir á grænan máta.

Vandaður frágangur er einkennandi – að innan sem utan.

Helstu tölur:

Verð frá: 5.999.000 kr. (Verð á reynsluakstursbíl Ultimate 7.390.000 kr.)

Vél: 1,6 lítra. PEHV (plug-in hybrid).

Hestöfl: 300.

Rafhlaða: 13.2 kWh.

Drægni á rafmagni: 59 km.

Hámarkstog: 520 Nm.

0-100 k á klst: 5.9 sek.

CO2: 49 gr/km.

Eigin þyngd: 1.530 kg.

L/B/H 4477/2098/1609 mm.

Svipaðar greinar

Svipaðar greinar