Ég fann þennan bíl í litlum bæ rétt fyrir utan San Francisco, nánast bara úti í eyðimörkinni segir Ólafur Theódór Jónsson eigandi 1970 ágerðar af Dodge Challenger, gulum að lit.
Vekur athygli
Þetta er fallegur bíll, hann vekur athygli um leið og hann kemur á planið. Fallegar línur þessa bíls og svolítið „röff” hönnun setja hann á stall með kollegum sínum, bandarískum sportbílum frá sjöunda og áttunda áratugnum.
Um hundrað kílómetrar á ári
Ólafur keypti bílinn árið 1992 og er því búinn að eiga hann í rúm þrjátíu ár. Hann var með bílinn á meginlandi Evrpópu um tíma en hin síðari ár hefur hann verið staðsettur í Reykjavík.
Bíllinn er 100% í upprunalegri mynd nema að hann hefur verið málaður og það með orginal lakki og lit.
Hann var nefnilega farinn að upplitast eilítið segir Ólafur.
Einstakur bíll
Bíllinn hefur alla tíð verið sýningarbíll. Ólafur segist aka bílnum kannski um 100-200 km. á ári bara til að viðra hann og sýna.
„Á þessum árum (1992) var náttla ekkert internet þannig að maður var að skoða svona bíla í auglýsingabæklingum, segir Ólafur.”
Hann fann síðan nokkra bíla sem voru reyndar í misjöfnu ástandi og marga sem voru bara lík (ónýtir).
Tvö ár að finna bílinn
Ólafur var tvö ár að finna rétta bílinn. Eftir tvær ferðir út til Bandaríkjanna og talsverða snúninga við leit á bíl fann hann hinn eina rétta. Það var keyrt í nokkra klukkutíma, kannski 1000 kílómetra til að skoða bíl.
Ólafur setti síðan auglýsingu í bílablað Hemmings. Þá fór eitthvað að gerast.
Hann fékk sem sagt upplýsingar um tvo bíla, annan Cuda, sjálfskiptan blæjubíl og þennan sem er beinskiptur með Hurst skiptingu. Ólafur vildi beinskiptan bíl þannig að þessi var hinn eini rétti.
Gullmoli í eyðimörkinni
Bíllinn hafði verið í eigu sömu fjölskyldu frá upphafi og var dekurbíll. Í þessum bíl er 340 cid, 275 hestafla vél tengd við Hurst beinskiptingu og er bíllinn gólfskiptur.
Að sögn Ólafs er þetta er einn af 66 bílum þessarar útfærslu í framleiðslu.
Dodge Challenger
Dodge Challenger 340 er klassískur amerískur sportari framleiddur af Chrysler Corporation undir Dodge vörumerkinu.
Hann var hluti af fyrstu kynslóð Dodge Challenger bíla, sem voru framleiddir frá 1970 til 1974.
1970 árgerðin er talin ein sú eftirsóknarverðasta af Challenger og 340 útgáfan er sérstaklega athyglisverð fyrir frammistöðu og töff útlit.
Öflugur á alla vegu
Dodge Challenger 340, árgerð 1970 var búinn öflugri 5.6 lítra (340 cid (kúbiktommu)) V8 vél.
Þessi vél var þekkt fyrir topp afköst og skilaði um 275 hestöflum og 340 lb-ft togi.
Hann var með fjögurra hólfa blöndungi og tvöföldu útblásturskerfi, sem stuðlaði að þrælmiklu afli bílsins og sérlega skemmtilegu hljóði.
Challenger 340 var fáanlegur með annað hvort fjögurra gíra beinskiptingu eða þriggja gíra sjálfskiptingu.
Dodge Challenger 1970 er einfaldur að öllu leyti, liggur lágt og er mjög í anda þeirra sportbíla sem Kaninn framleiddi á þessum árum. Langt húddið með áberandi djúpu grilli og fjórum aðalljósum gaf bílnum sterkan og sportlegan svip.
Challenger var fáanlegur í ýmsum líflegum litum og menn gátu valið um sportlegar rendur á bílinn og loftinntak sem var fest beint ofan á vélina og stóð út í gegnum húddið og hreyfðist með titringi vélarinnar.
Mismunandi útfærslur
Dodge Challenger var boðinn í mismunandi útfærslum, þar á meðal grunngerðin, Challenger R/T (Road/Track) og ofurkraftmiklum Challenger T/A.
R/T pakkinn bætti við sporteiginleikana, svo sem stífari fjöðrun og sportröndum.
T/A gerðin var sérstaklega hönnuð fyrir SCCA (Sports Car Club of America) Trans-Am kappakstur og var með ýmsa sporteiginleika sem hinar gerðirnar höfðu ekki.
Dodge Challenger 340 árgerð 1970 varð vinsæll fyrir einfalda hönnun, afl og þægilega innréttingu. Hann var talinn harður keppinautur annarra sportara síns tíma, svo sem Chevrolet Camaro og Ford Mustang.
Í dag er 1970 Challenger er mjög eftirsóttur í fornbílageiranum og flottir og vel með farnir slíkir bílar eru að seljast gegn háu gjaldi.
Umræður um þessa grein