Bentley og Lamborghini fækkaði mjög í heiminum í febrúarmánuði. Í sömu viku brunnu 250 bílar af þessum gerðum og svo voru tveir flattir út í Beverly Hills eins og pönnukökur.
Við fjölluðum um bílaflutningaskipið Felicity Ace sem sökk í síðustu viku eftir að hafa verið mannlaust á reki um Atlantshafið, skíðlogandi í rúma viku. Fyrst brunnu bílarnir og svo sukku þeir. Þvílíkt og annað eins! Hlekkur á þá umfjöllun er hér neðst. Í sömu viku og eldurinn kom upp í skipinu varð óhapp í afskaplega fínni götu í Beverly Hills. Bílstjóri á sendibíl var á ferðinni með eitthvert góss, fullfermi og rúmlega það, þegar hann missti stjórn á bílnum og dúndraði á glæsivillu í hverfinu.
Í fyrsta lagi flatti hann út fágætan Lamborghini Aventador. Þá meina ég að þessi ofursportari var nánast jafnaður við jörðu eins og sést á myndinni fyrir neðan. Milljón dollara er hann metinn á. Enda einhver sárasjaldgæf sérútgáfa af Aventador. Milljón dollara eru um 136 milljónir króna.
Bíllinn var í sínu stæði og allt eins og það átti að vera – þar til sendibíllinn kom og margt varð að klessu. Þetta með Lamborghini-inn er eitt, en alls skemmdust þrír bílar við húsið. Í innkeyrslunni var nefnilega Bentley sem ekki bara skemmdist heldur var hann ónýtur eftir hamaganginn, rétt eins og Lambó-inn. Var Bentley-inn svo illa klesstur að varla var hægt að sjá af hvaða tegund flakið var.
?
Mercedes-Maybach skemmdist líka en ekki mjög mikið. Hann verður eflaust lagaður.
Hvernig veit maður um eitthvað svona sem gerist inni í hverfi í Beverly Hills? Jú, Pepe (heitir samt Josh) er maður sem alltaf er í vinnunni. Hann á nokkra öfluga dráttarbíla og rekur dráttarbílaþjónustu Pepes í Kaliforníu. Þessi náungi er með ljósmyndadellu og tekur oft myndir í vinnunni. Hann var kallaður út í þetta sérstaka verkefni.
Svo er það húsið!
?
Höfum hugfast að sendibíllinn dúndraði á húsið og afgreiddi bílana í leiðinni. Húsið er meira í ætt við höll og er metið á 12 milljónir dollara. Það slagar í tvo milljarða króna. Eða svo ég sé ögn nákvæmari þá eru það 1.635.389.400 krónur. Það eru margar krónur!
En hann Pepe er ekki húsaflutningamaður heldur bílakarl og þess vegna fær húsið litla athygli. Reyndist hin mesta áskorun að „skrapa“ bílabrakinu saman til að hægt væri að komast að krambúleruðum sendibílnum og fjarlægja þann óboðna óheillagest sem auk þess var pikkfastur þar sem hann endaði.
Síðar frétti Pepe að sendibíllinn hafi verið svo yfirfullur að það hálfa hefði verið of mikið. Hann reyndist vera með tæplega sjö tonna farm og þar sem bílstjórinn geystist niður eftir hlykkjóttum götunum gerðist það sem hlaut að gerast: Bremsurnar fóru. Bremsulaus flaug hann á húsið og því fór sem fór.
Eigandi hússins mun vera einhver íþróttastjarna en ekki fór hann Pepe nánar út í það. Ef þið þekkið íþróttastjörnu sem býr í Beverly Hills og óskar eftir varahlutum í Mercedes-Maybach þá gætum við verið komin á sporið.
Tengt efni:
Skipið sokkið með hátt í 4000 bíla um borð
Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein