Öflugur Meistarakassi
Við óskum okkur öll góðan vinnustað. Ef þú ert atvinnubílstjóri þá inniheldur hann helst góðan stað til að sitja á, stórar rúður til að horfa út um og góða spegla. Ekki til að horfa á þína eigin spegilmynd og velta fyrir þér hví lífið hefur leitt þig hingað á þessa stund, heldur til að sjá og átta þig á aðstæðum í kringum þig. Renault Master býður uppá þetta umhverfi á snyrtilegan og praktískan máta.

Í september 1980, fyrir næstum fjörtíu árum síðan, kom Renault á markaðinn með Master. Sá bíll var byltingakenndur að mörgu leytinu til. Rennihurð á hliðinni, hringlaga hurðarhúnar og útlit sem best var notið í myrkri. Önnur kynslóð bílsins kom árið 1997 og þá mátti aðeins fara að kveikja á einhverjum ljósum í kringum gripinn. Þriðja kynslóðin tók sig síðan einstaklega vel út á götum landins. Fjórða kynslóðin er áframhald á fegrun sendiferðabílanna og hefur hönnuðum Renault tekist einstaklega vel til í þetta sinn. Bílinn er öflugur í útliti og hefur sterkan svip sem er auðþekkjanlegur.



Það mikilvæga samt fyrir flest alla sem kaupa sér Renault Master er ekki þægindi þess sem vinnur á honum heldur verð, notkunarmöguleikar og rekstrarkostnaður. Rekstrarkostnaði ætti einmitt að vera stillt í hóf þar sem að þetta er í raun og veru bara stór fólksbíll. Eyðsla samkvæmt WLTP er aðeins um 7l/100km. Renault Master hámarkar líka notkunarmöguleika sína fyrir fyrirtæki í rekstri með því að vera með stórt og þægilegt farmrými. Það er eins stórt og hægt er fyrir bíl í þessum stærðarflokki. Stórar hurðir að aftan opnast 180°, með möguleika á 270° opnun. Hjólaskálarnar eru litlar og stangast ekki mikið inní rýmið sjálft.






Renault Master er framhjóladrifinn og því léttari en þeir sem koma afturhjóladrifnir. Burðargetan er um 1.400kg fyrir báða bílanna, en þessi sem hér er á myndum er langur og ber því aðeins minna en sá sem er millilangur.

Aðstaða bílstjórans í Renault Master er til fyrirmyndar. Þar er allt það helsta. Sætið er hægt að stilla á hæð og á því er armpúði fyrir hægri hendina. Sex gíra benskiptingin var mjúk og þægileg með stutt á milli gíra sem ekkert mál var að finna og koma sér í. Afþreyingarkerfið var R-link kerfið frá Renault og er það búið blátannarbúnaði. Það er líka með Íslandskorti og ekkert mál að eiga símtöl í gegnum það. Miðstöðin var handvirk, mælaborðið með stafrænum upplýsingaskjá, en annars hefðbundnir mælar, tvö farþegasæti og fullt af geymsluhólfum.

Það er hægt að leggja miðju sætið fram á við og þannig búa til handhægt vinnuborð fyrir þann sem er að nota bílinn. Þú ert ekki bara að kaupa sendiferðabíl, þú ert líka að kaupa færanlega skrifstofu.






Þrjár vélastærðir eru í boði á Renault Master. Þær eru allar dísil og hafa 135, 150 eða 180 hestöfl. Bíllinn sem ég hafði til prufu var 180 hestafla. Ég mæli með þeirri vélarstærð. Uppgefin eyðsla á þeirri vél er aðeins 0.1 l meiri fyrir hverja 100 km. Vinnslan í vélinni var til fyrirmyndar og togsviðið breytt og gott. Það gefur þér líka ákveðna hugarró að vita til þess að þú hefur nægt afl til að fara upp Kambanna full hlaðinn en samt í samfloti með öllum.



Lokaorð
Það er úr nægu að velja þegar kemur að því að velja sér vinnubíl. Það helsta sem stýrir því hvaða bíl fólk kaupir í þessum flokki er verð og notkun bílsins. Ef þú ert að leita þér að sendiferðabíl og vilt hafa hann öflugan og skemmtilegan þá er um að gera að taka hring á Renault Master. Ég mæli með Renault Master fyrir alla þá sem eru að leita sér að skemmtilegum og praktískum vinnubíl sem bíður upp á góða vinnuaðstöðu fyrir bílstjórann. Hann er flottur í hvaða lit sem er, svo lengi sem að hann passar í litróf vinnustaðarins. Taktu hann bara á svörtum álfelgum til að vera meira kúl en hinir.
Ef þér lýst á’ann, kauptann!