Nýr og aðeins öðruvísi Mazda 100% rafmagnsbíll
Nú hefur Mazda komið sínum fyrsta rafbíl á markaðinn. Hann heitir MX-30 og er aðeins öðruvísi bíll. Við fyrstu sýn dettur manni í hug afkvæmi CX-3 og Mazda 3 með aftari hurðum frá RX-8. Bíllinn venst vel og eftir einn göngutúr í kringum hann finnst manni hann bara verulega flottur.
Mazda gæði
Þessi nýja Mazda MX-30 sver sig algjörlega í ætt annarra bíla ættartrés Mazda hvað gæði og hönnun varðar. Efnisval, hönnun, framsetning og frágangur er allur til fyrirmyndar.
Það má því með sannni segja að það vel hafi verið vandað til verka hjá Mazda með þennan bíl – enda hófust þeir handa fyrir 50 árum síðan að þróa rafmagnsbíla. Hugmyndagerð þess bíls var kölluð Mazda EX-005 og var eins og egg í laginu.
Við tókum rúnt á þessum glæsilega nýja 100% rafmagnsbíl einn laugardags eftirmiðdag. Þú sest inn í bílinn en ekki ofan í hann og það fer ansi vel um mann í farþegasætinu.
Maður situr hátt, sætin styðja vel við og seturnar eru með „viðhaldi” við rassinn þannig að maður renni ekki til hliðanna í beygjum. Framrúðan er með frekar hátt áfallshorn þannig að útsýnið um framrúðuna er betra en í mörgum öðrum bílum sem hafa meiri halla á framrúðu.
Vel búinn
Grunnútgáfan er mjög vel búin. Í honum er meðal annars varmadæla, blindpunktsviðvörun, skynvæddur hraðastillir, sjálfvirk lækkun á háageisla aðalljósa, snjallhemlunarkerfi, nálægðarskynjarar að framan og aftan, brekkubremsa og ökumannsvaki (án myndavélar í SKY). Í dýrari gerðum er boðið upp á sjálfvirka öryggishemlun, ökumannsvaka með myndavél, bakk- og fram myndavél með 360° vöktun ásamt aðvörun um hliðarumferð.
Vélarhljóð til öryggis
Við ökum af stað í borgarumferðina og það er hljóðlaus, svífandi tilfinning sem maður finnur þegar bílnum er ekið af stað. Stýrið er nákvæmt og svarar manni strax og maður hreyfir við því. Við gefum honum aðeins inn til að sjá hvað hann getur.
Við heyrum hljóð, einhversskonar vélarhljóð. Verkfræðingar Mazda álíta að akstursupplifun og skynjun ökumanns með því að heyra „vélar” hljóð þegar hann stígur á „bensíngjöfina” skynji hann betur hröðun bílsins og sé þar með meðvitaðri um aksturinn.
Vélarhljóðið berst hins vegar til eyrna ökumanns og farþega í gegnum hljómkerfi bílsins.
Tækni á tækni ofan
Eins og flestir nýir bílar í dag er þessi Mazda MX-30 stútfullur af tækninýjungum. Ekki einatt er hönnun bílsins og útlit nýstárlegt heldur er hugmyndafræðin það líka.
Mazda álítur að með minni og léttari rafhlöðum verði heildarkolefnisspor bílsins á líftíma hans minna. Rafhlaðan í MX-30 er um 35.5 kWh og drægnin er um 200 km. skv. WLTP staðlinum.
Þetta er blandaður akstur sem þýðir að bílnum er ekið bæði í þéttbýli og strjálbýli. Í hreinum bæjarakstri auglýsir Brimborg að hægt sé að komast um 265 km. á hleðslunni en rafmagnsbílar eyða einmitt minni orku í bæjarakstri öfugt við bíla með brennsluvélum.
Varmadæla er hluti af staðalbúnaði bílsins. Varmadælan nýtir loft til að hita eða kæla farþegarýmið og drifrafhlöðu bílsins. Þessi búnaður vinnur best í kaldara loftslagi eða frá um -5 gráðum til 15 gráðu hita °C.
Áætlað er að hægt sé að auka akstursdrægni allt að 30 kílómetrum eða um 15% af heildardrægni með varmadælu.
Sportfílingur
Það er frábært að aka bílnum. Við erum að tala um nægilega stífa fjöðrun, það er sportfílingur í akstrinum. Bíllinn liggur vel á vegi og leggst ekki í beygjurnar.
Þökk sé búnaði sem Mazda hefur þróað og kallast G-Vectoring Control (GVC) sem gerir að verkum að þegar dregið er úr hraða í beygju minnkar vélin togið og þannig færist þyngdin meira yfir á framhjólin.
Það gerir bílinn mjög stöðugan í beygjum en Mazda MX-30 er framdrifinn.
Efnisval í sætaáklæði og innréttingum er nýstárlegt. Það er korkur í miðjustokknum en arfleifð Mazda er einmitt í korkinum. Áður en fyrirtækið fór að framleiða bíla vann það kork og seldi.
Sætisáklæðin eru eins og efnið í jakkafötunum mínum frá árinu 1986, gróft tweedefni í ljósgráum lit. Það er sett í hurðaspjöldin líka og kemur mjög vel út.
Ökumaður og bíll sem ein heild
Mazda hannar bíla sína út frá þeirri hugmyndafræði að ökumaður og ökutæki sameinist í einni heild. Jú, maður finnur það í Mazda MX-30 – allavega frammí bílnum. Hins vegar var fótaplássið afturí frekar lítið en gott var að stíga út og inn að aftan samt.
Pláss frammí er ljómandi og skottpláss einnig. Frangursgeymslan er stærri en gerist og gengur í bíl í þessum stærðarflokki.
Um er að ræða 366 lítra sem stækka má upp í tæpa 1200 lítra með því að fella niður bak í aftursætum. Þau er hægt að fella niður 40:60.
Rafmótor
Mótor Mazda MX-30 skilar um 145 hestöflum og er að eyða um 19 kWh á hverja 100 kílómetra að meðaltali. Hröðunin er um 9.7 sekúndur frá 0-100 km. klst. Mazda MX-30 er með innbyggða 6.6 kW, 16A hleðslustýringu sem gefur hleðslutíma frá 0-100% 5 klst. eða 20-80% 3 klst. Í hraðhleðslustöð er hægt að hlaða bílinn frá 20-80% á um 36 mínútum.
Kemst ég til Akureyrar?
Algengasta spurningin sem við fáum er hvort hægt sé að komast til Akureyrar ef bílinn er rafdrifinn. Svarið er alltaf já, og lengra ef þú vilt. Þú þarft bara að hlaða á leiðinni. Á bíl með hefðbundinni brunavél þarftu ef til vill líka að kaupa eldsneyti á leiðinni.
Samt er Mazda MX-30 hugsaður sem borgarbíll og er án efa með betri kostum sem slíkur. Á heimasíðu Brimborgar er sagt að meðal íslendingur aki um 40 kílómetra á dag. Ef svo er duga flestir nýju rafmagnsbílarnir fyllilega til að standa undir þeim þörfum.
Keppinautar
Mazda MX-30 kemur inn á sístækkandi markað rafmagnsbíla. Svipaðir bílar eru MG ZS rafmagnsjepplingurinn sem við fjöllum um hér og Peugeot e-2008 sem við fjöllum um hér. Bílar með svipaða drægni, verð og stærð.
Mazda er hér með glæsilegan rafmagnsbíl sem stendur fyllilega undir væntingum. Flottur, sportlegur, hagkvæmur og öruggur. Full lítið pláss fyrir aftursætisfarþega og drægni mætti alveg vera meiri miðað við bíl í þessum stærðarflokki.
Hægt er að panta Mazda MX-30 í vefsýningarsal Brimborgar og hann fæst í fimm flottum litum og hægt er að fá þrjár útfærslur á þriggja tóna litasamsetningu á First Edtion og Cosmo gerð.
Helstu tölur:
Verð frá 3.980.000 (Verð á reynsluakstursbíl 4.290.000).
Rafhlaða: 35,5 kWh.
Drægni: 200 til 265 km.
Hestöfl: 145
Newtonmetrar: alllt að 271 Nm.
0-100 km á klst. 9,7 sek.
Hámarkshraði: 140 km/klst.
CO2: 0 g/km.
Eigin þyngd: 1.750 kg.
Veghæð: 15,7 sm.
L/B/H 4395/1795/1555 mm