Breska fyrirtækið Watt Electric Vehicle Company hefur opinberað nýjan sérsmíðaðan sendibíl og hann er með miðlæga akstursstöðu.
Á atvinnubílasýningunni 2023 í Birmingham kynnti Watt Electric Vehicle Company (WEVC) nýjan eCV1 sendil, rafknúinn lítinn flutningabíl sem hugsaður er útfrá drægni og getu.
Breska fyrirtækið sem staðsett er í Cornwall og stundar þar rannsóknir og þróun er einnig með aðstöðu í Worcester fyrir samsetningu en þeir eru með áform um að setja upp verksmiðju í Bretlandi sem mun geta smíðað 5.000 sendibíla á ári.
eCV1 er svolítið sér á parti og einstök hönnun rafhlöðu bílsins gerir að verkum að hann ber meira af farmi. Frumgerð sendibílsins er smíðuð í samvinnu við rafeindafyrirtækið Etrux, sem hefur séð um að hanna og smíða yfirbyggingu bílsins.
Yfirbyggingin er með einstaka miðlæga akstursstöðu og skipulag stýrishúss sem getur hýst tvo í sæti – eða hreinlega eftir óskum kúnnans.
Í samtali við Auto Express útskýrði Neil Yates, forstjóri WEVC, hugsunina á bak við eCV1. „Þetta eins sætis skipulag er hannað til að bjóða upp á gott útsýni um framlgugga og stuttur framendinn þýðir að þú sérð mun betur fram fyrir bílin en í hefðbundnari bíl með lengra húddi.
„Við erum að einbeita okkur að því að smíða grind sem fyrirtæki eins og Etrux geta síðan bætt við sérsniðnum yfirbyggingum. Þessi er búin til úr endurunnu áli og samsettum efnum til að bæta sjálfbærni, en þessi bíll er hugsaður með tvöfalt lengri líftíma en hefðbundinn sendibíll.
Á grindinni hvílir 100 kWst. Rafhlöðupakki en rafhlöðunni er haldið eins léttri og unnt er enda byggð inn í grindina. Hámarksþyngd farms á að geta verið um 2,5 tonn en einnig verður í boði 3,5 tonna útgáfa.
Ef bíllinn er skynsamlega hlaðinn er gert ráð fyrir að aksturssvið geti verið „meira en nóg fyrir heilan vinnudag“, að sögn forsvarsmanna bílsins. „Við erum að tala um WLTP drægni upp á 378 km en erum nokkuð vissir um að geta boðið upp á drægni sem er yfir 320 km miðað við venjulega notkun og að bíllinn yrði ekki yfirhlaðinn.
Sendibíll þessi á að vera nettengdur og þannig ætlar framleiðandinn að safna upplýsingum og nota til að þjónusta bílinn og gera umráðamönnum kleift að huga að heilsu bílsins.
Áætlanir WEVC eru enn á frumstigi, en þeim miðar áfram, en prófanir á gripnum eiga að hefjast síðar á þessu ári. Þá á líka að vera búið að finna lóð fyrir verksmiðjuna til að smíða eCV1 bílinn en gert er ráð fyrir sendibíllinn fari í sölu árið 2025.
Byggt á grein Autoexpress.
Umræður um þessa grein