Minnsti sportjepplingur VW fær yfirhalningu
T-Cross var hleypt af stokkunum árið 2019 svo það liggur ef til vill beint við að hann eigi von á smá andlitslyftingu í ár. Þessi litli krossover hefur svo sannarlega staðið sig vel og verið mjög samkeppnishæfur bíll. Það má því alveg búast við að þessi knái bíll verði áfram í framlínu í sínum flokki.
T-Crossinn keppir á móti bílum eins og Citroen C3 Aircross, Renault Captur og Nissan Juke auk annarra álíka bíla innan VW Group eins og Seat Arona og Skoda Kamiq. Annars er líka annar keppinautur innan VW sem kynntur var á síðasta ári og heitir VW Taigo. Sá er byggður á grunni T-Cross en er mun „kúpulagaðri“ í útliti.
Njósnaskot sem náðust af T-Cross sýna að hann mun fá endurnýjaðan framenda með nýju grilli og lægri stuðara. Ef til vill verður grillið aðlagað þannig að það verði með innbyggð dagljós í fullri breidd eins og sést á öðrum nýjum gerðum VW. Að aftan mun T-Cross fá einhverja meðferð með nýrri afturljósaþyrpingu og uppfærðum stuðara.
Að innan ætti bíllinn svo sem ekki að breytast mikið. Við gerum ráð fyrir 10.25 tommu stafræna skjánum (Digital Cockpit Pro) fyrir ökumann sem staðalbúnað og í miðjunni verður eflaust átta tommu snertiskjár með þráðlausu Apple CarPlay og Android Auto tengingu.
Þar sem T-Cross situr á sama MQB grunni og Polo og Taigo búumst við síður við að um verði að ræða rafvædda aflrás. VW mun líklega halda áfram að bjóða bílinn með 1,0 lítra túrbó bensínvél sem gefur um 109 hestöfl og 1,5 lítra bensínvél sem gefur um 148 hestöfl. Þá verði án efa í boði 1,6 TDI líka.
Það er ekki búið að gefa út verð á nýja lúkkinu en reiknað er með að verð bílsins hækki óverulega.
Byggt á grein Autoexpress
Umræður um þessa grein