Nýr Suzuki Swift er lítill en samt stór!

Tegund: Suzuki Swift

Árgerð: 2024

Orkugjafi: Bensín/rafmagn

Góð sæti, þægilegur akstur, hönnun
205
DEILINGAR
1.9k
SMELLIR

Í heimi þar sem rafbílar eru áberandi í fyrirsögnunum sker Suzuki Swift sig úr sem eftirminnilegur karakter. Þetta er alvöru lítill „hatchback“ með öllu sem því fylgir og líka bensínvél.

Hann býður upp á hressandi akstursupplifun og þú finnur gamla góða „bensínkikkið“ þegar þú stígur á gjöfina.

Swift kemur bæði með fram- og aldrifi.

Þessi knái smábíll er ekkert eins lítill og hann vill vera láta, ég vil því segja að þetta sé lítill, stór bíll! Ég fékk nýlega tækifæri til að taka snúning nýjum Suzuki Swift og hér er það sem mér finnst standa uppúr.

Fallegur smábíll

Nýr Suzuki Swift státar af sportlegri og nýtískulegri stemningu, eilítið rúnnuðum hornum og stílhreinni hönnun.

Rennilegar línur bílsins eru rammaðar inn í alveg nýtt og áberandi grill sem gefa bílnum fallegt yfirbragð.

Swift er boðinn í ýmsum líflegum litum, þar á meðal hinum áberandi Frontier Blue og Burning Red. Þú getur valið um tvítóna litasamsetningu líka.

Fótapláss

Farþegarýmið er ótrúlega rúmgott miðað við hvað þú hugsar þegar þú berð bílinn fyrst augum enda um smábíl að ræða.  

Þrátt fyrir fyrirferðarlítið ytra byrði býður Swift upp á rúmgott fóta- og höfuðrými fyrir bæði fram- og aftursætis farþega. Sætin halda vel við og styðja ágætlega við í hliðarhreyfingum.

Það kom á óvart hversu lítið hljóð berst inn í bílinn. Lítið sem ekkert veghljóð og vélarhljóð lítið.

Sætin halda vel við og hafa djúpar setur.

Betra að sitja hér en í mörgum öðrum bílum sem eru mun stærri en Suzuki Swift.

Nægt afl

Suzuki Swift kemur með 1200 rms vél, 3 strokka, sjálfskipt CVT eða beinskipt fimm gíra.

Vélin hefur fengið uppfærslu líkt og aðrir hlutar bílsins. Mild-hybrid kerfið gefur meiri hagkvæmni.

Vélin gefur um 82 hestöfl og togar um 113 Nm. Þessi samsetning gefur bílnum nægt afl og gerir hann virkilega skemmtilegan í akstri.

Mild-hybrid kerfið á um 3 hestöfl af heildaraflinu. Rafhlaðan er undir framsæti farþegamegin.

Nýtísku umhverfi

Skipulag mælaborðsins er hreint og leiðandi, með greiðan aðgang að öllum nauðsynlegum stjórntækjum. Miðpunktur innanrýmisins er upplýsinga- og afþreyingarkerfið sem er með notendavænt snertiskjáviðmót.

Stýrið er þykkt á réttum stöðum og gott að halda um það.

Það býður upp á ágæta tengingu við snjallsímann þinn, sem gerir þér kleift að fá aðgang að uppáhalds forritunum þínum og tónlist á ferðinni. Og þú getur tengt símann þráðlaust við kerfið.

Og þarna sjáum við bara venjulegt, analóg mælaborð – mikið er það nú heimilislegt.

Það er eitthvað við þetta „venjulega“ mælaborð sem gefur manni sterkari tilfinningu fyrir aflinu í bílnum.

Nú skulum við tala um akstursupplifunina. Suzuki Swift er boðinn með 1.2 lítra vél og sá sem við prófuðum var búinn mild hybrid kerfinu.

Eins og áður sagði, hjálpar þessi  nýstárlega tækni bílnum þegar á reynir og eykur aflið enn frekar þegar þörf er á en bætir um leið eldsneytisnýtingu.

Framdrif eða aldrif

Hvort sem valin er framdrifs-  eða fjórhjóladrifs útgáfa, þá skilar Swift líflegri frammistöðu sem mun örugglega rifja upp gamla takta ef þú manst hvernig er að aka bíl með brunavél.

Stýrið er móttækilegt og bíllinn er lipur, sem gerir hann tilvalinn til notkunar á þröngum borgargötum jafnt sem hlykkjóttum sveitavegum.

Hér er öllu vel fyrirkomið og vinnuaðstaðan fyrir ökumann til fyrirmyndar.

Valið á milli beinskiptingar eða stiglausrar sjálfskiptingar bætir öðru lagi af skemmtun við akstursupplifunina. Beinskipting býður upp á skarpar og nákvæmar gírskiptingar, tilvalið fyrir þá sem kjósa meiri snerpu.

Á hinn bóginn veitir CVT-gírskiptingin mjúka og hnökralausa hröðun sem er fullkomin fyrir afslappaðan akstur á þjóðveginum.

Vel búinn

Þegar kemur að öryggi veldur Suzuki Swift ekki vonbrigðum. Hann er búinn fjölda háþróaðra eiginleika, þar á meðal sjálfvirkum hraðastilli, akreinavara og sjálfvirkri neyðarhemlun. Súkkan er ennfremur með hliðarárkestrarvörn.

Bakkmyndavélin er sérlega skýr og hjálpar raunverulega til að sjá vel aftur fyrir bílinn.

Hér er ágætt pláss miðað við stærð bílsins.

Hagkvæmur kostur

Að lokum er nýr Suzuki Swift ferskur andblær á markaði mettuðum rafbílum, sportjepplingum eða jepplingum.

Sambland af stílhreinni hönnun, þægilegri innréttingu og spennandi frammistöðu gerir hann að framúrskarandi vali fyrir þá sem leita að liprum borgarbíl sem einnig stendur sig vel í lengri og strembnari ferðum.

Rauður litur fer bílnum ansi vel.

Berðu Suzuki Swift við til dæmis Toyota Yaris og þá sérstaklega með tilliti til pláss fyrir ökumann og farþega. Swiftinn er klárlega plássmeiri.

Lendir á Íslandi innan skamms

Við mælum með að þú skellir þér í bíltúr þegar Suzuki á Íslandi kynnir þennan skemmtilega bíl innan skamms.

Ef þú ert að leita að bíl til að skutlast með börnin, skreppa í ræktina, golf eða á skíði er þetta pottþétt bíllinn sem gæti hentað.

Flottur sem annar bíll á heimili eða fyrir eldri hjón sem vilja njóta lífsins á spraneytnum og liprum bíl í borginni og njóta svo ferðarinnar í bústaðinn um helgar.

Myndband

Helstu tölur:

Verð: liggur ekki fyrir ennþá

Gírkassi: 5 gírar  / CVT sjálfskipting

Afl mótors: 82 þar af 3 frá rafmótor

Tog: 113Nm.

Drægni: 4,4 ltr/km. skv. WLTP staðli

Heildarþyngd: 949 kg.

Lengd/breidd/hæð: 3.860/1.735/1.495 mm.

Svipaðar greinar

Svipaðar greinar