Renault kynnti nýjan Scenic í Malaga á Spáni nýverið. Bíllinn hefur hlotið verðskuldaða athygli og rétt fyrir komu okkar til Malaga var bíllinn útnefndur Bíll ársins í Evrópu.
Nýr Renault Scenic E-tech var valinn Bíll ársins í Evrópu í síðustu viku.
Rafmagnaður kraftur
Scenic verður boðinn með tveimur rafhlöðustærðum, 60 kWst. og 87 kWst. sem bjóða upp á athyglisverða drægni. Minni rafhlaðan hefur um 420 km. drægni og hin stærri um 625 km. drægni skv. WLTP staðlinum.
Nýr Scenic er með eina drifrás að aftan og kemur á 19 tommu felgum.
Við fengum að prófa Renault Scenic í Alpine sport útgáfu og vorum vægast sagt hrifnir af bílnum. Reyndar ókum við einnig Iconic bíl sem er dýrasta týpan af þessum nýja bíl.
Við ókum Alpine gerð upp í fjöllin og um sveitavegi í nágrenni Malaga borgar.
Hljóðlátur
Eftirtektarvert er hve bíllinn er hljóðlátur og þægilegur í akstri. Hér er verið að tala um bíl sem brýtur blað í rafbílasögunni að okkar mati.
Drægni þessa bíls er á pari við þá langdrægustu á markaðnum en þar sem bíllinn er léttari en samkeppnisaðilanna ætti hann að eyða minna rafmagni. Scenicinn er aðeins 1.842 kg. að þyngd.
Renault Scenic hefur selst í 5.3 milljónum eintaka síðan hann kom fram á sjónvarsviðið árið 1996.
Hann er þriðji bíllinn sem Renault býður sem hreinan rafbíl en áður höfðu Zoe og Megane E-tech verið kynntir til leiks.
Öll hönnun bílsins er glæsileg og þarna má sjá hvernig grafíkin í stafrænu mælaborðinu kallast á við vörumerki Renault.
Tæknilega vel búinn
Scenic er útpældur en markmið Renault er að sem flestir geti eignast nýjan rafbíl á hagkvæmu verði. Þetta er fjölskyldubíll, segir Renault.
Þróun bílsins hefur beinst að því að endurnýta og endurvinna, því 90% af öllum íhlutum bílsins eru endurvinnanlegir og 25% íhluta eru úr endurunnum efnum. Til að mynda eru sætisefni unnin úr PET (Polyetheline).
Sætin í þessum bíl eru virkilega þægileg fyrir utan að vera mjög smart, bæði efnisvali og útliti.
Allt að 150 kW á klukkustund
Bíllinn er þannig hannaður að þú getur hlaðið heima með 7 kW á klukkustund en bíllinn er einnig boðinn með 22 kW AC hleðslumöguleika sem gerir að verkum að hraðhleðsla er nánast óþörf.
Nýr Scenic tekur um 130-150 kW í DC hleðslu (hraðhleðsla) á klukkustund. 22 kW möguleikinn hentar þó ekki nema að þriggja fasa tenging sé í boði á hleðslustað.
Annað tækniundur sem Renault kynnir er Panorama glerþak sem er þannig úr garði gert að með einum hnappi verður glerið ógegnsætt/gegnsætt.
Hægt er að stilla hversu mikið þú vilt dempa birtuna í gegnum glerið.
Ótrúlegt fótapláss í aftursætum ásamt snilldarlega hönnuðum miðjustokki sem má segja að sé fjölnota því í honum eru bollahaldarar, skjáraufar fyrir spjaldtölvu og síma, ásamt tveimur USB-C tengjum.
Skemmtileg upplifun
Við fengum til prufu bíla af Alpine gerð með 220 hestafla mótor og Iconic gerð með sömu mótorútfærslu en öðruvísi útlitsgerð. Báðir bílarnir voru afburða skemmtilegir í akstri – Alpine sportlegri á meðan Iconic var aðeins mýkri.
Við mælum með myndbandinu með þessari grein. Erum að vinna reynsluakstursgrein um bílinn með helling af myndum og myndbandi.
Við hjá Bílablogginu þökkum BL kærlega fyrir boðið á þessa áhugaverðu kynningu á Renault Scenic E-tech.
Umræður um þessa grein