Nýr ofurlúxusbíll á leiðinni frá Rolls-Royce
BMW hefur sótt um vörumerkið „Droptail“ fyrir hönd Rolls-Royce, sem bendir til þess að nýr og mjög sérstakur lúxusbíll sé væntanlegur
BMW, móðurfélag Rolls-Royce Motors, hefur sent vörumerkið „Droptail“ til hugverkaskrifstofu ESB, sem gefur til kynna að nýr sérsmíðaður Rolls-Royce sé í smíðum.
Rolls-Royce hefur á liðnum árum búið til fáeinar, sérsniðnar útgáfur af bílum sínum fyrir nokkra útvalda einstaklinga.
Það var einskiptis Sweptail árið 2017, sem seldist á yfir 10 milljónir punda, og Boat Tail sem kom í þremur eintökum á þessu ári – hver kostaði um 22 milljónir punda – sem gerir hann að dýrasta nýja bíl í heimi.
Það er bílavefsíðan Auto Express sem fræðir okkur um þetta og þar á bæ vita menn ekki meira um Droptail, fyrir utan nafn hans, en jafnvel það gefur til kynna að hann gæti verið blæjubíll af einhverju tagi, miðað við tilhneigingu Rolls-Royce til að nota orðið “drop” sem hluta af heiti fyrir blæjubíla sína.
Bæði Boat Tail og Sweptail notuðu útgáfur af Phantom grunninum og það er líklegt að Droptail muni gera það einnig.
Þetta þýðir að undir vélarhlífinni ætti að sitja 6,75 lítra V12 vél Rolls-Royce með tvöfaldri forþjöppu.
Það er líka möguleiki á hreinni rafknúinni aflrás. Spectre, nýr lúxus EV Rolls-Royce, er að koma og notar breytta útgáfu af „Architecture of Luxury“ grunni fyrirtækisins. Droptail gæti líka deilt þessari aðlögun á grunninum, sem kallast „Rolls-Royce 3.0“.
Hvaða aflrás sem Droptail notar, þá mun hann örugglega koma með svimandi fjölda sérsniðinna valkosta að innan sem utan. Auto Express gerir líka ráð fyrir að verðmiðinn sé jafn hár!
Umræður um þessa grein