Nýr Nissan X-Trail jeppi tilbúinn fyrir kynningu 2022
Nissan mun takast á við þennan stóra sportjeppaflokk með nýjum X-Trail, sem mun bjóða upp á e-Power tvinntækni frá Qashqai
Verið er að undirbúa fjórðu kynslóð Nissan X-Trail til kynningar síðar á þessu ári. Við höfum séð hann kynntan erlendis og X-Trail-bíllinn sem kemur á evrópska markaðinn mun líklega líta út eins og bíllinn sem hefur þegar verið kynntur þegar hann fer í sölu hér síðla árs 2022.
Þessi Nissan mun keppa við bíla á borð við Kia Sorento, Peugeot 5008 og Skoda Kodiaq. Hann verður byggður á sama CMF-C grunni og nýjasti Qashqai, sem þýðir að hann verður fáanlegur með nýjustu e-Power tvinnaflrás Nissan.
e-Power tvinnkerfi Nissan blandar túrbó 1,5 lítra fjögurra strokka bensínvél saman við nettan rafhlöðupakka og rafmótor sem skilar 184 hestöflum og 330 Nm togi.
Aðeins rafmótor sem knýr hjólin
Það er aðeins flóknara en kerfin sem finnast í tvinnbílum eins og Toyota Prius, því bensínvélin knýr hjólin aldrei beint.
Þess í stað virkar það sem rafall og fyllir stöðugt á rafhlöðupakkann, sem sendir síðan orku til rafmótorsins.
Uppsetningin tryggir að bensínvélin gangi alltaf með bestu skilvirkni, sem hjálpar til við að minnka útblástur og eldsneytisnotkun. Nissan segir einnig að kerfið veiti svipaða akstursupplifun og rafbíll, með togi samstundis frá rafmótornum.
Það verður líka útgáfa af X-Trail með fjórhjóladrifi sem býðst, þó að enn eigi eftir að staðfesta forskriftirnar fyrir þessa aflrás.
Hins vegar segir Nissan að kerfið muni gefa X-Trail „harkalega fjölhæfni“ sem býður upp á sérstakar drifrásarstillingar fyrir snjó, möl og leðju.
Eitthvað sem vörumerkið telur að muni gefa enn meiri torfærugetu í e-Power formi með miklu togi frá rafmótornum og fínni stjórn á afköstum þessara íhluta samanborið við brunavél.
Fyrir nýja X-Trail tók Nissan blað úr nýjustu „hönnunarbók“ Qashqai, þar sem jeppinn fékk sama V-Motion grill og mjóslegin aðalljós og smærri systkini hans, ásamt stórum neðri framljósaeiningum.
Nýi X-Trail mun einnig hafa kantaðar línur í yfirbyggingu til að gefa honum meira kassalaga útlit en forveri hans sem er með mýkri línur. Silfurlitaðar áherslur og andstæður litur á þaki fullkomna útlitið.
Mikið af tækni að innan
Að innan mun X-Trail fá fullt af háþróaðri tækni, sem felur í sér fjöldann allan af ökumannsaðstoðarbúnaði, „Virtual Personal Assistant“ og glænýja uppsetningu upplýsinga- og afþreyingarkerfis, sem mun líklegast verða tekin úr nýjasta Qashqai.
Nissan segir einnig að nýi CMF-C grunnurinn muni hjálpa til við að bæta fágun og kraftmikla svörun jeppans í akstri.
Samkvæmt upplýsingum frá japanska vörumerkinu mun nýjasta útgáfan af ProPilot hugbúnaðinum vera í X-Trail, þó að hún verði ekki alveg eins öfgakennd og fullkomlega sjálfstæð tækni Nissan sem sýnd var nýlega.
Einnig sjö sæta útgáfa
Annar ávinningur af nýja grunninum er að X-Trail verður einnig fáanlegur með þriðju sætaröð, sem býður upp á sjö sæta getu fyrir stærri fjölskyldur. „Zero Gravity“ sæti Nissan munu vera fram í.
Það mun líða nokkur tími þar til næsta kynslóð X-Trail fer í sölu í Bretlandi, samkvæmt þvi sem vefur Auto Express segir, og þá hugsanlega einnig í öðrum löndum Evrópu, þannig að Nissan hefur ekki enn staðfest grunnverð bílsins.
Hins vegar, miðað við nýja grunninn og aukið tæknistig sem í boði er, gerir Auto Express ráð fyrir að nýi jeppinn verði talsvert dýrari en fráfarandi gerð.
Til samanburðar má nefna að verð fyrir gamla bílinn byrjaði í 26.835 pundum í Bretlandi eða sem svarar til ISK 4.385.600.
Einnig hefur markaður X-Trail breyst síðan þriðja kynslóð bílsins kom á markað á sínum tíma árið 2013. Verð fyrir Skoda Kodiaq (sem er lykilkeppinautur X-Trail) byrjar í 33.100 pundum, en ódýrasti Kia Sorento kostar 49.495 pund.
Þannig að gera má ráð fyrir að Nissan muni miða við upphafsverð upp á um 35.000 pund á Bretlandsmarkaði (um 4,9 milljónir ISK) til að halda í við samkeppnina.
Nissan mun ljúka við endurskoðun á sportjeppalínu sinni með fjórðu kynslóð X-Trail. Ferlið hófst seint á árinu 2019 með annarri kynslóð Juke.
Því var svo fylgt eftir með því að hleypa af stokkunum hrein-rafmagnsbílnum Ariya og blendingsútgáfu á Qashqai, sem báðir komu snemma á síðasta ári.
(frétt á vef Auto Express – myndir Nissan)
Umræður um þessa grein