Nýr 2022 Range Rover Sport verður sýndur 10. maí
Þriðja kynslóð Range Rover Sport verður á endanum með rafknúnu afbrigði
Samkvæmt fréttum á vef Auto Express og Autocar hefur Land Rover staðfest að nýr Range Rover Sport verði sýndur 10. maí og bindur þar með enda á næstum níu ára valdatíma annarrar kynslóðar útgáfunnar.
Jafnframt sýnir Auto Express sína útgáfu á því hvernig nýi bíllinn muni líta út, en formlega staðfestingu munum við fá þegar bíllinn birtist þann 10. maí næstkomandi.
Í framhaldi af Range Rover kynningu á fimmtu kynslóðinni á síðasta ári, verður mun minni, en vinsælli Sport gerðin sýnd í þriðju kynslóð.
Færsla á samfélagsmiðlum frá Land Rover, sýnir ekki neitt nýtt um sportlega jeppann, en hún staðfestir birtingu bílsins í maí.
Líklegt er að Sport muni bera mikið af sömu hönnun og Range Rover systkini hans.
Það kemur ekki á óvart að Land Rover fari fram með öruggum hætti, þar sem minni bíllinn selst betur en bílinn í fullri stærð næstum 2:1.
Nýjustu njósnamyndirnar benda til þess að hann muni líta út eins og aðalmyndin hér að ofan frá Auto Express, með efra grilli að framan og LED framljósum á Sport, mjórri en á Range Rover og líkari Velar.
Neðra grillið er hins vegar kantaðra og meira áberandi en á Range Rover.
Afturljósin á nýja Range Rover voru mikil breyting frá fyrri gerðinni, þau voru felld inn í svartan grunn sem verður ógagnsær þegar ljósin eru ekki kveikt. Þó að það sé óljóst af þessum njósnamyndum gætum við séð það sama á nýja Range Rover Sport.
Rétthyrndu tvöföldu púströrin eru líka áberandi og tákna aukna áherslu á sportlega eiginleika þessa bíls miðað við Range Rover.
Á hliðinni eru innbyggð hurðarhandföng eins og á öðrum Range Rover gerðum og loftop í frambrettunum. Lengd hjólhafsins virðist svipað og gamla bílsins, tæpir þrír metrar á lengd. Hins vegar eru fram- og aftur yfirhang bílsins verulega styttri.
Uppfærslur Land Rover á innréttingunni verða umfangsmiklar.
Njósnamyndir sem lesandinn Peter Siu sendi til Auto Express gefa góða mynd af farþegarými og upplýsinga- og afþreyingarskjá nýja Range Rover Sport. Bíllinn mun vera með Pivi Pro kerfi JLR, með 11,4 tommu snertiskjá.
Nýr 2022 Range Rover Sport: vélar og drifrásir
Kaupendur munu enn hafa val um brunavélar í næsta Range Rover Sport, en stóru fréttirnar eru þær að jeppinn verður einnig fáanlegur með hreinni rafknúinni aflrás.
Jaguar Land Rover hefur áður staðfest að fyrirtækið muni vera í samstarfi við BMW um rafdrifnar útgáfur fyrir næstu kynslóð bíla sinna.
Nú þegar hefur verið áætlað að rafknúinn Range Rover komi á markað í Bretlandi árið 2024 – og við gerum ráð fyrir að hreinn rafknúinn Range Rover Sport muni fylgja fast á eftir og nota sömu rafbílatækni og komandi BMW i5 og i7 bíla.
Það er þó enn von á bensínhausum, þar sem Land Rover mun halda áfram að framleiða Range Rover Sport SVR. Það sem meira er, Auto Express gerir ráð fyrir að þessi gerð muni vera með afköst eins og áður, með sömu tveggja forþjöppu 4,4 lítra V8 vélinni og er í BMW X5 M Competition.
Sama vél er fáanleg í Range Rover í fullri stærð og skilar 523 hestöflum. Samt sem áður, í ljósi þess að Sport SVR er enn sportlegri, má gera ráð fyrir að hann fái öll 616 hestöflin sem vélin er fær um að framleiða, sem jafnar afköst bílsins á pari við hraðskreiðustu útgáfuna af X5.
(frétt og myndir á vef Auto Express)
Umræður um þessa grein