- Mitsubishi mun koma af krafti aftur inn á Evrópumarkað með sportjeppa sem verður byggður á Renault Captur
- Hinn nýi ASX verður önnur tveggja gerða Renault sem miða að því að styrkja nærveru Mitsubishi í Evrópu.
Mitsubishi sagði árið 2020 að það myndi yfirgefa Evrópumarkað eftir að hafa átt í erfiðleikum með að skila hagnaði á svæðinu, en núna er ljóst að þar verður breyting á og er ætlunin að sækja aftur inn á þennan markað.
Hluti af þessari „endursókn“ Mitsubishi á Evrópumarkað er að fyrirtækið mun skipta ASX út fyrir arftaka sem byggður er á Renault Captur.
Nýi ASX verður önnur tveggja gerða sem byggðar eru á Renault arftakanum sem mun hjálpa til við að styrkja veru japanska bílaframleiðandans í Evrópu, sagði Mitsubishi.
Smíðaður í verksmiðju Renault á Spáni
ASX verður smíðaður af Renault í verksmiðjunni í Valladolid á Spáni og verður boðinn með tvinn- og tengitvinndrifi þegar hann kemur í sölu vorið 2023.
Önnur gerð Renault mun koma í kjölfarið í lok árs 2023. Takao Kato, forstjóri Mitsubishi, flutti á kynningu á fimmtudag boð frá æðstu stjórnendum Renault, Nissan og Mitsubishi um áætlun bandalagsins þess efnis að fjárfesta fyrir 23 milljarða evra (26 milljarða dollara) í rafknúnum ökutækjum næstu fimm árin.
Kato gaf ekki upp frekari upplýsingar um seinni bílinn.
Kynningarmynd af arftaka ASX gaf til kynna að útgáfa Mitsubishi af Renault Captur yrði verulega endurhönnuð, að minnsta kosti að framan.
Forstjóri Mitsubishi Europe, Frank Krol, sagði að nýr ASX muni byggja á arfleifð bílaframleiðandans sem var sá fyrsti til að bjóða upp á tengitvinnjeppa með Outlander PHEV á sínum tíma.
„Jeppasniðið heldur áfram að vaxa í vinsældum í Evrópu og þar sem „Plug-in Hybrids“ eru að verða almennir, erum við að byggja á þeirri arfleifð með næstu kynslóð ASX,“ sagði Krol í yfirlýsingu.
Mitsubishi sagði árið 2020 að það myndi yfirgefa Evrópumarkað eftir að hafa átt í erfiðleikum með að skila hagnaði á svæðinu, en bílaframleiðandinn sneri ákvörðuninni við árið 2021 eftir að Renault samþykkti að smíða tvær nýjar Mitsubishi-gerðir fyrir Evrópu í verksmiðjum sínum.
Mitsubishi hefur hins vegar fækkað mörkuðum sem það er á. Til dæmis verða þessar tvær nýju gerðir ekki seldar í Bretlandi, sagði fyrirtækið á síðasta ári.
Á þeim mörkuðum sem eftir eru í Evrópu verða þessar tvær nýju gerðir seldar ásamt núverandi Eclipse Cross tengitvinnjeppa.
Þegar Mitsubishi dró saman seglin í Evrópu hvarf einn vinsælasti bíllinn þeirra, Outlander PHEV, af Evrópumarkaði en Eclipse Cross tengitvinnbíllinn kom í staðinn (á myndinni hér að ofan)
Sala Mitsubishi bifreiða dróst saman um 32 prósent í 69.201 bíl á síðasta ári í Evrópu, samkvæmt tölum frá JATO Dynamics.
Mirage/Space Star smábíllinn er áfram söluhæsti bíll vörumerkisins og er tæplega helmingur sölu bílaframleiðandans.
Íhuga rafbíl fyrir Evrópu
Mitsubishi íhugar einnig hvort bjóða eigi rafbíl í Evrópu. „Til þess að lifa af í Evrópu þurfum við örugglega rafbílagrunn, og því kemur rafbíll vel til greina,“ sagði Kato í kynningunni.
Í sömu kynningu bandalagsins sagði Nissan að það myndi setja á markað fullrafmagnaðan arftaka fyrir Micra smábílinn, sem byggist á nýjum CMF-BEV grunni sem deilt er með væntanlegum Renault 5. Fyrsti bíllinn sem byggður er á nýja grunninum mun koma í sölu árið 2024. Bandalagið sagði ekki hvort þetta yrði Micra eða Renault gerð.
(Automotive News Europe)
Umræður um þessa grein