Ný kynslóð Honda CR-V

Tegund: Honda CR-V

Árgerð: 2024

Orkugjafi: Bensín/rafmagn

Góð sæti, þægilegur akstur, hönnun
Höfuðpláss í aftursæti, verð
212
DEILINGAR
1.9k
SMELLIR

Í síbreytilegu landslagi nýsköpunar hefur Honda stöðugt verið framarlega varðandi hönnun og frammistöðu. Honda CR-V árgerð 2024 er engin undantekning og státar af blöndu af háþróaðri tækni, stílhreinni fagurfræði og skuldbindingu um sjálfbærni.

Sérlega falleg hönnun á þessum nýja CR-V.

Við tókum stuttan reynsluakstur á splunkunýjum Honda CR-V e:PHEV árgerð 2024 en sá var framhjóladrifinn af Advance Tech gerð.

Flott hönnun

Það fyrsta sem vakti athygli er slétt og nútímaleg ytri hönnun 2024 CR-V. Djarfar línur, vel mótaðar og einkennis grill Honda skapa tilfinningu fyrir fágun og sportfílingi. LED-aðal- og afturljós gera bílinn svipmikinn og straumlínuleg hönnun gera að verkum að CR-V nær enn betri árangri með eyðslutölur.

Honda svipurinn leynir sér ekki hér, hann sést á grillinu.

Þegar þú stígur inn er tekið á móti þér með rúmgóðu farþegarými. Gæði efna og athygli á smáatriðum eru strax augljós.

Þægileg sætin veita nægan stuðning fyrir bæði stuttar og lengri ferðir og leðuráklæðið skapar lúxus upplifun. Snjallt skipulag stjórntækja og notendavænt upplýsinga- og afþreyingarkerfi stuðla að hnökralausri akstursupplifun.

Sætin halda ágætlega við og eru klædd vönduðum efnum. Sama má segja um efnisval í mælaborði og miðjustokki.

Fullur af tækni

Honda CR-V er vel búinn háþróaðra tækni. Upplýsinga- og afþreyingarkerfið er með móttækilegum snertiskjá, Apple CarPlay og Android Auto samþættingu sem tryggir góða tengingu við snjallsímann þinn.

Sexhyrnda skreytingin fyrir framan lofttúðurnar gefa flottan svip.

Hins vegar finnst okkur skjákerfi bílsins ekki eins „up-to-date“ eins og á mörgum nýrri evrópskum bílum í dag.  

Leiðsögukerfið og raddskipanirnar auðvelda þér að halda sambandi og einbeita þér að veginum.

Háþróaðir öryggiseiginleikar, þ.m.t. akreinavari og sjálfvirk neyðarhemlun, auka öryggi ökumanna. Bíllinn er ennfremur vel búinn aðstoðarkerfum eins og skynvæddum hraðastilli, akreinavara og akreinastýringu ásamt umferðamerkjalesara.

Það sem kemur aðeins á óvart er að framdrifs bíllinn getur dregið allt að 1.500 kg. á meðan fjórhjóladrifsgerðin er gefin upp fyrir rétt um 750 kg. Einnig er hæð undir lægsta punkt ekki sú sama eftir því hvort bíllin er fram- eða fjórhjóladrifinn.

Fjórhjóladrifs bíllinn er með 20 sm. undir lægsta punkt en framdrifsbíllinn 4 sm. minna eða 16 sm. Aldrifsbíllinn er líka aðeins léttari en framdrifsbíllinn.

Við mælum með myndbandi sem fylgir þessar umfjöllun neðst í greininni.

Fínt fótapláss og tvö USB-C tengi aftur í.

PHEV eða HEV

Það eru tvær aflrásir í boði. e:PHEV (tengitvinnútgáfa) er framhjóladrifin og var sá bíll sem við reynsluókum og e:HEV.  Kerfið virkar þannig að rafmótorar sjá um að drífa bílinn áfram en bensínvélin framleiðir í raun bara orku fyrir rafmótorana.

Hins vegar hjálpar hún rafmótorunum þegar þeir ráða ekki við það afl sem ökumaður óskar eftir. Úr verður mjúkur og hnökralaus akstur og afar lítið vélarhljóð nema verulega sé þjösnast á inngjöfinni.

Skottið er rúmgott og hægt að fella niður sæti fyrir hámarkspláss.

Mjúkur og hljóðlátur

Við ókum bílnum einn þessara snjóþungu daga sem við höfum búið við undanfarið. Hann ræður afar vel við aðstæður en spólvörnin lét vita af sér í einu hringtorgi á Vesturlandsveginum og vildi hjálpa okkur við aksturinn.

Þá þurfti að stýra bílnum aðeins til að leiðrétta skriðið sem var að myndast þegar spólvörnin kom inn. En þetta er eitthvað sem ökumaður lærir á með notkun bílsins.

Hér eru enn áþreifanlegir takkar sem er afar þægilegur kostur.

Vistvænn akstur

Skuldbinding Honda við umhverfislega sjálfbærni er augljós í nýjum CR-V. Blendings útfærslur sýnir klárlega markmið Honda við að draga úr kolefnislosun og stuðla að vistvænum akstri.

Eldsneytisnýting blendingsbíla ásamt lítilli losun gerir CR-V að aðlaðandi valkosti fyrir umhverfismeðvitaða ökumenn.

Drifinn áfram af rafmagni

Honda CR-V kemur með tveggja lítra bensínvél sem sér rafmótorum fyrir afli. Samanlagt afl kerfisins er um 190 hestöfl. Bíllinn togar ágætlega og er þokkalega snarpur. Það sem kemur þægilega á óvart er hversu hljóðlátur hann er í akstri.

Öll meðhöndlun bílsins er mjúk en það er enginn sportfílingur í akstrinum – enda ekki sportbíll. Sætin eru afar þægileg og halda vel við mjóbak og læri.

Gírstillingar eru svolítið ruglingslegar en venjast örugglega fljótt. Hægt er að skipta á milli ýmissa akstursstillinga.

Gott fótapláss er aftur í bílnum en höfuðrými er þröngt ef bíllinn er með sóllúgu (eins og reynsluakstursbíllinn). Hins vegar er hægt að halla aftursætum sem gerir þau afar þægileg á lengri leiðum og þá rýmkast einnig um höfuðplássið.

Höfuðpláss aftur í er með minna móti fyrir hávaxinn einstakling eins og þann á myndinni. Hins vegar er auðvelt að kippa því í lag með því að halla sætinu aðeins.

Honda hefur hugsað fyrir tengiþörf nútíma ökumannsins enda bæði USB-A og USB-C tengi ásamt 12 volta tengi og þráðlausri hleðslu fyrir snjallsímann.

Flottar, svartar 18 tommu felgur.

Góður kostur

Niðurstaða okkar er að Honda klikkar ekki frekar en fyrri daginn. Hér er kominn þrælflottur bíll sem án efa er mjög samkeppnishæf viðbót við annars þéttsetinn sportjepplinga markaðinn.

Um er að ræða vandaðan bíl, þægilegan í akstri sem hentar fjölbreyttum hópi fólks.

Þessi bíll hentar ekki síður í borgarsnattið, skrepp og skutl fyrir yngra fólk með slatta af börnum en sumarbústaðaferðir og golfiðkun eldri borgaranna.

Það var verulegur snjór á bílnum þegar við sóttum hann í reynsluaksturinn. Hann var fljótur að þiðna þegar við hituðum spegla og framrúðu.

Reyndar er nýr Honda CR-V aðeins dýrari en sambærilegir samkeppnisbílar en þú færð líka Honda gæði í kaupbæti.

Myndband

Helstu tölur:

Verð frá : 9.790.000 kr. (Reynsluakstursbíll e:PHEV (Plug-in Hybrid)).

Hestöfl: 190

Akstur á rafhlöðu: allt að 82 km.

Vél: 1.993 rms.

Eyðsla bl.ak.: 7.5 ltr/100km.

Eigin þyngd: 1.916 kg.

Dráttargeta m.hemlum: 1.500 kg. (750 kg. á 4WD gerð).

L/B/H: 4706/1866/1673 mm.

Reynsluakstur: Gunnlaugur Steinar Halldórsson og Pétur R. Pétursson

Svipaðar greinar

Svipaðar greinar