Ný græn þruma frá Audi
Nú hefur Audi hægt og rólega verið að leka upplýsingum um ein geggjaðasta „sport-sedan“ sem fram hefur komið. Nú hefur tryllitækið hins vegar verið opinberlega kynnt, fullmálað og tilbúið í slaginn. Og það hefur ekkert verið slegið af í RS lúkkinu að innan sem utan og frekar verið lagt í en dregið úr.


Vísar í Quattro Coupe
Grillið hefur stækkað og framhlutinn ber sterkan keim af Audi Sport Quattro Coupe.
Svört glansáferð skipar stóran sess í grillinu og skapar þannig sportlega stemningu.
Framljósin eru smart. Bíllinn er búinn Matrix LED ljósum og birta þau RS3 í sífellu þegar gengið er frá bílnum eða komið að houm. Keppnisfáni kappakstursbrautarinnar er heldur ekki langt undan því LED ljós varpar köflóttu mynstri hans á götuna frá hliðarspeglunum. Í akstri má sjá flaggið í horni framljósanna. Geggjað flottur og ómissandi fídus.


Stuðararnir hafa fengið uppfærslu, þeir eru breiðari og að framan eru stór loftop beggja megin í stuðaranum og frambrettum. Spoilerkit gefur bílnum sportlegra útlit og lætur líta út fyrir að hann sitji lægra á götunni.
Að aftan skapa ljósin sterkan svip og það er eins og stuðarinn að aftan sé lítið grill. Fínleg vindskeið setur svo punktinn yfir i-ið.


Kappakstursbúnaður
Það er koltrefja (e. carbon fiber) lúkk á mælaborðinu. Vel formuð sportsætin svíkja örugglega engan sem ætlar að gefa í á þessu tryllitæki og stýrishjólið er slétt að neðanverðu.
Að sjálfsögðu eru álklæddir sportpedalar eins og í svo mörgum bílum í dag. Hægt er að velja um tvö stýrishjól, bæði með grænni strípu efst á stýrishjóli sem nota má sem viðmið á beygjuradíus. Bíllinn er búinn 12.3 tommu mælaborðsskjá og 10.1 tommu margmiðlunarskjá.
Upplýsingaskjárinn gefur allskyns „kappaksturs“ upplýsingar eins og gírskiptiljós, þyngdarhröðunarmæli (e. g-force), hröðunartíma, brautartíma og jafnvel kvartmílutíma.
Hægt er að velja um Nappa leðuráklæði með grænum eða rauðum saumi.


3,8 sek. í hundrað
Það hefur talsvert verið rætt um frammistöðuna. Förum yfir helstu atriðin. RS-3 verður með 2,5 lítra, 5 strokka, línuvél með túrbínu sem gefur 401 hestafl og togar 229 Nm. Það þýðir að kagginn er að ná 100 km/klst. á 3,8 sek.
Aflið fer í gegnum sjálfskiptingu með tvöfaldri kúplingu. RS3 er núna búinn rafstýrðu mismunadrifi (torque vectoring) að aftan sem getur stiglaust deilt aflinu sem fer út í hjólin.
Hann er einnig lægri, með sprotlegri fjöðrun og stærri bremsum en aðrar útgáfur A3 bílsins.


Áætlað er að hægt verði að panta bílinn í Evrópu í ágúst með afhendingu síðar í haust. RS-3 verður í boði sem sedan og hatchback í Evrópu en aðeins sem sedan í Bandaríkjunum.

Byggt á grein Autoblog – myndir Audi.
Umræður um þessa grein