Nissan X Trail með bensíndrifinn rafmótor

Nissan X Trail

Árgerð: 2023

Orkugjafi: Bensín/Rafmagn

Aksturseiginleikar, útlit
Stór miðjustokkur
196
DEILINGAR
1.8k
SMELLIR

Nissan X Trail sást fyst á bílasýningunni í París um aldamótin. X Trail náði strax athygli á markaðnum og fór fljótt að seljast nokkuð vel. Þó hefur salan dregist saman á síðustu árum enda nær örugglega háð orkugjöfum og orkuskiptum.

Þessi nýi Nissan X Trail er í raun rafmagnsbíll. Rafmagnsframleiðslan fer reyndar fram í bílnum sjálfum en hann er búinn þriggja strokka, 1,5 lítra bensínmótor sem hefur það eina hlutverk að framleiða orku. Orkunni er svo streymt inn á rafhlöðu sem gefur síðan rafmótorum afl til að snúa hjólum bílsins.

Tækni þessu kalla Nissan menn e-Power og er ekki ólík þeirri sem Honda notar í sínum blendingsbílum.

Niðurstaðan er silkimjúkur akstur, átakalaus, hljóðlátur og getur verið nokkuð sparneytinn. Að sjálfsögðu grænni akstur.

Vandaður frágangur

Eitt að því sem þú gengur að vísu hjá Nissan er vandaður frágangur. Nissan X Trail er þéttur og sterklega byggður bíll. Hann lítur mjög þokkalega út og rúmar vel bæði farþega og farangur.

Reynsluakstursbíllinn var af Tekna gerð, þeirri fínustu. Við getum vottað það hún uppfyllir flestar ef ekki allar þær óskir sem við sækjumst eftir að uppfylla á svona sportjeppa. Við erum að tala um hluti eins og rafdrifin sæti með minni ökumannsmegin, aftursæti á sleðum sem er afar þægilegur fídus. Þriggja svæða miðstöð sem er mjög góður kostur í svona stórum bíl. Hiti í stýri, þráðlaus hleðsla fyrir síma og toppgræjur frá Bose.

Glæsilegur Nissan X Trail árgerð 2023.

Græjurnar, sjónlínuskjár, skynvæddur hraðastillir, akreinavari og akreinaaðstoð ásamt fjöldanum öllum af árekstrarvörum vantar ekki í þennan Nissan heldur. Sportjeppinn er svo boðinn með sérstöku Nissan aðstoðarkerfum sem heita annarsvegar Pro Pilot með Navi link og Pro Pilot Park, e Power and e 4ORCE.

Við prófuðum bílinn á köldum vordegi fyrir skömmu þar sem öll skilyrði til aksturs voru hin þokkalegustu – en það var kalt. Eyðslan sem bíllinn sýndi var rúmir 8 ltr./100 km. en uppgefin eyðsla á þessum bíl er í kringum 6,8 ltr./100 km. Það verður að segjast ansi gott fyrir svona stóran og öflugan bíl.

Hér eru 205 sm. undir lægsta punkt. Reynsluakstursbíllinn var á 19 tommu felgum.

Og talandi um aflið. Hann er svosem ekkert að flýta sér í upptakinu en hröðunin er samt jöfn og þétt – og átakalaus. Bíllinn er silkimjúkur í akstri og fer afar vel með mann undir stýri. Yfirsýn er mjög góð og allt innan seilingar. Þó er kannski einn galli á gjöf Njarðar en það er miðjustokkurinn, hann er mikill og breiður eins og í svo mörgum bílum í dag.

Tekna bíllinn sem við prófuðum var í sjö sæta útfærslu og fjórhjóladrifinn en Nissan X Trail er fáanlegur í framdrifsútfærslu og fimm sæta líka. Framdrifsbíllinn er ekki með rafmótor á aftari hluta drifrásar og því aðeins meira pláss í farangursrýminu í þeirri gerð.

Mælaborðið er vel framsett og gott að lesa á allar upplýsingar. Miðjustokkur frekar stór.

Farangursgeymslan er ansi rúmgóð, um 580 lítrar og hægt er að leggja sætin niður á marga vegu til að auka geymsluplássið. Reyndar minnkar plássið niður í um 170 lítra rúmlega þegar aftasta sætaröðin er í notkun.

Orkuupplýsingar beint í æð

Mælaborðið er þannig úr garði gert að yfirlitsmynd af orkubúinu sýnir þér hvernig orkan flæðir um drifrás bílsins. Þannig getur ökumaður auðveldlega nýtt sér rauntímaupplýsingar til að ná sem hagkvæmustum akstri bílsins við mismunandi aðstæður.

Gardínur fyrir hliðarrúðum.

Eitt sem vert er að nefna er opnun hurða á Nissan X Trail. Þær opnast nánast í 90° og gerir það allan umgang um bílinn hinn ágætasta. Nissan X Trail er búinn veglegum öryggispakka eins og til dæmis útstigsvörn sem minnkar líkur á slysi við opnun hliðarhurða, skynjar umferð að aftan og síðast en ekki síst er um að ræða blindhornaviðvörun sem gefur manni upplýsingar um umferð við hlið bílsins. Nauðsynlegur búnaður að okkar mati.

Helstu samkeppnisbílar eru meðal annarra Skoda Kodiac, Toyota Highlander og hinn nýi Mazda CX60.

Fyrir breiðan hóp

Nissan X Trail er nýtískulegur sportjepplingur sem tekið er eftir á götu. Hann rúmar ótrúlega vel, bæði farþega og farangur og stækkunarmöguleikar farangursrýmis eru margskonar. Hann getur tekið allt að sex farþega og ökumann og nýtist því sem öflugur ferðabíll eða borgarbíll fyrir vísitölufjölskylduna sem stendur í skreppi og skutli með börn á mismunandi aldri.

Gott fótapláss og mjög lágur miðjustokkur eftir endilöngu.

Ekki síður er Nissan X Trail hentugur fyrir fólk sem vill rými, þægilegan akstur og lipurð. Hentar þannig í allskyns útivist, golf, skíði og fjallgöngur. Við mælum með að þið skoðið aukahlutaúrval fyrir Nissan X Trail hjá umboðinu.

Helstu upplýsingar:

Helstu tölur:

Verð frá : 8.3990.000 kr. (Verð á reynsluakstursbíl 10.990.000 kr.).

Hestöfl: 160-210 hö.

Vél: 1.500 rms., þrír strokkar.

Tog: 300-330 Nm.

Eyðsla bl.ak.: 6.4 ltr/100km.

Eigin þyngd: 1.992 kg.

Dráttargeta m.hemlum: 1.650 kg.

L/B/H 4680/2605/1725 mm.

Myndband:

Reynsluakstur: Gunnlaugur Steinar Halldórsson og Pétur R. Pétursson.

Klipping: Dagur Jóhannsson.

Svipaðar greinar

Svipaðar greinar