Netbifreiðasalan selur eldri útgáfu af Jeep Compass PHEV sem nýja, segir umboðsaðili Jeep á Íslandi
Undanfarið hefur borið á því að boðnir séu Jeep Compass S PHEV (tvinnbílar) sem ný umboðsökutæki framhjá umboði Jeep á Íslandi, Ísband, en umboðið vill vara hugsanlega viðskiptavini við því að um villandi viðskiptahætti sé að ræða af hálfu Netbifreiðasölunnar.
„Við höfum sent inn kvörtun til Neytendastofu og erum að bíða eftir svörum þar en við teljum hinsvegar að við verðum að vara fólk við þessum viðskiptaháttum Netbifreiðasölunnar“ segir Pétur Kristján Þorgrímsson, forstjóri Ísband.
„Netbifreiðasalan segist selja nýja umboðsbíla en staðreyndin er sú að bílarnir eru hvorki nýir né frá umboðinu því við erum með umboðið á Íslandi. Það eru blekkingar gagnvart neytendum að láta þetta líta þannig út að þessir Jeep Compass PHEV bílar séu nýir og umboðsbílar. Þeir eru ónotaðir vissulega, en nýir eru þeir ekki. Þeir eru eldri útgáfa.
Við fljóta skoðun á þessum bílum sést að þetta eru eldri bílar sem þeir eru að bjóða því nýja módelinu hefur verið breytt mikið bæði að innan og utan auk þess sem það er nýr öryggisbúnaður í nýja bílnum sem við flytjum inn.“
Verulegur munur á útliti, búnaði, ábyrgð og aldri
Umboðsbílar Ísband af gerðinni Jeep Compass PHEV eru með 5 ára ábyrgð. Neytendur þurfa að huga að því hvort ábyrgð annarra innflytjendanna sé keypt af tryggingafélagi en ef svo er þyrfti eigandi bíls frá þeim að sækja ábyrgð til tryggingarfélags þegar tvö ár eru liðin frá skráningardegi, það væri þá að teknu tilliti til tveggja ára verksmiðjuábyrgðar Jeep fyrir Evrópu sem gildir fyrst.
Alvarlegast er þó að reynt sé að selja fólki eldri útgáfu bílsins sem nýja.
Nýr Jeep Compass PHEV frá Ísband er með nýtt útlit að framan og nýjar álfelgur, nýtt útlit á mælaborði, alveg nýrri innréttingu, 360° myndavél, LED aðalljós, handfrjálsa opnun á afturhlera, 10,1“ skjá fyrir afþreyingarkerfi í staðinn fyrir 8,4“ skjá, 10,25“ mælaborðsskjá með nýju stýrikerfi og ýmsum viðbótarstillingum í stað 7“ skjás, þráðlaust Apple og Android Carplay, þráðlausa hleðslu fyrir farsíma, fjarlæðgarstýrðan hraðastilli með „stop and go“ í öllum gerðum, aktívum akreinarvara sem heldur bílnum á miðri akrein, vegfarendaskynjara með sjálfvirkri hemlun ef einhver gengur eða hjólar í veg fyrir bílinn, skynjara sem nemur hvort ökumaður er þreyttur, umferðaskiltalesara sem birtir hámarkshraða í mælaborðinu og loks kælingu í sætum.
„Það er ljóst að neytendur þurfa að hugleiða vel hvort þeir séu hlunnfarnir hvað búnað, ábyrgð og útlit varðar þegar þeim er sagt að um sé að ræða nýjan bíl,“ segir Pétur Kristján, „þegar augljóst er af myndum í auglýsingum annarra innflytjenda að svo er ekki.
Jeep Compass S PHEV, nýr úr umboðinu hjá okkur með öllum þessum umframbúnaði, kostar kr. 7.599.000 með 5 ára ábyrgð. Það ætti að muna meira í verði á nýjum bíl og eldri útgáfu með allt öðrum búnaði, útliti og ábyrgð.“
Umræður um þessa grein