Nafntogaðir en óakandi og óferjandi
Oft hef ég hugleitt að sá rithöfundur sem ég dái mest tók aldrei bílpróf. Það er meistari Þórbergur Þórðarsson (sem ég hélt stóran hluta bernskunnar að hefði verið afi minn, en það er nú önnur saga sem hefur fátt með bíla að gera).
Eftir sem áður man ég hvað það kom sérkennilega við mig að þessi stórkostlegi orðasmiður, fræðimaður og rithöfundur, hefði aldrei ekið bifreið og aldrei sýnt því nokkurn áhuga að taka bílpróf.
Kona hans, Margrét Jónsdóttir hafði heldur ekki ökuréttindi og „tók hún bíl“ þ.e. greiddi fyrir að láta aka sér á milli staða en Þórbergur gekk helst allra sinna ferða.
Nýtti hann sér almenningssamgöngur þegar ferðir utan göngufæris voru á dagskrá.

Að eiga draumabíla en aka þeim ekki
Þórbergur var aldrei ríkur, þ.e. veraldlegt ríkidæmi kaus hann ekki og einhvern veginn efast maður um að hann hefði sólundað fé í ökutæki, hefði hann átt þess kost. Hann heimsótti kommúnistalöndin Kína og Sovétríkin og ekki þurfti hann ökuréttindi til þess.
Samtímamaður Þórbergs var annar snjall rithöfundur, sjálft Nóbelsskáldið, Halldór Kiljan Laxness.
Sá hafði verulega gaman af bílum og keypti sér splunkunýjan Jaguar árið 1968, eins og fjallað hefur verið um í annarri grein hér á Bílabloggi.
Í sumar [2020] var með eindæmum fögur skúta á ferð um Vestfirði og Jökulfirði. Þar um borð var eigandinn sjálfur, rithöfundurinn J.K. Rowling, sem er löngu orðin heimsfræg fyrir af hafa skapað galdrastrákinn Harry Potter.

Hún á víst fúlgur fjár og er á þeim stað í tilverunni að geta gert um það bil allt sem henni dettur í hug og keypt það sem hugurinn girnist.
Verst er þó (séð frá sjónarhóli bílablaðamanns) að hún er sögð með eindæmum afleitur bílstjóri. Hún er jú með ökuréttindi, en það er ekki ávísun á ökuleikni.
Segja kunnugir að hún eigi sérlega fínar drossíur en til að auka líkurnar á að hún lifi ökuferðirnar af er hún með bílstjóra.
Kennir hún lélegri rýmisgreind og sambandsleysi við raunveruleikann um og kýs (þökkum fyrir það) að vera frekar farþegi en bílstjóri þegar hún ferðast um í Rolls Royce eða Range Rover eðalvögnum sínum.
J.LO hefur ekki ekið í 25 ár
Það gengur ekki að fjalla bara um rithöfunda og því þarf undirrituð að treysta á veraldarvefinn til að hafa uppi á öðrum nafntoguðum sem ekki aka bílum. Samkvæmt alnetinu fékk leik- og söngkonan Jennifer Lopez, gasalega flottan Porsche 911 Carrera GTS Cabriolet í afmælisgjöf frá unnusta sínum. Það eru tæp tvö ár síðan.

Af ýmsum ástæðum hefur hún ekki viljað aka bíl og þegar hún ók hring á afmæliskagganum játaði hún að 25 ár væru síðan hún ók bíl síðast!
Fleiri söngfuglar
Mariah Carey er víst ein þeirra sem á helling af glæsikerrum en ekur þeim ekki sjálf. Sagt er að hún og eiginmaður hennar „gefi hvort öðru gjarnan bíla“ eins og maður eflaust gerir í auðheimum. Nema hvað að Carey ekur bílunum ekki sjálf, eins og áður kom fram.

Bílstjórinn hennar fær því að aka bílum á borð við Rolls Royce Phantom Coupe, Maserati Quattroporte, Maybach 62 Luxury Sedan, BLEIKUM Porsche Cayenne og svartmöttum Range Rover. Veit ekki alveg með þann bleika en hitt hljómar þokkalega.
Sorglegt en satt
Þetta átti að vera skemmtileg umfjöllun en hér er undantekningin. Stúlka nokkur sem mjög gjarnan vildi aka eigin bílum, má það ekki því hún gerði allnokkur axarsköft á árum áður og er fyrir vikið í ævilöngu „akstursbanni“.

Þetta er poppstirnið Britney Spears sem hefur eflaust átt erfitt með að fóta sig í lífinu vegna fíknar og annarra leiðinda. Oft er bara best að þeir sem illa kunna að fóta sig séu ekkert að aka bifreiðum í ofanálag.
Í rúman áratug hefur stelpan því ferðast um í bílunum sínum (Jeep, Range Rover, Mini, Benz) með einkabílstjóra sem sér um aksturinn.
Uppfært 22. janúar 2022: Nú er hún víst komin með réttindi á ný og samkvæmt fréttum er stutt síðan.
Að aka með papparazzi á hælunum
Nú skal viðurkennt að undirrituð hefur ákaflega litla, ef nokkra, þekkingu á fræga fólkinu. Hins vegar er bæði áhuginn og örlítil þekking til staðar þegar kemur að ökutækjum og þannig bjargast umfjöllunin vonandi fyrir horn!
Ætli það hafi ekki verið í einhverju átaki Umferðarráðs þar sem sagt var og skrifað: „Á eftir bolta kemur barn“.
Það má kannski heimfæra þetta upp á Ameríku fræga fólksins og segja: „Á eftir stórstjörnu kemur paparazzi“ [paparazzi er ljósmyndari, oftast lausaljósmyndari, sem eltir frægt fólk og reynir að ná af því myndum].

Í það minnsta hafa nokkrar stjörnur, eins og t.d. Christina Aguilera, ákveðið að láta áhættuakstur, þar sem þær eru á flótta undan papparözzum, alfarið eiga sig. Sem sagt; láta akstur eiga sig yfirhöfuð. Bílstjórar stjarnanna sjá um að koma þeim á milli staða.
Eru þetta bara konur?
Fyrir utan Þórberg Þórðarson hér í upphafi hafa engir karlar verið nefndir til sögunnar. Kannski láta þeir ekki hafa svona lagað eftir sér – hver veit.
Jæja, hvað um það! Ég rambaði á nokkrar karlstjörnur (karlstirni) í leit minni á hinum óendanlega veraldarvef.
Kom mér hjá svartholum og þurfti að lokum að sætta mig við þá staðreynd að ég þekki varla nokkurn kjaft af þeim gaukum sem leitin skilaði!
Noel Gallagher, hinn tónlistarbróðirinn með svaðalegustu samvöxnu augnabrúnir sem um getur, hefur talað fjálglega um að eiga fimm kagga. Hins vegar hefur hann ekkert minnst á að aka þeim sjálfur og virðist það ekki vera á dagskrá.
Sumir eru bara ánægðir þarna aftur í og kæra sig kollótta um bílstjórahlutverkið. Kannski þyrfti hann að fórna hinum miklu brúnum til sjá veginn en það er nú helst til stór fórn!

Auðvitað er þetta ofar/neðar mínum skilningi; að eiga bíla en aka þeim ekki. Rétt eins og að eiga hin fullkomnu gleraugu en biðja nágrannann að nota þau. Tjah, eða að kaupa kruðeríshnallþóru aldarinnar og biðja einhvern annan að borða hana fyrir sig…
Maður hvorki getur né þarf að skilja alla hluti!
Hafðir þú gaman af þessari grein? Þá gætir þú haft áhuga á:
Þegar Ölfusárbrúin brast
Ekið á gargönum eftir ropvatni – Laxness og bílar
1965: Svíinn, glymskrattinn og Landrover-inn
Sannleikurinn um Bjössa á mjólkurbílnum
„Gullfaxi með nýstárlegan farm“
Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein