Myndarlegur og nytsamur kubbur

TEGUND: Peugeot Partner

Árgerð: 2019

Orkugjafi:

Verð, aksturseiginleikar, rými, hurðar
Útsýni á blindhornasvæði
137
DEILINGAR
1.2k
SMELLIR

Myndarlegur og nytsamur kubbur

„Óskar Bílakall, viltu ekki prufa sendiferðabíl?“
„Eh, jú!“

Þannig gerðist það að ég sat allt í einu undir stýrinu á Peugeot Partner og hafði ekki hugmynd um hvað væri í raun og veru góður sendiferðabíll. Allt í einu fattaði ég þó að þetta er ekki bara sendiferðabíll, þetta er vinnutæki, og þar sem ég vann einu sinni sem atvinnubílstjóri var einfalt mál fyrir mig að tjá mig um það.

Tvær lengdir

Peugeot Partner er smíðaður af PSA Grúppunni og er hann seldur undir þrem formerkjum. Þær eru Opel Combo, CITROËN Berlingo og síðan Peugeot Partner. Þeir allir þrír unnu saman verðlaunin Van Of The Year 2019 af hópi 25 bílablaðamanna í Evrópu. Kemur það mér ekkert á óvart enda er hér um að ræða frábæran bíl.

Þarna gefur að líta 1,5l dísil vélina sem fæst í 100 og 130 hestafla útgáfum.

Hægt er að fá Peugeot Partner í mismunandi útgáfum allt eftir þörfum hvers og eins. Tvær lengdir eru í boði, tvær dísilvélar og annað hvort sjálfskiptingu eða beinskiptingu.

Vinnuaðstaða ökumannins í Peugeot Partner er stílhrein og góð með nóg af geymsluhólfum.

Aukabúnaðarlistinn inniheldur einnig ofhleðsluvara, bakkmyndavél, blindhorna sjónkerfi í baksýnisspegilinn og topplúgu. Það er því ekkert mál að útbúa bílinn eins og þurfa þykir í vinnunni..

Meðal staðalbúnaðar í Peugeot Partner er LED ljós fyrir hleðslurýmið og 12v rafmagn.

Hurðir fyrir fólk á hlaupum

Vinnubílar deila því með stjórnkerfi ríkisins að þar er þörf á góðu aðgegni. Þegar ég vann hjá ónefndri brúnni amerískri hraðsendingaþjónustu í heilar tvær vikur, þá fékk ég til þess ónefndan sendiferðabíl sem hefði betur þjónað því hlutverki að vera hreiður fugla, sem ekki er  hægt að segja um Peugeot Partner. Á honum má finna hvorki meira né minna en sex hurðir sem allar opnast uppá gátt!

Framhurðirnar opnast vel og halla fram á við þegar þær eru opnaðar til að koma í veg fyrir að þú  rekir þig í þær við það að ganga um þennan sæta sendiferðabíl.

Aðgengið inni í og umgengnin um Peugeot Partner er án efa stærsti styrleiki bílsins. Framhurðirnar eru stórar og breiðar sem gera þér auðvelt að hendast inn og út úr bílnum. Að aftan er hurðin síðan tvískipt og opnast hún til hliðanna sem gerir það einstaklega þægilegt að hlaða bílinn.

Lokað, hálfopið og að fullu opið er ekkert mál aftan á Peugeot Partner.

Tvær hurðir er að finna á hliðum Peugeot Partner. Þær eru rennihurðir og jafnvel þó þú værir í þröngu bílastæði væri ekkert mál að opna þær samt. Þær smellast líka alveg pikkfastar þegar búið er að opna þær og engin hætta á því að þær renni og klemmi þig ef þú þarft að eiga við eitthvað standandi í hurðaopinu.

Hurðir á báðum hliðum gera aðgengi að hleðslurýminu einfalt og þægilegt.
Mælaborðið í Peugoet Partner er af gamla skólanum og er hér greinilega gert ráð fyrir að þetta eigi að endast. Engir snertiskjáir sem gætu rispast heldur aðeins þægileg tækni sem hægt er að vinna með í vinnuvettlingum.
Speglar Peugeot Partner eru af stærri gerðinni en það vantar þó á þá gleiðhornahluta. Besta leiðin gegn því er að haka við blindhorna sjónkerfi í baksýnisspegilinn. Nú eða finna einhverja bleika af gömlum vörubíl og skrúfa þá undir.
Það er þægilegt að bara hanga aftur í Peugeot Partner og slaka vel á.

Um allan bílinn má svo finna sniðugar lausnir á hlutum. Bakið á miðjusætinu fellur niður og verður skrifborð. Fyrir ofan ökumann er að finna geymsluhillu og um allt mælaborðið eru lítil hólf til að henda hlutum í og gleyma…, ég meina geyma þá þar. Farþegasætið er hægt að fella fram á við til að opna hlera og koma fyrir löngum hlutum.

Bíllinn er þriggja sæta og leggst miðjusætið niður með einni einfaldri hreyfingu. Hægt er að renna bakinu fram á við og er þá komið príðisgott borð til að sinna pappírsvinnu.
Fyrir ofan ökumann er að finna þessa ágætu og stóru hillu sem er fullkomin fyrir teikningar og pappírsvinnu þegar búið er að vinna með hana á sætisbakinu.
Auðvelt og þægilegt er að leggja niður framsætið til að koma fyrir löngum hlutum.

Ef þú ert iðnaðarmaður og þarft að fara á milli staða með strippsúlu, páfagauk, spegil og fötu er ekkert mál að koma því öllu fyrir.

Þarna má sjá hvernig þessi ágæti hleri nýtist. Þú einfaldlega stingur þessum mjóa og langa hlut í gatið.

Lokaorð

Peugeot Partner kom mér skemmtilega á óvart með ánægulegum aksturseiginleikum, góðri smíði og að vera þægilegur í umgengni. Útfærslurnar á honum eru margar og eflaust geta allir fundið einhverja við sitt hæfi. Það er erfitt að mæla með sérstakri útgáfu af Peugeot Partner því þú verður að kaupa þá sem þér hentar. Í aukabúnaðarlistanum mæli ég hinsvegar með því sem kallast „Surround Rear Vision“, stóra skjánum í mælaborðið og dráttarkrók.

Ef þér lýst á’ann, keyptann.

Helstu tölur:

Verð frá: 3.140.000 (Eins og á sýndum bíl)

Vélar í boði: Dísel

Rúmmál hleðslurýmis m3: 3.3 (L1) og 3.9 (L2)

Lengd hleðslurýmis (mm): 1817 (L1) og 2167 (L2)

Breidd hleðslurýmis (mm): 1527/1733

L/B/H: 4403(4753L2)/2107/1860

Bruðargeta: 559 (L1) og 843 (L2)

Svipaðar greinar

Svipaðar greinar