Munið þið eftir AMC Concord?
Árið var 1978 þegar foreldrar mínir keyptu sinn fyrsta og eina ameríska bíl. Sá var af gerðinni AMC Concord 1978 árgerð. Bíllinn var búinn sex strokka, 236 cu, 3,8 lítra vél sem gerði bílinn sérstaklega skemmtilegan akstursbíl.

Concord var byggður á níðsterkum AMC Hornet. Sá var svolítið klunnalegur og mörgum þótti hann ljótur. Concordinn var aðeins fríðari og búið að hengja á hann slatta af skrauti.
Lúxus á betra verði
AMC menn endurbættu Concordinn með tilliti til þæginda. Til dæmis voru sætin plussklædd, stór og mjúk, mælaborðið var frekar klossað en það var plastklætt með viðaráferð og náði sú klæðning yfir allt mælaborðið.
.jpg)
Sérstakur bíll
Árið 1978 var salan á Concord meira en helmingur framleiðslu allra bíla hjá AMC. Minnsti bílaframleiðandinn í USA var með „hittara”. Í auglýsingum var lögð áhersla á nýjan lúxus í „réttri” stærð en bíllinn var mun minni en margir bílar áttunda áratugarins.

10.4 sekúndur í 100 km. á klst. og hámarkshraði 160 km. klst. Hjóðlátur, silkimjúkur og stýrið lauflétt vökvastýri. Vökvabremsurnar voru hættulega nákvæmar.

Egill Vilhjálmsson bílaumboð
Ég var tólf ára. Við mamma og pabbi sóttum þennan bíl niður í Egil Vilhjálmsson. Egill Vilhjálmsson var til húsa á horni Rauðarárstígs og Laugavegs, beint á móti Hlemmi. Ég man að bíllinn kostaði í kringum 3,7 milljónir á verðlagi þess tíma (1978).
Við fengum bílinn afhentan í bílakjallara hússins númer 87 við Grettisgötu en það brann fyrir nokkrum árum.

Ég man lyktina af ryðvörninni, bóninu og terpentínu – kölluð “nýjalykt” og það var plast á sætunum sem ekki var tekið af fyrr en heim var komið.
Ég féll alveg fyrir hljóðinu í vélinni á leiðinni heim.
Ég stalst til að keyra
Ég elskaði þennan bíl og þetta er sá bíll sem fjölskyldan átti hvað lengst, ein þrjú ár minnir mig.
Árið 1980 var ég fjórtán ára gamall og gat ekki beðið eftir að fá bílprófið. Ég bauðst til að þvo, þurrka og bóna og fékk að færa bílinn til á planinu á meðan.
Þegar „bón” stundirnar urðu lengri og fleiri fór ég að stelast út úr innkeyrslunni og aka aðeins um hverfið (við bjuggum á þessum tíma í Setbergslandi í Hafnarfirði) en á þeim tíma voru bara malarvegir um hverfið.

Oft ók ég inn að skemmu svokallaðri þar sem nú er ekið upp Klettahlíðina í Hafnarfirði.
Þegar þessi bíll var seldur fór hann til Keflavíkur og var í eigu sama aðila í hartnær aldarfjórðung eftir því sem ég best veit.
Upphaflega var númer bílsins R 1776. Númerið er enn notað í fjölskyldunni. Skyldi þessi fákur ennþá vera til?
(Myndir: Víðs vegar af netinu).
Umræður um þessa grein