Hann gat ekkert gert; stóð bara og horfði á þumalfingur hægri handar kremjast. Þannig var það nú í tilviki manns nokkurs sem kallar „mjúklokunarbúnað“ nýrra bíla „fallöxi nútímans“ og gefur ekki þumlung eftir hvað lögsókn á hendur Mercedes varðar. Enda ófær um allt eftir „öxina“.
„Þetta er ekkert annað en fallöxi nútímans!“ segir aðstoðarlögreglustjórinn Richard Kastigar, hinn ólánsami maður sem missti hluta þumalfingurs þegar fingurinn kramdist með „hjálp“ mjúklokunarbúnaðar nýs Mercedes-Benz GLE.
Nú skal strax tekið fram að hér er vísað í frásögn mannsins en því er að sjálfsögðu ekki haldið fram að sjálfvirkur lokunarbúnaður sé gallaður eða sökudólgurinn, enda hefur undirrituð engar forsendur til að meta eitt eða neitt í þeim efnum.
Mýktinni ekki fyrir að fara
Hjá umboðsaðila hins þýska gæðafáks hér á landi kallast það sem um ræðir „mjúklokun á hurðum“ og er það þýðing á „soft close doors“ [einnig nefnt „power closing doors“] og virkar búnaðurinn svona alla jafna:
?
Svona er sagan: Eftir að bílnum hafði verið lagt í bílskúrnum fór frú Kastigar úr skúrnum og inn í hús á meðan eiginmaðurinn mjakaði sér út úr bílnum. Þar sem hann snéri baki í bílinn virðist hann hafa haldið utan um eitthvað á hurðinni sjálfri meðan hann klöngraðist út (af hverju virkar þetta voðalega klaufalegt allt saman?) „lokaðist hurðin skyndilega á þumalinn á honum,“ segir í frétt sem birtist á erlendri fréttasíðu sem fjallar um frekar leiðinleg mál.
Kustigar segist hafa fundið hvernig þumall hægri handar kramdist og hann hafi horft á þegar „hurðin sleit efri hluta þumalsins“ af. Ekki getur það hafa verið mjúkt á nokkurn hátt þó að mjúklokun sé nafnið á þessum búnaði.
Ekki hægt að festa stúfinn
Sem fyrr segir er Kastigar þessi aðstoðarlögreglustjóri og hefur unnið hjá Pima County Sheriff Department í Arizona síðan 1977. Þann 1. janúar 2021 var hann hækkaður í tign og virðist hann hafa notað launahækkunina sem því fylgdi til að kaupa sér almennilegan bíl.
Nema hvað! Á bráðamóttöku sjúkrahússins var reynt að gera eitthvað sjallt til að hægt væri að koma stúfnum, sem varð viðskila við heildina, fyrir á sínum stað en allt kom fyrir ekki.
Rétt er að geta að á meðal þess sem Kastigar og lögmenn hans nefna í málsgögnum er að „fallöxi nútímans“ ætti að hafa skynjara sem komið gætu í veg fyrir að mennsk krumla geti orðið á milli þegar mjúklokunarbúnaðurinn vinnur sína vinnu. Auk þess er nefnt að mál hafa verið höfðuð vegna sambærilegs búnaðar í BMW og Jaguar.
Greint er frá því á sömu síðu og vísað var í áðan, og trúi ég þessari staðhæfingu rétt mátulega, að í BMW-málinu (árið 2017) hafi dómari vísað því frá með þeim orðum að mannfólkið hafi „skellt bílhurðum á fingurna á sér síðan bílhurðin var fundin upp og þar eru BMW hurðir engin undantekning“.
Getur hvorki vaskað upp né farið á klóið einn
Áður en þessari umfjöllun lýkur er rétt að skjóta inn dálítilli dramatík upp úr gögnum máls en þar segir:
„Maður, sem áður var stoltur og sjálfstæður verndari almennings fyrir hvers kyns ógn og skaða, þarf nú að reiða sig á eiginkonu sína við athafnir daglegs lífs.Athafnir eins og að fara á salerni, rakstur, tannburstun og það að klæða sig og hneppa skyrtuhnöppunum. Hann á í mestu vandræðum með að halda á penna, nærast, reima skó, nota verkfæri sem og að aðstoða við almenn heimilisþrif eins og að þvo þvott og vaska upp.“
Já, aumingjans maðurinn getur ekki vaskað upp, farið einn á klóið og raunar segir að hann geti ekki einu sinni unnið lengur. Aðstoðarlögreglustjórinn þarf nú sjálfur aðstoð.
Án þess að maður vilji eitthvað vera að fetta fingur út í málatilbúnað eða gera þetta persónulegt þá verð ég samt að segja að maður þekkir fólk sem hefur misst mun meira en bút af þumli og getur gert allt það sem alfingraðir upp á tíu geta. Já, jafnvel leikið á hljóðfæri og alles. En það er auðvitað harmleikur að missa „bút“ af sjálfum sér sisvona í gólfið.
Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein