- Næsta kynslóð Mini „Hardtop“ sýnd á fyrstu opinberu myndunum
- Nýi bíllinn fær þróunaruppfærslur á hönnun
Mini gaf njósnaljósmyndurum um allan heim langt nef með því að senda frá sér myndasyrpu sem sýnir nýja bílinn, Mini Hardtop, í fullum felulitum. Þó að nákvæmari hönnunarupplýsingarnar séu enn faldar, eru myndirnar nógu afhjúpandi til að gefa mjög raunverulega hugmynd um við hverju má búast – og hverju má ekki búast við – af fjórðu kynslóð þessa breska smábíls.
Lítur enn út eins og „Mini“
Það sem er strax ljóst er að næsti Hardtop lítur út eins og Mini; eða, að minnsta kosti, eins og þýska „enduruppfinningin“ á Mini. Hönnuðir hafa ekki breytt hlutföllum hlaðbaksins verulega og þeir héldu áfram að skilgreina stílbragð eins og kringlótt framljós, næstum flatt þakyfirborð og lóðrétt afturljós.
Eitt áhugavert smáatriði er að aðalljósin eru ekki lengur samþætt í húddinu; Mini virðist missa samlokuvélarhlífina í þágu hefðbundnari einingar sem stoppar á um það bil sama stað og A-bitarnir.
Mini setti einnig hurðarhúnana slétt við yfirbygginguna. Autoblog gerir ráð fyrir að fleiri smáatriði muni birtast þegar feluliturinn hverfur.
„Það sem þú munt sjá árið 2023 er að við höfum greinilega nútímavætt bílinn með því að taka stórt skref — stærsta skrefið á síðustu 20 árum — en það verður ótvírætt Mini,“ sagði Bernd Körber, yfirmaður Mini, í desember 2020. Hann bætti við að einkunnarorð verkefnisins væru „ekki breyta svona táknmynd”.
Eingöngu rafmagn 2030?
Mini vonast til að verða vörumerki eingöngu fyrir rafmagn í byrjun 2030, en við erum ekki komin þangað enn. Þó að Hardtop-bíllinn í felulitum gangi fyrir rafhlöðum, munu bensínknúnar gerðir áfram vera hluti af úrvalinu á mörgum mörkuðum um allan heim. Það er of snemmt að gefa upp tæknilegar upplýsingar, en það er sanngjarnt að gera ráð fyrir að bæði rafbílar og bílar með bensínvél muni njóta góðs af endurbótum á drifrásinni.
Framhjóladrif verður áfram staðalbúnaður eins og alltaf hefur verið. Mun handskiptingin lifa af? Við krossum fingur.
Frumsýndur 2023
Frekari upplýsingar um næstu kynslóð Mini Hardtop verða gefnar á næstu mánuðum og áætlað er að gerðin verði frumsýnd árið 2023.
Hún er ein af nokkrum nýjum gerðum sem vörumerkið í eigu BMW er með í burðarliðnum.
Áætlað er að næsta kynslóð Countryman fari líka í framleiðslu árið 2023. Rafdrifin og afkastamikil gerð John Cooper Works vörumerkis er á leiðinni og Mini lofaði að koma með crossover sem þeir lýstu sem „litlum“ (sem er mjög afstætt, jafnvel fyrir Mini) sem verður eingöngu fáanlegur með rafdrifinni aflrás.
(Frétt á Autoblog)
Umræður um þessa grein