Mikið þrekvirki að aka upp á Esjuna
Sunnudaginn 17. janúar 1965 unnu 14 menn mikið þrekvirki, eins og það var orðað í Alþýðublaðinu, þegar þeir komu þremur jeppum upp á Esjuna. Í dag er þetta auðvitað algjörlega bannað eins og allir vita, en þetta var nú á síðustu öld.
Svo sagði frá í Alþýðublaðinu þriðjudaginn 19. janúar 1965:
„Fjórtán menn unnu það þrekvirki s.l. sunnudag að fara á þrem bílum upp á efstu bungu Esju. Bílar hafa að vísu áður farið upp á Esju, en aldrei alla leið þangað sem hún er hæst, svo vitað sé.
Einn aðalhvatamaður ferðarinnar var Hreinn Ólafsson, Laugabóli, og var hann einnig fararstjóri. Leiðsögumaður var Haraldur Jóhannsson úr Kjós. Í ferðinni voru þrír jeppar.
Ásgeir Long, Reykjalundi ók rússneskum jeppa, Níels Hauksson Helgafelli, ók Land-Rover, og Hreinn Ólafsson ók þriðja bílnum, sem var Willys-jeppi. Ferðalangarnir eru allir búsettir í Mosfellssveit nema leiðsögumaðurinn.
Lagt var af stað upp á fjallið á sunnudagsmorgun kl. 10,30 frá Eilífsdal í Kjós og ekið upp eftir Flekkudalshálsi og voru þeir komnir upp kl. 15,30. Kjósverjar höfðu haft veður af ferðalaginu og héldu nokkrir ungir menn úr sveitinni á eftir leiðangrinum og náðu honum þegar verið var að reyna að koma bílunum upp Nónbungu, sem var erfiðasti kafli leiðarinnar. En þar urðu þeir að setja bönd á bílana og höggva raufir í skaflinn fyrir efri hjólin, vegna hliðarhallans.
Kjósverjarnir höfðu mikinn áhuga fyrir leiðangrinum og létu ekki sitt eftir liggja við að aðstoða þá leiðangursmenn sem fyrir voru, að koma bílunum yfir erfiðustu torfærurnar. Mikið harðfenni var í hlíðar lautum og eins uppi á Esju, gerði það bílunum kleyft að komast yfir ýmsa kafla leiðarinnar sem annars hefðu orðið þeim ófærir með öllu.
Efst á Esjunni var 13 stiga frost á sunnudag og mikill skafrenningur en við rætur fjallsins var aðeins 6 stiga frost. Farið var sömu leið niður og urðu leiðangursmenn þá að reka niður járnkarla í harðfennið og settu kaðla í bílana og héldu við þá niður bröttustu skriðurnar og harðfannirnar. Ferðin niður tók um tvær og hálfa klukkustund og komu leiðangursmenn niður í Mosfellssveit um sjöleitið á sunnudagskvöld.“
Svo mörg voru þau orð í Alþýðublaðinu um þennan leiðangur mannanna!
Umræður um þessa grein