MG4 er nettur þægilegur rafbíll

Tegund: MG4

Árgerð: 2023

Orkugjafi: Rafmagn

Verð, pláss, afl
Birtustig skjás
417
DEILINGAR
3.8k
SMELLIR

Þeim fjölgar hratt kínversku rafmagnsbílunum á markaðnum hér á landi um þessar mundir. Og flóran er fögur ef svo má að orði komast.

MG4 er mjög huggulegur fólksbíll.

Við prófuðum á dögunum einn af þessum nýju kínabílum en sá heitir MG4 og er frá BL.

Kemur á óvart

Þeir koma manni svo á óvart þessir nýju rafmagnsbílar. Sífellt að verða betri á alla vegu. Til dæmis lítur MG4 ekki út fyrir að vera stór bíll en þegar sest er inní bílinn er hann engu minni en bíll eins og til dæmis Hyundai Kona.

Fallegur frágangur að aftan og heil ljósastika setur flottan svip á bílinn.

MG4 er sá rafbíll sem boðinn er á einu besta verðinu á markaðnum í dag.

Hægt að velja

BL býður bílinn í nokkrum útfærslum en grunnútgáfan er með 52 kW rafhlöðu sem gefur um 350 km. drægni samkvæmt WLTP staðlinum. Sá sem við prófuðum er af Luxury gerð.

MG4 Luxury kemur á 17 tommu felgum á meðan grunnbíllinn kemur á 16 tommum.

Hann er betur búinn og býður upp á meiri þægindi. Sá bíll er með 64 kW rafhlöðu og um 450 km. drægni.

Einvörðungu er hægt að velja um drif á tveimur hjólum og er drifrás að aftanverðu – sem sagt afturdrifinn bíll.

Sætin eru þægileg, halda vel við og allur frágangur er til fyrirmyndar.

Gamaldags útlit

MG4 svipar mjög til Nissan Leaf í útliti að okkar mati en segja má að hann sé kannski ekki beint eins og klipptur út úr bílablaði þar sem nýjasta tískan er sýnd.

Hurðir opnast vel bæði að framan og aftan og þægilegt er að ganga um bílinn.

Það álit breytist hins vegar aðeins þegar inn í bílinn er komið. Þar hefur tekist ágætlega til og allt frekar einfalt og þægilegt.

Mælaborðið lætur svo sem ekkert mikið yfir sér en sýnir allar upplýsingar mjög vel og í miðjunni er skjár sem er bæði stór og hraðvirkur.

Hér er allt innan seilingar fyrir ökumanninn og takið eftir að það eru takkar undir skjánum sem eru fyrir helstu aðgerðir.

Eini gallinn við skjáinn er reyndar birtustigið en það sést ekki nógu vel á hann þó svo að sólin hafi ekki verið að blinda okkur í þessum reynsluakstri.

Flottur að innan

Sætin í bílnum eru sérlega þægileg og þau halda vel við bak og læri. Eftirtektarvert var hversu þægilegt er að sitja afturí bílnum. Þar er eins og smá sveigja á sætisbækinu sem gerir að verkum aftursætið heldur mjög vel við.

Aftursætin eru frekar djúp og halda þannig mjög vel við. Takið eftir appelsínugulu skreytingunni sem gefur innréttingunni skemmtilegan blæ.

Höfuðpláss afturí er ágætt en fyrir stærri einstakling en mig hefði örugglega verið farið að þrengja að.

Nægt afl

Luxury bíllinn kemur með 204 hestafla mótor með 250 Nm togi. Sú samsetning gerir bílinn ágætlega aflmikinn og það er nægt afl í boði fyrir bílinn fyrir það notagildi sem hann er hugsaður fyrir.

Farangursrýmið er 363 lítrar og stækkanlegt í 1.177 lítra með því að fella niður sætin.

Þetta er fyrst og fremst borgarbíll fyrir til dæmis fjölskyldufólk, hagkvæmur og þægilegur bíll sem gerir það sem til er ætlast.

Góð akstursupplifun

MG4 er þægilegur í akstri, lætur vel að stjórn og stýrið er með þægilegt grip.

MG4 er með hæð undir lægsta punkt upp á 15 sm.

Sjónlína er frekar há og þú horfir vel út, bæði framfyrir og til hliðanna.

Við erum ekki að tala um sportlega eiginleika af neinu tagi enda bíllinn frekar mjúkur á alla vegu. Fjöðrunin er fín og alveg passleg fyrir borgarbíl í þessum stærðarflokki.

Falleg og þægileg sæti í MG4.

Eftir því sem fleiri rafbílar koma á markaðinn verða þeir æ líkari bílum með hefðbundnum bílum með brunavélum.

Þessi bíll er þar engin undantekning. Hann minnir mig bara á Nissan Micra frá því í gamla daga. Og fjöðrunin er að batna líka.

Við þurfum væntanlega ekki að tíunda búnaðinn í bílnum enda umboðið með fínan vef sem sýnir hann toppvel. Einnig lýsum við bílnum mjög vel í myndbandinu sem fylgir þessari grein.

Vel búnar gerðir

Samt sem áður er allt í þessum bíl sem nútíma bíllinn hefur. Akreinastýring, akreinavari, skynvæddur hraðastillir, varmadæla, íslenskt leiðsögukerfi, ökumannsvöktun, blindhornaviðvörun og hliðar árekstrarvörn svo eitthvað sé nefnt.

Fimm stjörnu bíll

Annars er MG4 öruggur bíll á flesta vegu, hann skorar hátt hjá EURONCAP og fékk fimm stjörnur í prófi hjá þeim.

Mjög nálægt 80% skor í öllum þáttum nema varðandi gangandi vegfarendur en þar eru dýrari bílar með búnað sem skynja slíkt að skora hærra.

Þeir eru ekki margir bílarnir á markaðnum eins og er sem keppa við MG4 en eins og áður sagði er Hyundai Kona, Peugeot 208, Opel Mocca og rétt ókominn BYD Dolphin bílar sem þjóna svipuðum tilgangi.

Verðið er fínt

Það er þó engin launung að MG4 er á góðu verði og það eru búnaðarvalkostir í boði.

Þú getur valið grunngerðina ef þú kemst af með minni drægni og afl en Luxury bílinn ef þú vilt öflugan borgarbíl sem hentar líka sem fjölhæfur fjölskyldubíll.

MG4 er góð viðbót við annars stækkandi úrval rafbíla á markaðnum og má segja góður kostur fyrir þá sem vilja vel búinn bíl á góðu verði.

Helstu tölur:

Verð: 5.490.000 kr. (grunnútgáfan kostar 4.490.000 kr.)

Afl mótors: 204 hö.

Tog: 250 Nm.

Drægni: 450 km. skv. WLTP staðli

Hleðslugeta: 135 kW á klst.

Hleðslugeta með heimastöð: allt að 11 kW á klst.

Stærð rafhlöðu: 64 kWst.

Lengd/breidd/hæð: 4.287/1.836/1.504 mm.

Svipaðar greinar

Svipaðar greinar