Flutningabíllinn Tesla Semi hefur verið á „leiðinni“ á markað í mörg ár. Og enn tefst hann um rúmt ár eða tvö til viðbótar.
Fyrst stóð til að þessi ofurkassabíll kæmi á markað 2019. Það var tilkynnt árið 2017 og var eftirvæntingin að vonum mikil eftir raftrukki sem kæmist 1000 kílómetra á hleðslunni.
Æji já, hleðslunni… Það þurfti að finna út úr nokkrum risavöxnum atriðum hvað hleðslumál varðaði.
Þess vegna var gefið út að örlitlar tafir yrðu og framleiðsla hæfist ári síðar. 2020. Það var frekar erfitt ár fyrir allt og alla, munið þið? Jæja, 2021 skyldi allt gerast. En það ár er senn á enda og hefur verið tilkynnt að Tesla Semi fari í framleiðslu árið 2023.
Seinagangur en betri bíll
Ef rétt er að „góðir hlutir gerast hægt“ þá ætti Tesla Semi að verða voðalega fínn því hægt hefur þetta gengið. En þrátt fyrir hægaganginn mun Semi komast hratt þegar hann loks kemur.
Hann á að komast úr kyrrstöðu upp í 100 km/klst á 20 sekúndum með 36 tonna farm í belgnum! Það er sko alveg grjótmagnað! Hann ætti að komast 800 kílómetra á hleðslunni, sem er styttri vegalengd en talað var um í upphafi. Verðið er áætlað 180.000 dollarar eða 23.2 milljónir króna.
Öruggasti flutningabíll „ever“
Autopilot-inn (sjálfstýringin) verður gasalega fullkominn, segja þeir (Tesla) á síðunni sinni og fullyrt er að þetta verði öruggasti flutningabíll „ever“.
Bílstjórasætið er í miðjunni, eins og sést á meðfylgjandi mynd, og ætti bílstjóri að sjá ljómandi vel úr hásætinu sínu. Bíllinn hefur lágan þyngdarpunkt og ætti bíllinn ekki að velta svo glatt.
Ekki ætlar undirrituð að hætta sér út í hleðsluútskýringar í þessu samhengi. Fyrst sérfræðingunum hjá Tesla hefur reynst erfitt að finna út úr þessu þá er best að snerta ekki á þessu rafmagnaða dóti.
Ljótt rusl eða krúttlegt kvikindi?
Fyrsta sem mér datt í hug þegar ég sá myndir af Semi voru einhverjar engisprettur sem mig minnir að ég hafi séð í teiknimyndinni Pöddulíf.
Í dag hafa tístendur (notendur Twitter) tjáð sig um útlit Semi og margir eru auk þess fúlir vegna endurtekinna tafa á framleiðslu bílsins. Þeir sem eru mikið fúlir segja oft eitthvað fúlt um útlitshönnunina í leiðinni:
„Þetta hús á bílnum er gjörsamlega úrelt. Hönnun sem framleiðendur utan Bandaríkjanna gáfu endanlega upp á bátinn fyrir fjörutíu árum síðan,“ segir einn.
„Það er rosalega leitt að enn einu sinni hafi framleiðslunni verið frestað. En rafhlöðurnar verða vonandi enn betri og það er gott mál,“ sagði annar.
„Þvílík vanvirðing við kaupendur að svíkja loforð svona!“
Svona er þetta nú samt en gangi allt upp í Tesluhreppi þá er von á hellingi þaðan árið 2023. Cybertruck, Semi og Roadster. Bíðum aðeins lengur sjáum svo hvað gerist!
Umræður um þessa grein