Max Verstappen, sjálfur heimsmeistarinn í Formúlu 1, segist ekki eins góður á skautum og margir Hollendingar munu víst vera. Enda er hann jú heimsmeistari í Formúlu en ekki listdansi á skautum!
Tengist þetta undarlega umræðuefni því að hann og Austurríkismaðurinn Franz Zorn öttu „kappi“ á ísilögðu vatni: Verstappen á Formúlubíl og Zorn á mótorhjóli. Það er rúm vika síðan þessi ís-sprettur fór fram á GP Ice Race hringnum við flugvöllinn í Zell am See, skammt frá Salzburg í Austurríki en Red Bull birti myndefnið í gær.
Þetta var gert til að fagna komandi keppnisári og sennilega líka til að vekja athygli á akstursíþróttum, Red Bull og alls konar öðru í leiðinni.
Áður í snjó en aldrei á svelli
Þó svo að Verstappen hafi ekið Formúlubíl í snjó uppi í fjöllum (hlekkur hér fyrir neðan) þá var þetta í fyrsta skipti sem hann ók slíkum bíl á ís. Og jú, hann staðfesti það sem við vissum nú fyrir: „Þetta var frekar sleipt.“
Var bíllinn á hressilega negldum Pirellidekkjum og í fyrsta skipti voru græjurnar (hjálmur og bíll) merktar með tölunni 1 en ekki 33.
Það getur verið sniðugt að „hita upp“ á ísnum en nú styttist í að ballið byrji. Formúla 1 í allri sinni dýrð og drama. 23 keppnir eru framundan en fyrst þarf að gera eitt og annað:
Þann 9. febrúar verður RB18 bíllinn afhjúpaður og verður gaman að fylgjast með því. Prófanir fara svo fram í Barcelona dagana 23.-25. febrúar og í Bahrain 10.-12. mars. En fyrsta umferð tímabilsins fer fram þar, í Bahrain, dagana 18-20 mars.
?
Hér er stutt en sniðugt viðtal þar sem Verstappen segir nokkur orð um ís-sprettinn, númeraskiptin á keppnisbílnum úr 33 í 1 og fleira. Þetta er rúm mínúta en aðalsnilldin er myndbandið fyrir neðan þetta og það er brakandi nýtt!
?
Marrandi fínt myndband af ísnum:
Annað efni um Verstappen eftir sama höfund:
Formúlubíll á fjöllum
Af númerunum 0, 1 og 33
Æska Max Verstappens
50.000 € sekt fyrir að snerta bílinn
Hamilton: „Þessi náungi er *** klikkaður“
Max Verstappen heimsmeistari!
Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein