Sébastien Loeb og Isabelle Galmiche unnu Monte-Carlo rallið og er þetta áttugasti sigur hans í WRC rallinu en fyrsti sigur hennar. Alls hefur nífaldur heimsmeistarinn, Loeb, unnið Monte-Carlo rallið átta sinnum. Það er erfitt að átta sig á öllum þessum áttum.
Hálfnafni hans og samlandi, Sébastien Ogier varð í öðru sæti ásamt aðstoðarökumanninum Benjamin Veilas. Í þriðja sæti urðu þeir Craig Breen og Paul Nagle frá Írlandi.
Af sigri Isabelle Galmiche er það að segja að hann er sögulegur því kona hefur ekki unnið í WRC frá árinu 1997 þegar Fabrizia Ponz og Piero Liatti unnu Monte-Carlo rallið á Subaru WRC.
Fleira er það sem fer úr þessu ralli yfir í sögubækurnar því þetta er í fyrsta sinn sem keppt er á tvinnbílum í WRC. Ford Puma Hybrid var farkostur þeirra Loebs og Breens en Ogier var á Toyota Yaris GR.
Nokkrar myndir fylgja hér en bætast fleiri við þegar ljósmyndarar fara að skila af sér listaverkum dagsins.
Umræður um þessa grein