Marvel spáir glimrandi framtíð

TEGUND: MG Marvel R

Árgerð: 2022

Orkugjafi:

Rafmagn

138
DEILINGAR
1.3k
SMELLIR

Þá er það bara komið; undrið. MG Marvel R Electric. Marvel þýðir nefnilega undur og það er skemmtilegt. Persónulega finnst mér hann undurfagur á að líta en það er vissulega smekksatriði.

Þegar ég kom og sótti bílinn upp á Sævarhöfða beið Marvel fyrir utan, í „gangi“ og það var virkilega notalegt að setjast inn í hlýjan bílinn á þessum kalda og dimma vetrardegi.

Ekki nóg með það heldur var útvarpið stillt á X-ið og eðalsmellur í spilun. Maður er nú með grímu þessi misserin og mátti ég varla við því að færu margar grímur færu að renna á mig en svona byrjaði þetta nú ljómandi vel hjá okkur Marvel.

Hver er þetta eiginlega?

Það hafa eflaust fáir áhuga á að lesa mikið um skilgreiningu blaðamanns á fegurð bílsins og þess vegna fylgja hér myndir sem við mæðgin tókum af Marvel í brakandi froststillu.

MG Motor UK Limited er enskur bílaframleiðandi. MG varð til í Morris Garages upp úr 1920 og hafa höfuðstöðvar MG verið Englandi að því er virðist alla tíð.

Lengi vel í Oxford en nú í London. Í dag er MG dótturfélag SAIC Motor UK sem er að hluta til í eigu kínverska ríkisfyrirtækisins SAIC Motor.

Af hverju er ég að fjalla um þetta? Jú, það er ástæða fyrir því. Góð og gild. Svo góð að úr varð pistill sem lesa má hér og fjallar um tengingar við Kína.

Marvel er stærsti bíll MG og á meðal „keppinauta“ hans á markaði má nefna Skoda Enyaq og VW ID.4, ef það hjálpar til við að átta sig á stærðinni.

Verðið er frá 6.499.000 kr. (Luxury útfærsla) en sá bíll sem hér er fjallað um er fjórhjóladrifinn og nefnist útfærslan Performance. Hann kostar 7.199.000 kr. Báðar gerðir eru með  70 kWh rafhlöðu og á hleðslunni gæti Marvel komist 402 kílómetra við bestu skilyrði.

Hröðunin frá 0 til 100 er 4,9 sekúndur. 288 hestöfl og togið 665 Nm. Lipur er hann og rennilegur mjög.

Alltaf glaður og gott að ganga um  

Þegar horft er framan á bílinn er ekki laust við að Marvel virðist brosa til manns. Jafnvel eilítið kankvís. Síkátur og í sídrifi.

Auðvitað fer maður ekki á röltið inni í bílnum og það er alls ekki það sem orðin „að ganga um“ vísa til.

Heldur er það stóra atriðið: Hvernig er að komast inn í bílinn og út úr honum, hreyfa sig, setja á sig beltið og allt þetta hefðbunda sem maður gerir. Það er ljómandi gott að athafna sig í honum Marvel.

Virkiega gott aðgengi og svo er hann mjög rúmgóður aftur í. Þótt stærra farangursrými sé til en í Marvel (357/1396 lítrar) þá er þetta fínt fyrir það helsta. Golfsett (var samt ekki með svoleiðis í brunagaddi uppi á Hellisheiði) kæmust vel fyrir og mörg sett ef sætin aftur í eru felld niður. Dráttargetan er 750 kg og þakálag 50 kg.

Frábært Bose 9 hljóðkerfi með 9 hátölurum er í útfærslunni sem var prófuð en allt um búnað í gerðunum tveimur má finna hér.

Hann er hlaðinn svakalega flottum búnaði og allt sem manni getur dottið í hug er að finna í Marvel. Og ótalmargt sem manni hugkvæmdist ekki þó ímyndunaraflið væri gott.

Eldsnöggur en hægur á einn hátt

Þó er það eitt sem truflaði mig við „undrið“. Það er hversu viðbragðið í snertiskjánum er lélegt. Viðbragðið er auðvitað til staðar en mikið ósköp virðist það taka langan tíma fyrir boðin að komast á leiðarenda.

Eflaust er þetta eitthvað sem venst, eigi maður MG Marvel, en fyrir þau okkar sem aka ýmsum bílum þá er þetta pirrandi fyrst í stað.

Annars eru ekki margar ástæður til að pirrast um borð í Marvel. Hann er lúxusvagn, fallegur, brosandi og vinnur vel og er svo vel innréttaður að það liggur við að mann langi til að fara í sparifötin til að vera í stíl við hann.

Og svei mér ef hann verður ekki enn glimrandi fínn í fjarlægri framtíð. Glimrandi fornbíll. En það eru tuttugu og fimm ár í það og flott að fara á rafmagninu inn í framtíðina.

Ljósmyndir: Óðinn Kári og Malín Brand

Svipaðar greinar

Svipaðar greinar