Martraðarkennd upplifun bílasala
Bílasalar sjá vissulega ýmislegt fleira en misjafna bíla í starfi sínu. Fáir segja frá reynslu sinni opinberlega en inn á milli eru þeir sem deila sögum með öðrum. Eins og í þessu tilviki. Hér er saga sem fær hárin til að rísa…eða detta af!
Undirrituð rakst á frásögn bílasala nokkurs sem hann sagði nafnlaust frá fyrir sjö árum. Atvikið sem um ræðir átti sér stað árið 2011 og ég held að það sé best að segja söguna eins og hann sjálfur sagði hana. Þannig að „ég“ í textanum er ekki „ég“ [Malín] heldur nafnlaus bílasali í Bandaríkjunum!
Og hefst nú sagan:
Ég hafði verið bílasali í fimm ár á sömu bílasölunnni þegar þetta atvik átti sér stað. Hafði maður þá séð eitt og annað er starfinu fylgir. Eitt af því undarlegasta var lágvaxin gömul kona sem kom til okkar. Kona sem var virkilega indæl en ellihrum.
Hún kom akandi á silfurlitum Lincoln Town Car af 2001 árgerðinni. Hún sagði að bíllinn væri andsetinn og að „maðurinn í útvarpinu“ hefði sagt henni að hún ætti að kaupa nýjan bíl.
Það kom dálítið fát á mig við þessi orð hennar en ég varð við ósk hennar og sýndi gömlu konunni silfurlitan Lincoln Town Car, árgerð 2011 (sem var þá nýr). Um leið og hún sá bílinn varð hún yfir sig hrifin.
Hún vildi fá að prófa bílinn.
Ég bað hana um að sýna mér ökuskírteinið sitt og jú, það gerði hún og allt var eins og það átti að vera. Þannig að ég sótti bíllyklana og við fórum inn í bíl. Hún setti bílinn í gang, ók þvert yfir bílastæðið og snarstoppaði þegar hún kom auga á bílinn sinn, Town Car 2001, á bílastæðinu. Hún sagði: „Heyrðu mig! Þarna er einn silfurlitur! Getum við prófað hann?“
Þarna varð ég fyrst virkilega ringlaður. Ég minnti hana á að bíllinn sem hún benti á væri bíllinn hennar, og að við værum að aka nýjum sifurlitum bíl. „Þá það,“ sagði hún. „Við prófum hann þá bara þegar við komum til baka.“
Mér leið hreint ekki vel með þetta. Ég bað hana að stöðva bílinn eitt andartak, fór aftur inn og ræddi við sölustjórann. Sagði honum hvað væri í gangi og hann virtist álíka undrandi og ringlaður og ég sjálfur. Hann sagði mér að best væri að við kláruðum reynsluaksturinn en ég skyldi þó gæta þess að fara ekki út fyrir hverfið eða upp á hraðbrautina.
Jæja, við yfirgáfum bílastæðið og komum að gatnamótum þar sem umferðin var þétt. Þar sem við biðum eftir græna ljósinu fór hún að spyrja mig hvort illir andar væru í bílnum. Ég hló góðlátlega og sagði: „Alls ekki, þetta er splunkunýr bíll.“
Þá kom græna ljósið og áfram héldum við sem leið lá og var umferðin nokkuð þung en frúin ók á 30 kílómetra hraða en hámarkshraðinn var 70. Hraðar vildi hún ekki aka. Bílarnir geystust fram úr okkur og sumir flautuðu hraustlega. Ég bað hana að láta sem ekkert væri og hvatti hana bara til að einbeita sér að akstrinum og gefa kannski örlítið í. Hún „gaf í“ og vorum við komin á 50 kílómetra hraða.
Við mjökuðumst áfram á 50 og ekkert lát var á áreitinu frá öðrum í umferðinni, þegar hún skyndilega negldi niður. Til allrar hamingju var enginn alveg aftan í okkur því það hefði ekki endað öðruvísi en með aftanákeyrslu.
Kurteislega bað ég hana vinsamlegast að aka út í kant. Hún spurði mig af hverju hún ætti að gera það og ég sagðist mega til með að sýna henni nokkur sniðug atriði í bílnum. Hún ók út í kant og við fórum bæði út úr bílnum. Þá gerði ég mér lítið fyrir og var fljótur að planta mér í bílstjórasætið og sagði: „Jæja, nú ætla ég að sýna þér nokkur töff atriði. Sestu upp í og ég skal aka.“
Á leiðinni til baka á bílasöluna beindi ég athyglinni að því hversu góður bíltúrinn hefði verið og eitthvað í þá veru en hún sagði fátt. Hún var bara afskaplega þögul.
Ég ók upp að bílasölunni og gekk með henni inn. Svo greindi ég sölustjóranum frá því sem gerst hafði. Hann tók undir með mér að þetta væri hið undarlegasta mál og svo fór hann og ræddi við gömlu konuna.
Hún sagði sölustjóranum að hún ætlaði að kaupa bílinn (sem var ekkert annað en músík í eyrum sölustjórans). Hann leit á mig með svip sem sagði „Hvað er ertu eiginlega að hugsa? Seldu henni bílinn.“
Á þessum tímapunkti fannst mér þetta hreinlega rangt svo ég spurði hana hvort hún væri nú alveg handviss um að hún ætlaði að kaupa splunkunýjan bíl einmitt þann daginn. Hún svaraði: „Já, endilega. Eigið þið einhvern silfurlitan Town Car?“ Ég sagði henni sem var: við værum nýkomin úr bíltúr á slíkum bíl.
Hún trúði mér ekki og vildi að ég sýndi henni nýjan silfurlitan Town Car. Ég hringdi í lögregluna og útskýrði fyrir þeim að hjá mér væri stödd kona sem ég héldi að væri með alvarleg elliglöp og ætti ekkert að vera akandi.
Lögreglan kom til okkar á bílasöluna til þess að hitta hana. Þá fengum við að vita að konan hefði horfið af stofnun nokkurri skammt frá.
Þeir höfðu ekki hugmynd um hvernig hún komst yfir bílinn, Town Car 2001, sem hún hafið komið akandi á. Sá bíll var skráður á fjölskyldu í bænum og hafði sú fjölskylda engin tengsl við gömlu konuna og hafði tilkynnt um stuld á bílnum.
Forsíðumynd: Unsplash.com (tengist fréttinni ekki með beinum hætti)
Fleiri mannlegar bílasögur:
Fann falin skilaboð í notuðum bíl
Strákurinn sem safnar bílamerkjum
Gleymdi hvar hann lagði bílnum: Svo liðu 20 ár
?Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein