Margir borga fyrir sóun á hleðslurafmagni
Allt að 30% raforku fara til spillis þegar hlaðið er úr venjulegri innstungu
Fagmenn mæla með hleðslustöð
Með hækkandi orkuverði í Evrópu horfa æ fleiri til rafbíla, hvernig þeir nýta raforkuna og eins mismunandi aðferða við að hlaða rafbílinn heima.
Að hlaða bílinn með innstungu er ekki hættulegra en að nota hleðslustöð, en samkvæmt rannsókn ADAC í Þýskalandi og grein á vef BilNorge kom eftirfarandi fram:
„Allt að 30 prósent af orkunni geta tapast frá innstungunni í bílinn. Það verður dýrt eins og raforkuverðið er í dag“, segir Roger Ytre-Hauge, sérfræðingur í bílamálum hjá Frende Forsikring.
Tölurnar koma frá ADAC, stærstu samtökum bifreiða í Evrópu. Greiningin sýnir að orkutapið er umtalsvert ef þú hleður rafbílinn, eða tvinnbílinn, á gamla mátann.
Ef þú hleður á þennan hátt, með því að hlaða beint frá venjulegri innstungu, taparðu miklu afli.
Það getur verið dýrt eins og raforkuverð margra Evrópulanda er í dag – en munar ekki eins miklu hér á landi vegna lægra orkuverðs.
Þann 1. júlí 2022 tóku einnig gildi nýjar reglur um hleðslu rafbíla í Noregi.
Nýju reglurnar segja að ef þú ætlar að hlaða heima þá verður þú að hafa hleðslustöð. Í nýja staðlinum gilda hvorki venjulegar né iðnaðarinnstungur.
„Rafmagnstapið gefur aðra ástæðu til að setja upp hleðslubox heima. Hleðslugetan er meiri og hún fer líka hraðar. Bættu allt að 30 prósenta aflmissi ofan á, og rökin fyrir því að halda í venjulegu innstunguna eru ekki svo mörg lengur,“ segir Ytre-Hauge.
Rannsóknir ADAC sýna einnig að það er umtalsvert tap á afli ef borin er saman hleðslustöð og hefðbundin rafmagnsinnstunga.
„Eins og raforkuverð er núna í Noregi er heimskulegt að hlaða með lægri afköstum. Þú notar meiri tíma á sama tíma og þú tapar miklu afli. Þá verður rafmagnsreikningurinn fljótt hár,“ segir yfirmaður bílamála hjá Frende.
Besta samsetningin til að hlaða með öryggi, og minni eldhættu og missa sem minnst afl er því að hlaða með sem mestu afli. – Þá er hleðslustöð klárlega besta lausnin, segir Roger Ytre-Hauge.
Mælt er með heimahleðslustöð
Bílablogg leitaði til Ísorku, sem eru reynsluboltar á sviði hleðslu á rafbílum og spurðum þá álits á aðstæðum hér á landi.
Sigurður Ástgeirsson framkvæmdastjóri Ísorku sagðist ekki þekkja þetta mál né þessa rannsókn ADAC, en tók fram að Ísorka kemur hvergi nálægt lausnum sem snúa að því að hlaða rafbíla beint frá innstungu.
„Við mælum við ávallt gegn því nema í brýnustu nauðsyn. Á sama tíma hefur Ísorka aldrei selt eða boðið lausnir fyrir innstungu eða milli/breyti stykki“, segir Sigurður.
„Rétta leiðin er að nota viðeigandi lausnir eins og heimahleðslustöð í öllum tilfellum líkt og framleiðendur bíla mæla með sem og HMS (Húsnæðis- og Mannvirkjastofnun).
Það getur því verið skammgóður vermir að spara í kaupum og faglegri uppsetningu á heimahleðslustöð þegar fólk og fyrirtæki eru að fjárfesta í nýjum rafbílum. Hvort sem um er að ræða hreinn rafbíll eða tengiltvinnbíll.“
Umræður um þessa grein