Þetta er ekki fyrsti bíllinn sem Paul hinn pólski gerir upp. Hann hefur gert upp sjúkrabíla, rallýbíla, löggubíla, strætisvagna, trukka og ég veit ekki hvað og hvað! Meira að segja hefur hann gert ljóta skriðdreka fína.
Á laugardögum og þriðjudögum birtir Paul nýtt efni á YouTube rásinni. Nýtt myndband þýðir nýuppgerður bíll. Þetta hefur hann gert frá 1. janúar 2019 og í upphafi árs setur hann sér markmið og ákveður hvaða bílar verði gerðir upp það árið.
Þetta eru, eins og forsíðumyndin gefur til kynna, bílar af smæstu gerð frá Corgi, Dinky, Matchbox, Hotwheels, Siku, Majorette og Husky.


Vandvirkni framar öllu
Allt er virkilega vel unnið hjá Paul. Eða Paul Restorer eins og hann kallar sig. Hvert smáatriði þarf að vera rétt og er saga hvers bíls rakin. Óneitanlega dálítið sérstakt en það er dásemdin í þessu: Hann gerir þetta fullkomlega og sýnir umheiminum hvað hann er að bralla. Kannski er þetta maður sem er algjör einfari en þarna fær hann að blómstra. Ég veit ekkert um það en hvernig sem það nú er þá er hann á réttri hillu með örsmá verkfærin og allt eftir kúnstarinnar reglum!



Þetta eru frekar löng myndbönd hjá honum blessuðum þannig að ég tók eitt fyrir og skoðaði það helsta. Í myndbandinu gerir hann upp Simca 1100 sem Majorette seldi á árunum 1975-1979.

Paul fer yfir nokkur atriði í texta undir myndbandinu þar sem hann nefnir fylgihluti með bílunum frá Majorette og mismunandi útfærslur leikfangaframleiðandans á sama bíl milli 1975 og 1979. Já, og svo ítarleg smáatriði að það er alveg merkilegt að skoða.

Maður þarf stundum að gefa sér tíma til að njóta smáatriðanna og hreinlega gefa þeim gaum. Þau fara annars svo auðveldlega framhjá manni. Eins og til dæmis sá ég ekki að á Simca vantaði krókinn. Myndi Paul nú varla kalla það smáatriði!

Hér er myndbandið og ég mæli með að áhugasamir stikli þar á stóru, til að skilja nákvæmnisvinnuna sem að baki er.
Annað dellutengt og gott:
Neðanjarðarsafn með „bubblu-bílum“ og ótrúlegum hlutum
Alveg Gaga bílasafnari
Söngvari Metallica kemur á óvart!
Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein