Má bjóða þér fimm hjóla VW?
Hann lítur út eins og Volkswagen enda er þetta Volkswagen. Þó er það engin trygging fyrir því að það sem frá þeim framleiðanda kemur líkist Volkswagen. Ekki minna pylsurnar sem VW framleiðir neitt á það sem maður þekkir sem Volkswagen.
Pylsan með partanúmerið
Rétt áður en við vindum okkur í mál málanna þá er rétt að undirstrika að þetta með pylsurnar er auðvitað sturluð staðreynd: Að söluhæsta vara Volkswagen ár eftir ár hafi ekki verið VW Golf eða Polo, heldur Currywurst-pylsan.
Árið 2018 voru framleiddar (og seldar) tæplega 7 milljónir Currywurst og á hverju ári frá 2013 til 2018 framleiddi VW fleiri pylsur en ökutæki. Pylsuframleiðslan hófst fyrir 49 árum.
Já, pylsan með partanúmerið 199 398 500 A er ekkert grín en þeir sem vilja vita meira um pylsur Volkswagen geta lesið þessa grein hér.
12 kílómetra drægni og 20 km/klst
Þá er loks komið að þessu fimm hjóla farartæki: VW stóll. Skrifstofustóll. Hann er með flautu, sætishitara, öryggisbelti, afþreyingarkerfi með snertiskjá, hátalara, LED-ljós, diskóljós (eða næsti bær við svoleiðis), geymsluhólf, bakkmyndavél, fjarlægðarskynjara, 4” álfelgur, USB-tengi og festingar fyrir „tengivagn“.
„Volksstóllinn“ kemst heila 12 kílómetra á hleðslunni og hámarkshraði er 20 km/klst.
Það eru VW-menn í Noregi sem hafa verið að dunda sér við hönnun á VW-skrifstofustólnum. Þeir segja að tilfinningin, þegar brunað er um á þessu tryllitæki, sé svipuð því að aka bíl. Því miður er ekki boðið upp á reynsluakstur ennþá og því ekkert annað í stöðunni en að ganga út frá því að tilfinningin sé svipuð! Eða ekki.
Grín eða ekki; það skiptir kannski ekki öllu en hér er myndband þar sem farartækinu eru gerð skil. En sé þetta grín þá er það nokkuð gott! Meira um „Volksstólinn“ hér og á Facebook-síðu þeirra hjá VW atvinnubílum í Noregi.
Umræður um þessa grein